Samvinna – Arkitekt/lagnamenn

Heimild:

.

Janúar 1996

Það þarf að frelsa frárennslislagnirnar

Það er mikil nauðsyn á, að arkitektar séu teknir inn í hóp lagnamanna.
Það er margt jákvætt að gerast í lagnamálum. Fleiri og fleiri gera sér grein fyrir því að það borgar sig að láta stilla hitakerfi, það sparar peninga og veitir aukin þægindi. Hönnuðir, lagnamenn og húsbyggjendur eru að vakna upp til vitundar um að hinn gamli lagnamáti, að troða hita- og vatnslögnum inn í einangrun og undir steypu gengur ekki lengur. Ný efni og ný vinnubrögð eru að fá viðurkenningu, plaströr og ryðfrí stálrör eru þegar notuð til húsalagna, rör-í-rör kerfið er að stíga sín fyrstu stuttu spor í lagnasögunni og utanáliggjandi lagnir eru ekki fortakslaust bannfærðar lengur. Gæðakröfur aukast og endurmenntun er að fá endanlega viðurkenningu lagnamanna.Allt er þetta jákvæð þróun og ekki ástæða til að óttast að hún stöðvist úr þessu.

Hvað næst?

Allt þetta jákvæða, sem upp var talið, á við um hitalagnir og neysluvatnslagnir. En það er eitt lagnakerfi eftir; frárennsliskerfið sem er ekki veigaminnsta kerfið en hefur því miður orðið útundan í þróuninni og umræðunni.

Ekki svo að skilja að þar hafi ekki orðið nein þróun, efnið í frárennslislögnum hefur breyst mikið á undanförnum áratugum en því miður hefur sú þróun ekki alltaf verið jákvæð.

Þróunin í lagnaleiðum og fyrirkomulagi frárennsliskerfa í húsum hefur því miður nánast engin verið. Við leggjum frárennslislagnir í húsgrunna á nákvæmlega sama hátt og gert var fyrir hálfri öld þó önnur lagnaefni séu notuð, við steypum frárennslislagnir enn inn í veggi og það þótti nokkur framför þegar byrjað var á því að leggja slíkar lagnir bak við falska veggi. Því miður voru þeir fölsku veggir, og eru enn, hlaðnir úr steini og múrhúðaðir í stað þess að vera létt grind með plötum.

Fyrir fimmtíu árum þekktist ekki annað en leggja steinrör í grunna, innanhússlagnir voru í flestum tilfellum steypujárnsrör og hafa þær enst ótrúlega vel. Steypujárnspípurnar hafa haldið velli, framleiðendur hafa þróað þær til meiri fjölbreytni en notkun hefur minnkað umtalsvert.

Algengast er að frárennslislagnir í grunnum séu í dag úr PVC plasti þó steypujárn- og steinrör séu notuð í einstaka tilfellum.

Hverju þarf að breyta, hvað þarf að bæta?

Lítum fyrst á grunnlagnir, þar skulum við byrja á því að hætta að leggja viðamikil kerfi undir neðstu plötu, förum ætíð stystu leið með hvern stofn út úr grunni og sameinum lögnina utanhúss.

Það er að koma í ljós í fjölmörgum eldri húsum að grunnlagnir eru að gefa sig eða eru hreinlega ónýtar; ef sú leið hefði verið farin að leggja rörin út úr grunni eins fljótt og auðið var, væri öll endurnýjun og viðgerðir miklu auðveldari.

Efnisval í grunnlagnir þarf að endurskoða, steypujárns- og steinrör eru enn í fullu gildi og plastlagnir eru ágætar en þó því aðeins að rétt plastefni sé valið. Illu heilli hafa íslenskir framleiðendur frárennslisröra úr plasti valið að nota PVC plastefni (appelsínugul rör) og byggist það val enganveginn á efnisgæðum heldur eingöngu á streði húsbyggjenda til að fá allt á aðeins lægri krónutölu, en hugsa ekkert um gæði. Framleiðendur og innflytjendur telja sér ekki annað fært en að elta þetta hættulega sjónarmið.

Það á að hætta notkun á PVC plaströrum í grunnlagnir eins fljótt og mögulegt er og nota í þess stað polyetenrör ef plaströr eru valin.

Innanhúss er valið milli steypujárns og plasts og þar koma tvær tegundir plastefna til greina, polypropen eða polyeten, þriðju tegundina, ABS, má einnig nefna en það efni hefur mikla útbreiðslu í N-Ameríku.

En mikilvægast af öllu er að „rífa“ frárennslislagnir út úr veggjum, það er hægt að leggja þessar lagnir þannig að auðvelt sé að komast að þeim ef á þarf að halda.

En það eru ekki lagnamenn, hvorki hönnuðir ná pípulagningamenn, sem þar ráða ferðinni, það eru frumhönnuðir hússins, arkitektar. Það er að koma æ betur í ljós hve mikil nauðsyn er að þeir séu teknir inn í hóp lagnamanna, að samstarf við þá hefjist strax þegar þeir draga fyrsta strikið á blað.

Það eru arkitektar sem geta ráðið því að lagnir fái það rými sem þær þurfa á þeim stöðum þar sem hægt verður að komast að þeim án þess að vinna hervirki á veggjum og gólfum. Það verður að snúa sér að því að „frelsa“ frárennslislagnir úr núverandi prísund til mikils sparnaðar fyrir komandi kynslóðir.

Fleira áhugavert: