Hanna þarf almennilegt ræsi á Siglufirði
Ljóst er að einhverjir dagar munu líða þangað til hægt verður að opna Siglufjarðarveg að nýju. Verktakar vinna nú hörðum höndum að því að hreinsa skriður beggja vegna Strákaganga og á sama tíma eru bæjarstarfsmenn á fullu við að hreinsa bæinn sjálfan. Birgir Ingimarsson bæjarverkstjóri segir að bæta þurfi fráveitukerfi bæjarins.
„Það náttúrulega kemur bara í ljós þegar það koma svona dagar að ræsin sem eru þarna undir götunni þau ráða ekki við þetta og ég ætla bara að vona að menn hanni bara almennileg ræsi undir þetta, jafnvel steypt ræsi sem er auðvitað langt um best,“ segir Birgir Ingimarsson bæjarverkstjóri.
Bæjarbúar geta leitað til Birgis og félaga til að fá aðstoð og hann þakkar slökkviliði og björgunarsveit fyrir vel unnin störf í gær.
„Við erum alltaf tilbúnir að gera allt fyrir fólkið sem við getum en við náttúrulega erum fáliðaðir en vel mannaðir. Við erum með slökkvilið og björgunarsveitina líka, þeir voru hérna mjög duglegir í gær og mig langar bara til að færa slökkviliðinu og björgunarsveitinni Strákum þakkir fyrir frábært starf sem þeir unnu hérna. Meðan við vorum að reyna að koma í veg fyrir meira tjón að þá voru þeir að hjálpa fólki að dæla úr húsum og þess háttar. Það var mjög gott.“