Maí 1998

Varmaskiptir eða hitastýrð blöndunartæki

Aðgerðir í heimahúsum til að varna brunaslysum í heitu vatni

Einar Þorsteinsson hjá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins segir í samtali við Morgunblaðið að hitastýrð blöndunartæki við baðstaði eigi að vera nægileg slysavörn í flestum tilvikum.

ALLMÖRG brunaslys hafa orðið hér á landi undanfarnar vikur sem rakin eru til mikils hita á neysluvatni. Hann er víða um 80 gráður. Rætt hefur verið um að opinberir aðilar grípi til aðgerða til að lækka hitann. Þeir sem ekki vilja bíða eftir því geta ráðist í framkvæmdir við eigin hús til að draga úr hættu á brunaslysum. Þá er um tvo kosti að ræða. Annar er sá að setja upp varmaskipti og hita upp kalt vatn til neyslu en láta hitaveituvatn renna á ofnana. Hinn kosturinn er að setja upp hitastýrð blöndunartæki.

Einar Þorsteinsson, deildarstjóri lagnadeildar Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins, segir að vissulega sé það kostur fyrir fólk að setja upp varmaskipta. Gallinn sé sá að þeim fylgi tæringarhætta fyrir neysluvatnslagnir. „Kalda vatnið, sem við hitum upp í varmaskiptum, er súrefnisríkt. Súrefnið getur valdið tæringu á hefðbundnum galvaniseruðum járnlögnum,“ segir hann. „Hitaveituvatnið sem við höfum er súrefnislaust og þar af leiðandi er hverfandi lítil tæring í þeim pípum sem eru notaðar fyrir það í dag. En ef menn eru að endurnýja lagnir og setja eir- eða plastlagnir þá getur það verið góð hugmynd að setja upp varmaskipti.

Varmaskiptir vinnur þannig að í stað þess að heita vatninu sé veitt í krana húss er því veitt í varmaskipti úr ryðfríum stálplötum. Heitt vatnið rennur um annað hvert bil varmaskiptisins. Um hitt bilið rennur kalt vatn sem heita vatnið hitar upp. Upphitað vatnið fer inn á blöndunartæki. Hitaskynjari er settur við lögnina á heita vatninu og skömmtunarloki skammtar heita vatnið inn á varmaskiptinn. Með þessum búnaði er tryggt að út úr varmaskiptinum komi 55-60 gráða heitt neysluvatn. Einar segir að ekki sé mælt með því að vatnið sé kaldara en 55 gráður, því þá geta menn staðið frammi fyrir nýju vandamáli sem eru hættulegar bakteríur á borð við bakteríuna sem veldur hermannaveiki.

Varmaskiptir hefur einnig í för með sér það að kaldavatnsnotkunin eykst um 40-60%, að sögn Einars. Kostirnir eru m.a. þeir að úr krönunum kemur upphitað Gvendarbrunnavatn sem hægt er að nota í alla matargerð og hæft til drykkjar, en ekki aðeins í bað og þvotta eins og hitaveituvatnið. Auk þess er ólíku saman að jafna varðandi brunaslys þegar um er að ræða 55 gráða eða 80 gráða heitt vatn.

Í Morgunblaðinu var nýlega haft eftir innflytjanda varmaskipta að kostnaður við uppsettan búnað í einbýlishús eða raðhús væri 70-100 þúsund krónur. Ef tekið er mið af því að endurnýja þurfi lagnir jafnhliða verður kostnaðurinn mun hærri.

Hinn kosturinn til að draga úr slysahættu af völdum heita vatnsins er miklu ódýrari; algeng hitastýrð blöndunartæki kosta frá 10-30 þúsund krónum í byggingavöruverslunum. Einar Þorsteinsson segist hiklaust mæla með því að hitastýrð blöndunartæki séu sett við alla baðstaði og telur að með góðu viðhaldi sé það nægileg slysavörn. „Samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum verða slysin fyrst og fremst við baðstaði og þar er því brýnast að koma í veg fyrir að fólk noti of heitt vatn,“ segir hann.

„Sjálfvirkum, hitastýrðum blöndunartækjum fylgir hins vegar sá galli að einstreymislokar í þeim vilja gefa sig eftir 1-3 ár. Þess vegna þurfa þau viðhald. Það er ekki dýrt viðhald, en það þarf að fara fram reglulega,“ segir Einar. „Bilaður einstreymisloki heitavatnsmegin getur leitt til þess að kalda vatnið streymi yfir í heitavatnsrörin og þá er vatnið súrefnisríkt og heitt og getur komist í ofna og valdið ofnatæringu. Því þarf að taka tækin frá, hreinsa þau og skipta um loka á nokkurra ára fresti.“

Einar segir að samkvæmt byggingareglugerð sé byggingaefnissölum skylt að láta skrásetja hitastýrð blöndunartæki og eiga vottorð útgefin af Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, þar sem kveðið er á um notkunarforsendur. „Ákvæði reglugerðarinnar eru hins vegar marklaus varðandi blöndunartæki eins og mörg önnur byggingarefni,“ segir Einar. „Aðstæður á Íslandi eru sérstakar hvað varðar efnin og hitann í hitaveituvatninu og erlendar prófanir miða aldrei við það. Hitaveituvatnið okkar fer verr með blöndunartæki en annað vatn, bæði vegna efnanna, hitans og þrýstingsins, sem er víða nokkuð hár.“

Vönduð hitastýrð blöndunartæki hafa brunaöryggi svo ekki er hægt að fá heitara vatn úr þeim en um 40-50 gráður án þess að ýta sérstaklega á öryggishnappinn. Til þess segir Einar að þurfi kunnáttu sem börn innan við fjögurra ára hafa ekki, en börn á þeim aldri eru fórnarlömb flestra brunaslysa.

Umræðan um slys í heitu vatni hérlendis á sér að mati Einars hliðstæðu í umræðum sem fram fóru fyrir um það bil 10-20 árum um brunaslys af völdum rafmagns.

„Rafmagnið var mikill slysavaldur og það voru gerðar miklar ráðstafanir til að draga úr þeirri slysahættu með því að gera kröfur um útsláttarrofa. Nú eru brunaslys af völdum rafmagns tiltölulega sjaldgæf en brunaslysum af völdum vatnsins hefur farið fjölgandi,“ segir Einar Þorsteinsson og telur að næstu ár þurfi að gera svipað átak til þess að bæta aðstæður á íslenskum heimilum og koma í veg fyrir brunaslys vegna heits vatns.