Að skipta vatninu

olafur jonsson

April 1997

vatn1

 Að skipta vatninu  / Sandra Postel

Í óshólmum Colorado-fljótsins í Bandaríkjunum hefur Cocopa-fólkið ræktað jörðina og fiskað líklega í um 2.000 ár. Það ræktaði einu sinni korn sem það kallaði nipa, sem er sérstök saltkær jurt. Grasafræðingar þekkja hana sem Distichlis palmeri sem bragðast svipað og villt hrísgrjón. Fólkið fékk líka nóg af eggjahvítu. Það borðaði stundum fisk þrisvar á dag og það veiddi dádýr, villta birni, endur og gæsir. Það gekk undir nafninu „fljóta-fólkið“ og hafði ekkert dagatal, en miðaði líf sitt við árstíðabundin flóð í Colorado. Ekkert manntal getur sagt til um fjölda þess, en sagnfræðileg gögn gera ráð fyrir að um 5.000 Cocopar hafi búið í óshólmunum fyrir um 400 árum.

Í dag er Cocopa-menningin í útrýmingarhættu. Vatnið þeirra hefur sogast í burtu frá Colorado til að fylla sundlaugar í Los Angeles, framleiða rafmagn til að lýsa upp Las Vegas og vökva korn í eyðimerkum Arizona, Kaliforniu og Mexicali-dalnum í Mexiko. Veiðar og jarðyrkja getur ekki lengur brauðfætt fólkið. Síðustu árþúsunda-gamlir lífshættir þeirra hanga á bláþræði vegna Arizona, Kaliforniu og Mexicali-dalsins í Mexiko. Veiðar og jarðyrkja getur ekki lengur brauðfætt fólkið. Það ræktaði nipa síðast upp úr 1950, síðan þá hafa uppistöðulón í Bandaríkjunum minnkað hin árlegu flóð mjög mikið, sem vökvaði á náttúrlega hátt undirstöðufæðu þess. Núna eru aðeins 40-50 Cocopa fjölskyldur eftir á suðurmörkum svæðisins. Með minni afkomumöguleikum í dreifbýli óshólmanna hefur margt fólkið flust til borganna. Anita Alvarez de Williams, sérfræðingur í Cocopa sem býr í Mexicali-dalnum, hefur áhyggjur af því að í lok tuttugustu aldar muni það „ekki lengur vera fljóta-fólk“.

Það gæti verið freistandi að segja sem svo að raunir Cocopa-fólksins séu bara það verð sem framfarirnar kosta. Að halda upp sívaxandi mannfjölda og meiri neyslu hefur alltaf falið í sér að taka meira og meira af kræsingum náttúrunnar og að þeir sem eru síðastir í röðinni þjást alltaf. En burtséð frá þeim harmleik að enn ein menningin tapist úr heimi minnkandi menningarlegrar fjölbreytni, er hnignun Cocopa-fólksins fyrirboði miklu víðtækari upplausnar í nútímasamfélaginu almennt séð.

Reyndar er vaxandi skortur á fersku vatni nú orðinn ógnun við fæðuöryggi heimsins í framtíðinni, hollustu vatnsvistkerfa og félagslegum og stjórnmálalegum stöðugleika. Á hverju ári eru milljónir af korni ræktaðar með þverrandi grunnvatni, glöggt dæmi um rán frá framtíðinni til að borga fyrir nútímann. Samkeppni um vatn er vaxandi, milli borga og bændabýla, milli samliggjandi ríkja og fylkja og milli þjóða, í takt við þær kröfur sem eru um dælingu framyfir takmörk þess heildarmagns sem til reiðu er. Og viðkvæm vistkerfi svo sem flóðavarnir, vatnshreinsun, varðveisla búsvæða og viðhald fiskimiða er verið að eyðileggja með óhóflegum uppistöðulónum, uppskiptingu og mengun fljótanna.

Þar sem áætlað er að jarðarbúum fjölgi um 2,6 milljarða á næstu 30 árum og þar sem neyslustig fer hækkandi, munu vatnsvandamálin vaxa. Bestu staðirnir fyrir uppistöðulón hafa þegar verið nýttir og grunnvatnsbirgðir eru nú þegar yfirnýttar og því eru takmarkaðir möguleikir til að leysa þessi vandamál með því að nýta ný úrræði. Þörf er nýrrar nálgunar, sem miðast að því að nota vatn á skilvirkari hátt og skipta því jafnar.

vatnsdrikkjaTálsýn heimsins

Ljósmyndir af jörðinni sem teknar eru af geimförum sýna áberandi bláa reikistjörnu, þannig að hún sýnist vera vatnskúla sem snýst í alheiminum. En þessi mynd getur verið jafn blekkjandi og eyðimerkurhillingar. Aðeins um 2,5% af öllu vatni heimsins er ferskt, og tveir þriðju af því er geymt í jöklum. Endurnýjanlegar ferskvatnsbirgðir (þær sem hægt er að nálgast ár eftir ár fyrir tilverknað hringrásar vatnsins, sem sólarorkan knýr, í formi úrkomu) eru samtals um 110.300 km3, aðeins 0,008% af öllu vatni á jörðinni.

Á hverju ári fara nærri tveir þriðju af hinum endurnýjanlegu vatnsbirgðum út í andrúmsloftið með uppgufun eða útgufun, upptöku og losun raka plantnanna. Þessi ferill sér skógum, graslendi, ökrum og öllum öðrum gróðri án áveitna fyrir vatni. Afgangurinn, rétt yfir þriðjungur endurnýjanlegu birgðanna, um 40.700 km3 á ári, rennur burtu, til sjávar með ám, fljótum og neðanjarðarrásum (hér eftir nefnt yfirborðsvatn). Þetta eru vatnsbirgðirnar sem allt mannkyn verður að sækja í, fyrir áveiturnar, iðnaðinn, heimilishald og einnig margs konar „innri“ vatnsþörf, þ.m.t. uppblöndun mengandi efna, sjóferða og vatnsaflsvirkjana. Fljótin bera líka næringarefni frá landi til sjávar og stuðla þannig að mjög miklum fiskveiðum á strandsvæðum og í árósum. Þannig að í krafti hringrásar vatnsins vökva höfin löndin, og löndin fæða höfin.

Þó að yfirborðsvatnið sýnist gífurlega mikið, sér náttúran ekki fyrir því að tengja afhendingu vatnsbirgðanna vel við íbúadreifingu heimsins. Svo dæmi sé tekið er 36% af öllu yfirborðsvatni í burtu í Asíu, en þar búa 60% íbúanna. Á hinn bóginn eru 6% íbúanna í Suður-Ameríku, en 26% af yfirborðsvatninu. Amazon-fljótið eitt flytur 15% af öllu yfirborðsvatni heimsins, en er aðeins aðgengilegt fyrir 0,4% jarðarbúa. Mörg fljótanna eru í hitabeltinu eða hátt yfir sjávarmáli, þar sem fáir búa og atvinnustarfsemi er lítil. Líklegt er að þannig verði það um fyrirsjáanlega framtíð, og vatn er erfitt og kostnaðarsamt að flytja langar leiðir. Í raun eru 55 fljót í norðurhluta Norður-Ameríku, Evrópu og Asíu, með samtals um 5% af heildar yfirborðsvatni heimsins, svo afskekkt að uppistöðulón hafa ekki verið byggt í þeim, jafnvel ekki fyrir vatnsaflsvirkjanir.

Samkvæmt athugun frá árinu 1996, sem stjórnað var af höfundi þessarar greinar og Gretchen Daily og Paul Ehrlich í Stanford háskóla, er heildarmagn yfirborðsvatns innan hóflegrar landfræðilegrar „seilingar“ alls um 32.900 km3, eða um 81% af því öllu. En þar með er ekki öll sagan sögð. Um þrír fjórðu af því magni er flóðavatn og því ekki aðgengilegt þegar þörfin á því er mest. Til að bæta upp þann fjórðung sem er aðgengilegur hafa verkfræðingar byggt stór uppistöðulón, þannig að áreiðanlegar vatnsbirgðir úr neðanjarðarrásum og fljótum allt árið eru í raun að hálfu meiri (50%). Það hækkar heildarmagn áreiðanlegra endurnýjanlegra vatnsbirgða upp í 12.500 km3.

Í heiminum öllum notar fólk núna um 35% af hinum aðgengilegu vatnsbirgðum, eða um 4.430 km3 á ári. Að minnsta kosti 19% til viðbótar fara í „innri“ not, til uppblöndunar á mengun, fiskveiða og vöruflutninga. Þannig er mannkynið nú þegar að nota, beint og óbeint, meira en helminginn af þeim vatnsbirgðum sem núna eru aðgengilegar. Vandamálið er að vatnsnotkunin þrefaldaðist milli 1950 og 1990, en á þeim þeim tíma fjölgaði jarðarbúum um 2,7 milljarða. Ef gert er ráð fyrir að íbúafjöldinn vaxi með sama hraða á næstu 30 árum, spáir þetta fyrir um mikinn vanda. Eftirspurnin eftir vatni í heiminum getur ekki þrefaldast aftur án þess að til komi alvarlegur skortur á áveituvatni til kornyrkju og vatni til iðnaðarnota, brýnasta heimilishalds og viðkvæmra vistkerfa sem styðja lífið á jörðinni.

vatnVatns-streita

Skorturinn á endurnýjanlegu fersku vatni er ekki aðeins langtímaógnun, heldur er hann einnig farinn að taka sinn toll í mörgum löndum, sérstaklega þar sem íbúafjöldinn er orðinn meiri en sem svarar hlutfallinu af vatnsbirgðunum. Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) áætlar að 1.600 m3 af vatni á ári á mann þurfi til að framleiða næringarríkan fitusnauðan mat. Á rökum loftslagssvæðum fæst það magn í raun allt beint úr jarðveginum eftir venjulegar rigningar. En á þurrum svæðum og þar sem skýr skil eru milli rakra og þurra árstíða verður hinn nauðsynlegi raki að hluta að koma með áveituvatni frá fljótum, stöðuvötnum og skurðum. Miðað við varlegt mat þarf þriðjungurinn af 1.600 m3 árlegri vatnsþörf á mann fyrir matvæli að koma frá áveitum (framyfir það sem kemur beint frá rigningu), þ.e. um 530 m3.

Auðvitað hafa löndin meiri fæðu en sem svarar þörf þeirra. Mat rússneska vatnafræðingsins Igor Shiklomanov er að heimilin í heiminum, sveitarfélögin og iðnaðurinn noti að meðaltali um 240 m3 á mann á ári af vatni. Víðtækari notkun skilvirkrar tækni gæti minnkað þessa notkun töluvert, en það vegur á móti slíkum sparnaði að meira en 1 milljarður manna hefur ekki ekki einu sinni lágmarksvatnsmagn til heimilishalds og svo þýðir vaxandi auðlegð vaxandi vatnsnotkun. Gert er ráð er fyrir að meðaltalið fyrir árlega vatnsþörf heimila, sveitarfélaga og iðnaðarins, sé 200 m3 á mann ári og með því að bæta þessu við ferskvatnið sem þarf fyrir fæðuframleiðslu, verður þörfin um 730 m3 á mann á ári.

Því miður er erfitt, í mörgum, ef ekki flestum, löndum að komast að og stjórna meira en 30-50% af yfirborðsvatninu. Ennfremur verður hluti yfirborðsvatns að vera í fljótunum til að þynna út mengun og sinna öðrum „innri“ þörfum. Þannig verður heildarmagn yfirborðsvatns að vera 2-3 sinnum meira en magnið sem þarf fyrir áveitur, iðnaðinn og heimilin, sem þá er um það bil 1.700 m3 á mann á ári. Af þessu leiðir að segja má að lönd séu haldin „vatns-streitu“, þegar heildarmagns árlegs yfirborðvatns á mann í þeim fer niður fyrir 1.700 m3.

Sumar vatnsgreiningar halda því fram að þessi „vatns-streitu“ mælikvarði sé misvísandi. Hillel Shuval, prófessor í umhverfisvísindum við Gyðinglega háskólann, bendir á að í Ísrael er mjög árangursríkt nútíma efnahagskerfi og há meðallaun, jafnvel þó að endurnýjanlegt vatn á íbúa sé minna en einn fimmti af þessum vatnsstreitu-mælikvarða upp á 1.700 m3 á ári. Að hluta hefur Ísrael náð svona langt með hinar litlu vatnsbirgðir sínar með því að flytja inn mest af því korni sem notað er í landinu, en Shuval og fleiri líta stundum á það sem „hið raunverulega vatn“ (virtual water).

Reyndar þarf um 1.000 tonn af vatni við framleiðslu á ein tonni af korni, og því er innflutningur þess lykilatriði til að fá jafnvægi á vatnsbúskapinn. Slíkar ráðstafanir gætu virst efnahagslega og umhverfislega skynsamar fyrir lönd sem skortir vatn, þar sem þau geta náð miklu meiri verðmætum úr hinum takmörkuðu birgðum með því að leggja þær til arðbærra fjárvestingarverkefna og nota arðinn af þeim til að kaupa matvæli á alþjóðamarkaði. Sem dæmi má taka Miðausturlönd, sem eru á því svæði sem vatnsskorturinn í heiminum er hvað verstur, en þau flytja inn 30% af því korni sem þau þurfa. Svo lengi sem umframfæða er framleidd annars staðar, þjóðir með afgang sem vilja selja og lönd í þörf, og hafa efni á því, vilja flytja inn, gæti svo virst sem lönd sem skortir vatn geti búið við fæðuöryggi án þess að vera sjálfum sér nóg um matvælaframleiðsluna.

En þessi snyrtilegu rök eru veik þegar litið er til hins vaxandi fjölda íbúa sem býr í löndum, þar sem vatnsöflunarmöguleikar hefta þau í að vera sjálfum sér nóg um matvælaframleiðsluna, og víða eru merki um ósjálfbæra vatnsnotkun á lykilsvæðum matvælaframleiðslunnar. Árið 1995 höfðu alls 44 lönd með samanlagðan íbúafjölda upp á 733 milljónir minna en 1.700 m3 á ári af endurnýjanlegum vatnsbirgðum. Ríflega helmingur þeirra býr í Afríku og Miðausturlöndum, þar sem er spáð að íbúafjöldinn tvöfaldist innan 30 ára. Hin vatnslitlu lönd, Alsír, Egyptaland, Lybia, Marokkó og Túnis flytja nú þegar inn meira en þriðjunginn af því korni sem þau nota. Með áætlaða íbúafjölgun upp á 87 milljónir á næstu 30 árum, er öruggt að þau verða í auknum mæli háð innflutningi korns. Reyndar á þessi mynd við um meginhluta Afríku: að gefnum núverandi íbúafjöldaspám mun meira en 1,1 milljarður Afríkumanna búa í löndum með vatns-streitu árið 2025, þ.e. þrír fjórðu af áætluðum íbúafjölda álfunnar.

Hlutar af mörgum stórum löndum, t.d. Kína, Indland og Bandaríkin, munu einnig teljast með vatns-streitu, ef unnt væri að sundurgreina vatnsbirgðir og íbúafjölda eftir svæðum. Jafnvel með því að nota landstölur sést að Kína, með 7% af yfirborðsvatni heimsins en 21% af íbúafjöldanum mun rétt sleppa fyrir neðan 1.700 m3 markið árið 2030 og Indland, annað mannflesta ríki heims, mun þá komast á vatns-streitu-listann.

Vatn fyrir fæðu

Mörg eðlisræn merki um ósjálfbæra vatnsnotkun benda sjálfkrafa til vatns-streitu. Líklega er mikilvægast að ákveðin gögn benda til þess að það ferskvatnsmagn sem hægt er að nýta af bændum á sjálfbæran hátt sé að nálgast takmörk sín. Yfiruppdæling grunnvatns og eyðing vatnsrása eru núna að gerast á mörgum mikilvægustu kornræktarsvæðum heimsins, þar með talið vesturhluti Bandaríkjanna, stór hluti Indlands og hlutar Norður-Kína, þar sem grunnvatnsborðið fellur um 1 meter á ári. Þetta sýnir ekki aðeins að búið er að fara yfir mörk grunnvatnsins á mörgum svæðum, heldur einnig að hluti af fæðubirgðum heimsins eru framleiddar með ósjálfbærri vatnsnotkun.

Líkt og grunnvatn hafa mörg af helstu fljótum jarðarinnar mátt þola ofnýtingu. Í Asíu, þar sem meginhluti íbúafjölgunar og viðbótarfæðuþarfar jarðarinnar mun verða á næstu árum, hafa mörg fljót algerlega verið þurrkuð upp á þurrari hluta ársins, þegar áveitna er þörf. Þetta á líka við mörg fljót Indlands, meðal þeirra hið máttuga Ganges, meginvatnsuppspretta hinnar þéttbýlu og hratt fjölgandi Suður-Asíu, og Gula fljótið í Kína, sem var þurr á neðsta svæðinu í um 70 daga að meðaltali á ári síðustu 10 ár og í 122 daga árið 1995. Eftirspurnin eftir vatni úr Gula fljóti er komin yfir getu þess til að verða við henni.

Kornframleiðsla getur jafnvel verið erfiðara mál á þessum og fleiri svæðum þar sem íbúafjölgun og borgamyndun þrýstir vatnseftirspurninni upp. Í heiminum öllum er áætlað að fjöldi borgarbúa muni tvöfaldast og verða 5 milljarðar árið 2025. Með stjórnmálalegu afli og fjármunum samþjöppuðum í borgunum og með ónógu vatni til að mæta allri eftirspurninni munu ríkisstjórnir standa frammi fyrir miklum þrýstingi að færa vatnið frá landbúnaðinum jafnvel þó eftirspurn eftir matvælum sé að aukast.

Í raun er tilfærsla vatnsins frá bændabýla til borganna í gangi, bæði í iðnvæddu löndum og þróunarlöndunum. Í Kaliforníu til dæmis gerði áætlun frá árinu 1957 ráð fyrir að vatni yrði veitt á 8 milljón hektarar af landi í fylkinu, en þó náði áveituland í hámarki sínu árið 1981 innan við helmingi þess, 3,9 milljónum hekturum. Nettó-áveitt landsvæði minnkaði um 121.000 hektara á níunda áratugnum. Embættismenn Kaliforníu-fylkis spá því að viðbóta nettó-minnkun þess verði nærri 162.000 hekturum á tíunda áratugnum, og að það stafi aðallega af borgamyndun þar sem íbúafjöldinn mun væntanlega aukast frá 30 milljónum í 49 milljónir.

vatn sapa  Í Kína hafa vatnsbirgðir verið sogaðar frá sveitunum í kringum Beijing til að mæta vaxandi þörfum borgarinnar vegna heimila, iðnaðarins og ferðamannanna. Vatnsnotkun höfuðborgarinnar er núna komin fram yfir magnið sem er í tveimur aðaluppistöðulónum þess og lokað hefur verið á hefðbundið áveituvatn til bændanna á landbúnaðarbeltinu í kringum hana. Þar sem um 300 kínverskar borgir standa núna frammi fyrir vatnsskorti, mun hraði þessarar breytingar örugglega aukast.

Á svipaðan hátt er vaxandi eftirspurn í risaborgum Suðaustur-Asíu, þ.m.t. Bangkok, Manila og Jakarta, að hluta mætt með yfiruppdælingu grunnvatns. Fáir nýir staðir eru fyrir hendi til að dæla af og því mun verða þrýst á um að taka vatn frá landbúnaðinum á þessum svæðum líka.

Því miður hefur enginn stemmt af væntanleg áhrif hin síaukna tilfærslu vatns frá landbúnaði til borganna með tilheyrandi yfiruppdælingu grunnvatns, skemmdum á vatnsrásum og öðrum ósjálfbærri vatnsnotkun muni hafa á matvælaframleiðsluna í framtíðinni. Án slíks mats hafa löndin ekki skýra hugmynd um hversu örugg undirstaðan undir landbúnaðinum hjá þeim er, ekki getu til að spá með nákvæmni þörf þeirra fyrir matvælainnflutning í framtíðinni og enga hugmynd um hvernig og hvernær þurfi að búa sig undir efnahagslega og félagslega upplausn, sem getur orðið í kjölfar þess að bændur tapa vatninu sínu.

Viðbótarmöguleikar á vatnsbirgðum

Að koma í veg fyrir að vatnsskortur grafi undan fæðuöryggi, lífsnauðsynlegum vistkerfum og félagslegum stöðugleika mun ekki verða auðvelt. Víðast í heiminum þýðir vaxandi notkun vatnsbirgða á sumum svæðum núna að minnka verður það sem aðrir fá. Nýjar stíflur og uppskipting fljóta mun sjaldan bjóða upp á sjálfbærar lausnir, af því að í mörgum tilvikum hefur slíkt í för með sér að meira vatn er dregið úr grunnvatnsbirgðum sem eru nú þegar ofnotaðar. Í raun hefur bygging á nýjum stíflum minnkað greinilega á síðustu áratugum, þar sem almenningur, ríkisstjórnir og fjármagnseigendur eru byrjaðir að taka hinum mikla efnahagslega, félagslega og umhverfislega kostnaði. Á móti nærri 1.000 stórar stíflum sem komust í gagnið á hverju ári frá sjötta áratugnum fram á miðjan áttunda hefur fjöldinn dottið niður í um 260 ári síðan upp úr 1990. Jafnvel þó að skilyrði séu að verða hagstæðari fyrir stíflubyggingar, virðist ólíklegt að ný uppistöðulón sem verða byggð á næstu 30 árum muni auka aðgengilegt yfirborðsvatn um meira en 10% á meðan spáð er að íbúafjöldinn muni vaxa um 45% á því tímabili.

Annar möguleiki, „afsöltun“, er oft talinn hin endanlega lausn á vatnsvandamálum heimsins, þar sem meira en 97% af vatni jarðarinnar er í höfunum. Strax árið 1961 nefndi John F. Kennedy, forseti Bandaríkjanna, að ef mannkynið mundi finna ódýra leið til að ná fersku vatni úr höfunum mundi það „í raun gera öll önnur vísindaafrek að smámunum“.

Um 35 árum síðar er tæknin við að ná vatn úr sjó sannarlega í traustum vexti. Í desember 1995 höfðu samtals um 11.066 afsöltunarstöðvar verið settar upp eða um þær samið í heiminum, með heildarafkastagetu upp á 7,4 milljarða m3 á ári.

En þrátt fyrir greinilegan vöxt, er afsöltun vatns ennþá minniháttar hluti í vatnsbirgðamynd heimsins og reiknast með minna en 0,2% af vatnsnotkun heimsins. Að ná salti úr vatni þarf annað hvort að hita það og þétta svo gufuna (eimun) eða að „sía“ það gegnum membru (öfug osmósa), sem hvort tveggja er mjög orkufrekt. Og þó að kostnaður sé kominn niður í 1 – 1,6 dollara á m3 er afsöltun ennþá einn af kostnaðarsömustu vatnsbirgðamöguleikunum. Auðug ríki eins og Saudi Arabía, Sameinuðu arabísku furstadæmin og Kuwait, sem aðeins hafa 0,4% af íbúafjölda heimsins, höfðu 46% af afsöltunarmöguleikum heimsins árið 1993. Þessi lönd eru að verulegu leyti að breyta olíu í vatns, enda meðal þeirra fáu sem hafa efni á því. Í fyrirsjáanlegri framtíð mun afsöltun líklega áfram vera lífsnauðsynleg tækni fyrir vatnsfátæk og orkuauðug lönd og eyþjóðir sem hafa engan annan möguleika. En afsöltunargetan þarf að vaxa 30-falt til að mæta aðeins 5% af núverandi vatnsnotkun heimsins. Sem slíkur mun þessi valkostur halda áfram að vera minniháttar þáttur í vatnsbirgðum heimsins.

Aðrir valkostir, s.s. dráttur borgarísjaka, vatnsflutningar með tankskipum eða flutningar þess í stórum pokum, geta aukið vatnsbirgðir á afmörkuðum vatnsfátækum svæðum, en eins og afsöltun eru þær kostnaðarsamir og ekki líklegir til að setja mikinn svip á vatnsbirgðamynd heimsins næstu 30 árin.

Að skera niður eftirspurn

Aðferðir til að minnka eftirspurn eftir vatni með verndun, endurvinnslu og meiri skilvirkni eru fremur dæmi um hagfræðilegar aðferðir en ráðstafanir til að ná meiri birgðum af fersku vatni. Með kostnað frá 5 til 50 senta á hvern m3 vatns, kostar nærri allt sviðið í verndunar-valkostum, þ.m.t. lekavarnir, aðhæfing skilvirkari tækni og endurvinnsla vatns, mun minna en þróun nýrra vatnslinda og miklu minna en afsöltun.

Því miður fæla miklar niðurgreiðslur til vatnsnotenda þá frá fjárfestingu í skilvirkni og bera þau röngu skilaboð að vatn sé nægilegt og því megi sóa, jafnvel þar sem fljót eru að þorna upp og skurðir eru að skemmast. Bændur í hinu vatnsfátæka Túnis greiða 5 sent á m3 vatns fyrir áveitur, einn sjöunda hluta af kostnaðinum við það. Jórdanskir bændur greiða minna en 3 sent á m3, sem er smábrot af heildarkostnaði þess. Og ríkisstyrkir til áveitna í vesturhluta Bandaríkjanna eru í heild að minnsta kosti 20 milljarða dollara, sem er 86% af heildarkostnaðinum af viðkomandi mannvirkjum, skv. Richard Wahl, fyrrum hagfræðingur í bandaríska innanríkisráðuneytinu. Þó að fátækrastyrkir og önnur félagsleg markmið geti réttlætt að nokkru áveitustyrki, sérstaklega fyrir fátæka bændur, er niðurgreiðslustigið í dag ávísun á vatnssóun.

Reynslan í Broadview vatns-umdæminu í Kaliforníu, þar sem bændur veita vatni á 4.000 ha melónu-, baðmullar-, hveiti- og alfalfa-akra, leiðir í ljós þann ávinning sem milli-stefna (intermediate policy) getur náð. Á síðari hluti níunda áratugarins, þegar umdæmið stóð frammi fyrir því að draga yrði úr mengandi afrennsli til San Joaquin fljóts, var sett upp þrepaskipt vatnsverðmyndun. Umdæmið fann út meðalmagn vatns, sem notað var á árunum 1986-1988 og ákvað grunnverð upp á 1,3 sent á m3 fyrir 90% af því magni. Allt vatnsmagn sem fór fram yfir það stig var verðlagt 2,5-sinnum hærra. Árið 1991 notuðu aðeins 7 af 47 ökrum í umdæminu eitthvað vatn í efra verðþrepinu: hærra verð hvatti bændur til að skipta um korntegundir og veita vatninu skilvirkara og skera þannig niður meðalvatnsmagnið sem notað var á bændabýlum umdæmisins um 19%.

Af því að landbúnaður nýtir tvo þriðju af vatninu sem notað er í heiminum, getur jafnvel minnkun upp á örfáa hundraðshluta þar losað umtalsvert magn vatns fyrir borgirnar, vistkerfin og viðbótarfæðuframleiðslu. Bændur í norðvestur Texas, til dæmis, sem höfðu orðið að fást við lækkandi grunnvatnsborð vegna skemmda á Ogallala vatnsrásinni, sem er neðanjarðar vatnsbirgðir á svæði sem fær mjög litla endurnýjun frá rigningu, hafa dregið úr vatnsnotkun sinni um 20 til 25 % með því að taka upp skilvirkara úðunarkerfi, sérstaka ventla til að tryggja jafna vatnsdreifingu og fleiri vatnssparandi atriði.

Á sama hátt sýna tölur frá ýmsum löndum að bændur sem hafa farið úr skurðakerfi eða úðunaráveitur í „drip“-kerfi, sem skilar vatninu nær rótum plantnanna, hafa skorið vatnsnotkun sína niður um 30-60%. Afrakstur kornsins eykst oft á sama tíma af því að plönturnar eru á skilvirkan hátt „mataðar með skeið“ með besta vatnsmagni (og oft áburði) þegar þær þurfa það. „Drip“-kerfi, sem kosta á bilinu 1.200-2.500 dollara á hektara, virðast vera of kostnaðarsöm fyrir flesta fátæka bændur og til að nota fyrir ódýrar korntegundir, en rannsókn er í gangi til að gera mögulegt að kaupa þau. Fyrirtæki í Colorado, sem heitir International Development Enterprises, hefur þróað „drip“-kerfi sem kostar rétt 123 dollara fyrir hálfan hektara, 10-20% af því sem hefðbundin kerfi kosta. Lyklarnir að því að halda kostnaði niðri felast í einföldum efnum og færanleika: í stað þess að hver röð hafi þess eigin „drip“-línu, er hver lína er færð af bændum milli tíu raða.

Samhliða því að hvetja til endurbóta á skilvirkni áveitna, mundi betri verðmyndun líka stuðla að meðhöndlun og endurnýtingu frárennslisvatns til áveitna, sem venjulega er kostnaðarsamari en flestar verndunar og skilvirknis-aðgerðir, en oft ódýrari en að þróa nýjar vatnslindir. Frárennslisvatn inniheldur köfnunarefni og fosfór, sem geta verið mengandi þegar því er veitt út í stöðuvötn og fljót, en eru áburðarefni þegar þau eru notað til jarðyrkju. Ennfremur, ólíkt mörgum öðrum vatnslindum, mun meðhöndlað frárennslisvatn bæði verða vaxandi og sæmilega áreiðanlegar birgðir, þar sem vatnsnotkun borganna mun líklega tvöfaldast til ársins 2025. Margar stórar borgir sem standa við sjó dæla frárennslisvatninu þangað, meðhöndluðu eða ómeðhöndluðu, og skilja þannig við það óaðgengilegt, þar sem það veldur tjóni á sjávarlífinu. Svo lengi sem frárennslisvatnið er laust við þungmálma og hættuleg efni, og sjúkdómsvaldandi örverur eru beislaðar, getur það orðið lífsnauðsynlegar nýjar vatnsbirgðir til að veita á kornakra.

Að aðlaga sig að þurrki

Að bæta framleiðni vatnsins að því er snertir korn á heildargrundvelli er líka tvísýnt mál. Raunverulegar ráðstafanir mun verða breytilegar eftir korntegundum, veðurfari og því hvernig staðið er vatnsstýringunni, en grunnmarkmiðið verður að vera það sama í hverju tilviki um sig: að finna bestu tímastillingu og rétta magnið á raka við rótarkerfið og að bæta hæfileika korntegundanna til að nýta rakann.

Með plöntukynbótum, til dæmis, geta líffræðingar flýtt þróuninni að plönturnar aðlagi sig að þurrki. Rannsóknir hafa sýnt að ef engir aðrir þættir takmarka plöntuvöxtinn fylgir heildarframleiðsla plöntunnar því vatnsmagni sem gufar upp af henni. Stærri og dýpri rótarkerfi, sem gera plöntunum kleyft að taka inn meiri raka getur þannig aukið afraksturinn. Ný erfðatækni er að gera það mögulegt að skima kornafbrigði eftir vatnsnýtingareiginleikum. Og þróun afbrigða með styttri vaxtartíma eða hæfileika til að vaxa á kaldari tíma, þegar uppgufun og útgufun er minni, gæti einnig hjálpað að bæta vatnsnýtingu korntegunda.

Alþjóðahrísrjónarannsóknastofnunin á Filippseyjum, til að nefna eina, leggur áherslu á að þróa skilvirkari áveitur, tækni sem minnkar vatnsnotin, og breytingar í hrísgrjónaplöntunni sjálfri til að bæta vatnsnýtinguna. Kynbætur hafa nú þegar stytt vaxtartíma á hrísgrjónum af áveitusvæðum úr 150 dögum í 110 daga, til dæmis, og í því felst meiriháttar vatnssparnaðar.

Að stilla korntegundir inn á mismunandi vatnsgæði getur líka aukið vatnsbirgðir fyrir áveiturnar. Í vesturhluta Negev í Ísrael, til dæmis, rækta bændur með góðum árangri baðmull með mjög söltu vatni úr saltvatnsbirgðum svæðisins. Ísraelsmenn hafa líka fundið að vissar korntegundir, svo sem tómatar, sem ræktaðir eru fyrir niðursuðu eða pasta, geta í raun komið betur út með nokkru söltu vatni. Mismunandi saltþol korntegunda eykur möguleikann á margfaldri endurnýtingu áveituvatnsins. Í Kaliforníu, til dæmis, er ofurlítið salt frárennslisvatn frá korntegund með meðalsaltþol veitt á enn saltþolnari baðmull. Á hinn bóginn, afrennslið frá baðmullarökrunum, sem eru jafnvel saltara, er notað til að veita á saltkærar korntegundir, en fjölda þeirra hafa vísindamenn þróað þannig að þær geti verið verslunarvörur. Til dæmis, þegar afbrigði af Salicornia, sem ber fræ, fékk áveitu úr sjó í strandeyðimörk nálægt Cortez-hafi í Mexikó, varð afrakstur hennar jöfn eða meiri en af korntegundum með olíufræum, ræktuðum með fersku vatni, s.s. sojabaunum og sólblómum.

Á svipaðan hátt og raunhæfari verðmyndun á vatni, getur vatnsmarkaður skapað frumkvæði bæði til hvatningar á skilvirkni og endurnýtingu, svo og að skipta vatni betur. Í stað þess að líta til nýrrar stíflu eða uppskiptingu fljóts til að fá viðbótar vatn, geta borgir og bændur keypt birgðir frá öðrum sem vilja selja, versla eða leigja þeim vatn eða vatnsréttindi. Vatnsveita borgarinnar í Los Angeles, til dæmis, er að fjárfesta í verndunaraðgerðum í suðurhluta Áveituumdæmis Kaliforníu í skiptum fyrir vatnið, sem þannig mundi sparast. Árlegur kostnaður við verndun vatns er áætlaður um 10 sent á m3, mun minni en við bestu nýju valkosti umdæmisins. Í Chile, þar sem vatnsstefnan hvetur til markaðssetningar, kaupa oft vatnsfyrirtækin, sem þjóna sívaxandi borgum, lítið brot af vatnsréttindum frá bændum, sem flestir hafa náð afgangi með endurbótum á nýtingu.

Að setja nýtingarstaðla hefur líka reynst vera virk stefnumótandi verkfæri til að treina birgðirnar. Bandarísk lög frá því í árslok 1992 kveða á um að framleiðendur salernisskála, krana og sturtustúta uppfylli sérstaka nýtingunarstaðla í janúar 1994. Því er spáð að vatnsnotkun í bandarískum húsum muni af þessum sökum minnka um meira en 35% þegar hlutir með meiri nýtingu koma í stað hinna eldri á næstu 30 árum.

Fjöldi annarra ríkisstjórna, þ.m.t. Mexikó og kanadíska ríkið Ontario, hafa einnig tekið upp staðla fyrir tengingar á pípulögnum í heimilishaldi. Vatnsverndaráætlunin í Kairo vinnur með egypsku ríkisstjórninni að því að kynna vatnsverndarstaðla í pípulagnastaðlinum. Þó að nýtingarstöðlum hafi hingað til aðallega verið beitt á heimilislagnir, skapa þeir líka möguleika í landbúnaði, iðnaði og öðrum samfélagslegum notum.

Frekari skref

Hér og þar eru ráðstafanir í gangi sem lofa góðu og vekja von um að afleiðingum vatnsskorts megi að minnsta kosti fresta. Samt eru samstilltar þjóðar- og alþjóðlegar ráðstafanir til að færa saman alla bútana í sjálfbærri vatnsstefnu fáar. Ein eftirtektarverð undantekning, gæti hins vegar verið í Suður-Afríku. Snemma árs 1996 lagði ráðherra vatnsmála og skógræktar fram meginreglur grundvallarendurskoðunar á lögum og stjórnun vatnsmála í landinu. Helstu forgangsatriði er að sjá til þess að hver Suður-Afríkubúi hafi aðgang að a.m.k 25 lítrum af vatni á dag fyrir lágmarksþarfir fyrir drykkjarvatn og hreinlæti, að verðleggja vatn þannig að það endurspegli verðgildi þess, að hvetja til vatnsmarkaðar, að láta vatnsbirgðir hlíta verndunarráðstöfunum, að veita vatni til umhverfisins til að koma í veg fyrir tap á vistkerfum og að skilja vatn eftir handa löndum sem liggja lægra til að örva samvinnu og samþættingu milli svæða. Þó að þessar meginreglur lofi góðu, verður mjög erfitt að binda þær í lög, stefnur og aðgerðir, af því að það mun þýða að felld verður úr gildi lagasetning sem hefur staðið í áratugi kynþáttaaðskilnaðarins. Ennfremur á landið enn við að etja afleiðingar félagslega og umhverfislega eyðileggjandi stíflu og uppskiptingar á vatni, Lesotho Highlands Water Development Project. Áætlunin kostaði 8 milljarða dollara og átti að sjá Jóhannesarborg og nágrenni fyrir vatni frá smáríkinu Lesotho. Engu að síður getur hin nýja vatnsáætlun, sem átti að taka fyrir í þjóðþinginu snemma árs 1997, orðið ein af þeim bestu af því tagi á landsgrundvelli hingað til. Fyrir utan það að koma svipuðum áætlunum á í öðrum löndum, er einnig knýjandi þörf á að meta og vakta aðgengileika vatns fyrir matvælaframleiðslu á alþjóðlegum grunni. Framkvæmdaáætlun til að uppfylla þarfir mannanna og vistkerfisins svo og til að vatn sé notað á skilvirkari hátt mun ekki tryggja landbúnaðinum þær vatnsbirgðir sem hann þarf til að mæta þörfum framtíðarinnar fyrir fæðu. Til dæmis mun mikið af stefnumótuninni um að örva sjálfbærari vatnsnot, svo sem hækkun vatnsverðs og stærri vatnsmarkaðir, líklega færa vatnið frá landbúnaðinum til nýtingar sem getur greitt hærra verð. Sá tími gæti verið ekki svo langt undan að þörf verði á alþjóðlegum kornbanka til að verjast matvælaskorti sem stafar af vatnsþurrð. Sérstaklega í Afríku, Asíu og Miðausturlöndum mun vatnsskortur aukast greinilega á komandi áratugum. Á þessu svæði mun fólki samtals fjölga um 2,3 milljarða til ársins 2025, sem er 87% af áætlaðri fólksfjölgun á næstu 30 árum. Mörg lönd í Afríku og Asíu hafa væntanlega ekki fjárhagslegt bolmagn til að jafna vatnsbúskap sinn með því að kaupa umframbirgðir af korni á opnum markaði. Að lokum, að hafa hemil á vatnseftirspurninni býður upp á mestu vonina um að komið verði í veg fyrir hungur, fátækt, víðtæka vistfræðilega hnignun og félagslegan óstöðugleika. Að lifa við þau takmörk sem vatnsbirgðir náttúrunnar setja mun krefjast minni neyslu meðal efnaðri þjóðfélagshópa og minni fjölskyldustærðar hjá öllum.


Heimild: Technology Review

Olafur Jonsson

Guðmundur Sigvaldason snaraði lauslega

 

 

Fleira áhugavert: