Hraðlest til Keflavíkurflugvallar .?
Gangi áform eftir hefjast ferðir eftir 8 ár
Fluglestin ehf. – þróunarfélag stendur að undirbúningi hraðlestarinnar. Að Fluglestinni ehf. standa Fasteignafélagið Reitir, Landsbankinn, Ístak, Efla og Þróunarfélag
Keflavíkurflugvallar Kadeco. Lestin yrði raflest sem næði 250 kílómetra hraða og myndi ferðin því taka fimmtán til átján mínútur.
Runólfur Ágústsson er í forsvari fyrir hraðlestina. Erindi um hraðlestina voru tekin fyrir á síðasta fundi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Sveitarfélagið Vogar hefur samþykkt hraðlestina og er gert ráð fyrir henni í deiliskipulagi Reykjanesbæjar. Í samtali við fréttastofu RÚV sagði Runólfur að verkefnið verði einkaframkvæmd sem verði greidd upp með seldum miðum.
RÚV
Ef svo fer fram sem horfir gæti hraðlest úr Vatnsmýrinni til Keflavíkurflugvallar verið komin í gagnið eftir átta ár. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa möguleikann til skoðunar.
„Við sendum í síðustu viku út erindi á sveitarfélögin sem um er að ræða, með ósk um samstarf í skipulagsmálum. Og við erum að vonast til þess að ljúka slíku samkomulagi fyrir lok janúar samhliða fjármögnun á fyrsta fasa verkefnisins, sem lýtur þá að skipulags- og þróunarmálum og rannsóknum,“ segir Runólfur í samtali við fréttastofu.
Kostar 105 milljarða króna
Á síðasta fundi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu voru tekin fyrir erindi um hraðlestina og ákveðið að óska eftir umsögn svæðisskipulagsnefndar áður en lengra yrði haldið. Sveitarfélagið Vogar hefur samþykkt hraðlestina fyrir sitt leyti, og þá hefur verið gert ráð fyrir henni í deiliskipulagi Reykjanesbæjar. Áætlaður kostnaður við fyrsta áfanga verkefnisins er um einn og hálfur milljarður króna, en heildarkostnaðurinn hljóðar upp á 105 milljarða. Runólfur er bjartsýnn á fjármögnun verkefnsins.
„Verkefnið er hugsað sem hrein einkaframkvæmd sem ekki kallar á fjármagn af almannafé, heldur er greitt raunverulega upp með seldum miðum. Og við erum bjartsýn á það, en auðvitað ræðst framtíð verkefnisins af tiltrú fjárfesta á verkefninu.“
Runólfur segir mikla vinnu framundan, og þá sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. En hvenær gæti lestin verið komin í gagnið?
„Skipulagsmál og mat á umhverfisáhrifum taka um það bil tvö ár, þá tekur við forhönnun verkefnisins svo hægt sé að fjármagna það á alþjóðlegum vettvangi. Síðan er framkvæmdatími áætlaður um fimm ár, þannig að við erum að tala um, ef allt gengur upp, átta ár frá næstu áramótum,“ segir Runólfur Ágústsson.
Heimild: RÚV + Víkurfréttir