Krafan um bætta nýtingu á orku og uppbygging í orkuiðnaði
„Krafan um bætta nýtingu á orku hefur aukist mikið og uppbygging í orkuiðnaði síðustu áratuga er grundvöllur frekari sigra í orkutengdri nýsköpun.“ Þetta kom m.a. fram í máli Harðar Arnarsonar á fundi Landsvirkjunar og Klak Innovit í morgun um nýsköpun í orkuiðnaði.
Fundurinn var haldinn á Hótel Natura undir yfirskriftinni „Orkuiðnaður á nýrri öld“. Tilgangur fundarins var að varpa ljósi á þau miklu tækifæri sem liggja í nýsköpun í orkuiðnaði og hvernig best sé að hlúa að nýsköpunarumhverfinu þannig að úr verði nýtt hugvit sem eykur verðmætasköpun til framtíðar.
Í erindi sínu sagði Hörður einnig að orkan væri í raun takmörkuð og því þyrfti að nýta hana vel og á fjölbreyttan hátt. „Miklar breytingar hafa átt sér stað í raforkuiðnaðinum, nú er hann orðinn seljendamarkaður sem skapar frekari forsendur fyrir nýsköpun,“ sagði Hörður.
Hann sagði jafnframt að það sem gerst hefði í nýsköpun í sjávarútvegi væri hægt að ná fram í orkugeiranum. „Landsvirkjun styður beint við nýsköpun í orkuiðnaði bæði með beinum styrkjum til nýsköpunarverkefna og til háskóla í þeim tilgangi að efla háskólanám og rannsóknir á endurnýjanlegum orkugjöfum,“ sagði Hörður einnig í erindi sínu.
Opna dyr fyrir frumkvöðla
Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Klak Innovit, hélt einnig framsöguerindi. Í erindi sínu sagði hún nýsköpun meginuppistöðu hagþróunar og nýsköpunarumhverfið sé byggt upp til að styðja við nýsköpun og hraða ferlinu frá hugmynd til verðmætasköpunar.
Í pallborðsumræðum sagði Runólfur Geir Benediktsson, forstöðumaður sjávarútvegs og erlendra lánveitinga hjá Íslandsbanka, að sjávarútvegurinn væri kominn lengst á veg í nýsköpun og það byggðist fyrst og fremst af áralöngu samstarfi sjávarútvegsins við frumkvöðla „Sjávarútvegsfyrirtækin hafa opnað dyrnar fyrir frumkvöðla og leyft þeim að prófa sig áfram með sína nýsköpun í þeirra umhverfi. Ef hægt er að læra eitthvað af árangri í nýsköpun í sjávarútvegi þá er þetta góða samstarf.“
Magnús Þór Ásmundsson, formaður Samáls og forstjóri Alcoa Fjarðaáls sagði Alcoa hafa innleitt ákveðna öryggismenningu hér á landi sem síðan er orðin fyrirmynd hjá öðrum fyrirtækjum. „Uppbygging orkuiðnaðar á Íslandi hefur að miklu leyti verið samfara uppbyggingu áliðnaðar og hvor um sig skapað tækifæri og jarðveg fyrir nýsköpun í orku- og orkutengdum iðnaði“. Hann sagði einnig að það væri mikilvægt að auka virðiskeðju áls hérlendis. „Álklasinn var stofnaður með það að leiðarljósi að skapa aukin verðmæti í greininni“.
Tækifæri í samvinnu
Óli Grétar Blöndal Sveinsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Landsvirkjunar, sagði að rafvæðingin hérlendis hafi stuðlað að því að við værum með sterka innviði. „Þekking hefur skapast hérlendis í uppbyggingu á virkjunum og rafvæðingu. Það felast tækifæri í því að efla tengslin við ferðaþjónustuna og að virkja nærsamfélagið til að koma með smærri nýtingarkosti þannig að sem flestir geti nýtt orkuna”, sagði Óli Grétar. Enn fremur nefndi hann að það felist tækifæri í því að leyfa orkufyrirtækjunum að vinna betur saman til að stuðla að aukinni hagsæld.
Hildigunnur Thorsteinsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Orkuveitu Reykjavíkur sagði hitaveituna dæmi um það hversu mikilvægt væri að fjárfesta í nýsköpun. „Það felast mikil nýsköpunartækifæri í snjallvæðingu samfélagsins, að nýta og greina gögn sem eru til staðar“.
Sunna Ólafsdóttir Wallevik hjá þekkingar- og sprotafyrirtækinu Gerosion en fyrirtækið tók þátt í viðskiptahraðlinum Startup Energy Reykjavík árið 2014, sagði að það fælist mikil verðmætasköpun í vinnslu á úrgangi frá orkufrekum iðnaði sem og annars staðar.
Íhaldssamur iðnaður
Magnús Hauksson er rafmagnsverkfræðingur hjá Mannviti og verkefnastjóri Laka sem er rannsóknar- og nýsköpunarfyrirtæki á sviði umhverfisvænna orkulausna lagði áherslu á það að orkuiðnaður væri íhaldssamur: „Þetta er margra ára verkefni og kallar á stuðning til lengri tíma, fjármögnun til lítilla sprotafyrirtækja væri orðin betri en það vanti enn fjármagn til uppbyggingar“.
„Það voru rafstöðvar á öðrum hverjum bæ áður en ríkisrafmagnið kom til sögunnar, við erum að reyna að endurvekja þetta með nýrri tækni“, sagði Bjarni Malmquist, stofnandi BMJ energy, en fyrirtækið tók þátt í Start-up Energy og býður heildarlausnir fyrir örvirkjanir, svokallaðar heimarafstöðvar.
Heimild: Mbl