Varmaskiptar – Hver hefur valdið?

Heimild:  

 

Júlí 1999

Varmaskiptar, vottanir og vald

Myndaniðurstaða fyrir dominateAð fyrirskipa notkun varmaskipta, þar sem þeirra er engin þörf, er mikill ábyrgðarhlut. Þá er verið að hengja aukin útgjöld á þrautpíndan húsbyggjanda að óþörfu. Það fer ekki á milli mála að bæði lærðir og leikir hafa áhuga á varmaskiptum og vilja gjarnan skilja fyrirbrigðið, einnig hvenær þörf er á notkun þess og ekki síst; hver hefur vald til að fyrirskipa varmaskipta.

Lítum fyrst á valdið. Ef þú ert ungur og eftirvæntingarfullur verðandi húsbyggjandi, segjum í Reykjavík, ákveðinn í því að nota rör í rör kerfi í neysluvatn þinnar verðandi hallar og gólfhitakerfi úr plaströrum dettur þér líklega í hug að hringja í byggingarfulltrúann eða hans fullmektuga, til að vita hvað þú mátt og mátt ekki. Þú spyrð gjarnan, eftir að hafa útskýrt hvaða kerfi og efni verða í lögnum, hvort þú verðir að nota varmaskipta.

Ef svarið hjá byggingarfulltrúa eða hans mönnum er að varmaskipta verðir þú að kaupa og setja upp með ærnum aukakostnaði þá eru valdtökumenn á ferðinni, byggingarfulltrúar hafa ekkert vald til að fyrirskipa slíkt en því miður virðast sumir þeirra hafa nokkra valdatökuáráttu.

Hins vegar ef þú átt heima í Stykkishólmi horfir málið öðruvísi við. Þar verður hver húseigandi að setja upp varmaskipti til að hita upp neysluvatn, því þannig er hitaveitan hönnuð að ekki má taka vatn úr hitaveitukerfinu, því á öllu að skila aftur. Með þessu er umtalsverðum kostnaði velt yfir á húseigendur sem Suðurnesjamenn þurfa ekki að bera þótt orkuvinnsla hitaveitnanna á Suðurnesjum og Stykkishólmi sé á nákvæmlega sömu forsendum.

Aukinn kostnaður

Að fyrirskipa notkun varmaskipta, þar sem þeirra er engin þörf, er mikill ábyrgðarhluti, því þá er verið að hengja aukin útgjöld á þrautpíndan húsbyggjanda að óþörfu. Það er ekki út í hött að segja að aukakostnaður fyrir einbýlishús sé ekki minni en 200.000 kr., kostnaður sem verður til oft og tíðum vegna þess að einhver hátt settur í goggunarröðinni nýtur valdsins og slengir fram fullyrðingu sem byggist á hans eigin geðþótta. Þetta er alltof alvarlegt mál til að yfir því verði þagað, enda engin ástæða til. Húsbyggjendur hafa nægar sligandi greiðslubyrðar þótt einhverjir pótintátar séu ekki að leika sér að því að auka þær. En það er ekki öll sagan sögð með þessum stofnkostnaði, að kaupa og setja upp varmaskipta hefur rekstrarkostnað í för með sér. Hvernig má það vera?

Þar er eðlisfræðin að verki, að færa varma úr einum vökva í annan kostar peninga, því það er óhjákvæmilegt að með þessum flutningi glatast nokkuð að varmanum. Það er eflaust hægt að reikna það út fyrirfram en ekki er ólíklegt að segja að rýrnunun sé ekki undir 5% á nýju og vel stilltu kerfi.

Tengd myndÞað má búast við að þessi kostnaður aukist með tímanum, að rýrnunin aukist. Það kemur til af því að líklegt er, og raunar fullvíst, að ýmis efni setjist innan á hitaveituhlið varmaskiptis og með tímanum hamlar það meir og meir varmastreyminu á milli hólfa, en þessu er hægt að verjast með því að láta hreinsa þá á fárra ára fresti. Hins vegar er hætta á að hlutar hans stíflist, það er ekki svo augljóst því vatn rennur áfram í gegnum hann.

Þess vegna ætti við kaup á varmaskipti að fylgja honum vottorð um hve mikið af vatni rennur í gegnum hann á ákveðnum tíma við ákveðinn þrýsting.

Ef varmaskiptir er síðan prófaður á sama hátt eftir segjum 5 ára notkun, þá kemur í ljós hvort hann sé enn í fullu fjöri, jafn opinn og hann var nýsmíðaður og óspjallaður.

Allt efni skal vottað af RB

Þetta sést á fleiri og fleiri lagnateikningum og kannski ekki óeðlilegt, þetta er víst krafan. Ef fast er staðið á þessari kröfu geta pípulagningamenn farið í fríið langa og byggingariðnaðurinn mun stöðvast, því aðeins lítill hluti af lagnaefni hefur vottun RB (þessi skammstöfun þýðir Rannóknarstofnun byggingariðnaðarins). Þetta er enn eitt dæmið um „valdið“, löggjafinn og ráðherrar setja lög og reglugerðir, fyrirskipa þetta og hitt, hengja skyldur á menn og stofnanir án þess að gera um leið ráðstafanir til að þeir sömu menn og þær sömu stofnanir hafi mannafla og fjármuni til að geta gert það sem þeim er fyrirskipað.

Það þarf að gera stórátak í vottun lagnaefna, RB verður að fá möguleika til að gera það átak en mætti nú strax verða duglegri við að koma því á framfæri hvaða lagnaefni hafa verið vottuð.

Innflytjendur og framleiðendur lagnaefnis ættu einnig að taka vottunarmálin fastari tökum, það er þeirra að afla allra erlendra vottana frá viðurkenndum stofnunum og leggja hverja umsókn vel undirbúna fyrir RB.

Fleira áhugavert: