Alls óvíst hvort sæstrengur sé hagkvæmur
Rafmagn verður sífellt mikilvægara í lífi fólks enda notum við það til margra hluta. Bretar hafa sýnt því mikinn áhuga að kaupa rafmagn af Íslendingum um sætreng og nú velta margir því fyrir sér hve mikið íslenskt þjóðarbú myndi græða á því.
David Bothe, þýskur hagfræðingur og ráðgjafi í orkumálum, segir að áður en hægt verði að meta arðsemi Íslendinga af sæstreng til Bretlands verði að liggja fyrir hvernig nota eigi strenginn. „Snýst þetta um að selja græna orku til Evrópu eða að kaupaódýra orku frá Evrópu og selja hana þegar verðið er hátt?,“ spyr Bothe.
Umræðan um sæstreng tók kipp þegar forsætisráðherra Bretland bryddaði upp á málinu í Íslandsheimsókn sinni nýverið. Ekki eru þó allir jafnhrifnir og meðal þeirra sem hafa gagnrýnt áformin er Björk Guðmundsdóttir. Samtök atvinnulífsins efndu til ráðstefnu um málið í dag og var Bothe meðal ræðumanna. „Ísland getur vissulega boðið vöru sem er eftirsótt í Evrópu, sem er ódýr, endurnýjanleg og sérlega sveigjanleg orka. Það er allt of snemmt að segja til um hvort þetta er hagkvæmt og því þarf að skoða tölurnar nákvæmlega,“ segir Bothe.
Ákvarðanir stjórnmálamanna skipti miklu fyrir verðmyndun
Hann bendir á að hafa verði í huga að sæstrengur yrði ekki kominn í notkun fyrr en að fimm til sex árum liðnum og þá gæti orkumarkaðurinn hafa breyst mikið. Núna hafi ákvarðnir stjórnmálamanna mikil áhrif á raforkuverð og afar erfitt sé að spá fyrir um stjórnmál framtíðarinnar. Aðspurður um hvor mikil óvissa ríki um þetta svarar Bothe því játandi.
Bothe segir að til að svara spurningunni um það hvort líklegt væri að raforkuverð til heimila hækki verði af lagningu sæstrengs, þurfi að hafa í huga að raforkuverð í Evrópu sé lágt um þessar mundir af því að fæstir vilji orku frá óendurnýjanlegum orkugjöfum. Við það að tengjast öðrum orkukerfum um sæstreng hækki venjulega innkaupsverð orku sem hefur verið mjög lágt.
„Hvort þetta stuðlar að raunverulegum breytingum fyrir neytandann fer eftir öllum hinum spurningunum; hvernig verður með skatta á neytendur, hvað um niðurgreiðslur, hvað um gjöld fyrir raforkunetið? Þetta eru margar spurningar. Ég held að það sé of snemmt að segja til um hvort þetta hafi áhrif á einn eða annan hátt,“ segir Bothe.
Heimild: RÚV