Svartárvirkjun í umhverfismat
Umhverfisstofnun (UST) telur að fyrirhuguð virkjun í Svartá í Bárðardal skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Ástæðan er sú að mikilvægum álitamálum er ekki svarað nægilega skýrt í þeirri undirbúningsvinnu sem er lokið – ekki síst um sjónræn áhrif, útlit og staðsetningu mannvirkja og skortur á mótvægisaðgerðum til að draga úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar.
Um er að ræða 9,8 megavatta (MW) virkjun sem fyrirtækið SSB-orka ehf. áformar að reisa við Svartá. Þegar virkjun er undir 10 MW skal það metið, samkvæmt lögum, í hverju tilviki með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar hvort framkvæmdin sé háð mati og er það á hendi Skipulagsstofnunar að taka ákvörðun þar um. Álit UST kemur fram í umsögn sem Skipulagsstofnun leitaði eftir í þeirri vinnu.
Eins og Fréttablaðið hefur fjallað um hafa komið fram áhyggjur og tortryggni umhverfisverndarfólks á áætlanir um Svartárvirkjun, eins og þær liggja fyrir í tillögum að breytingum á aðalskipulagi og deiliskipulagi sveitarfélagsins, Þingeyjarsveitar. Mun minna sé gert úr áhrifum virkjunar en efni standa til; virkjunin muni hafa mikil áhrif á ósnortið umhverfi og lífríki Svartár, auk þess sem framkvæmdin teygir sig alla leið inn á friðlýst svæði Laxárdals í Suður-Þingeyjarsýslu. Er fullyrt að hálendisvin muni bera óafturkræft og óbætanlegt tjón af fyrirhuguðum framkvæmdum.
Efast er um vinnu verkfræðistofunnar Verkís um tillögur um breytingar á aðalskipulagi og að nýju deiliskipulagi þar sem fjallað er stuttlega um umhverfisþætti framkvæmdarinnar. Þar segir að fyrirhuguð breyting sé „ekki talin hafa veruleg áhrif á metna umhverfisþætti með tilliti til sveitarfélagsins sem heildar“, og því er ekki gert ráð fyrir sérstakri vöktun umhverfisþátta umfram venjubundið eftirlit á framkvæmda- og rekstrartíma.
Við þessari vinnu er UST að bregðast. Niðurstaðan er, þrátt fyrir að ýmislegt sé vel unnið, að ef ekki verði „vandað til mannvirkjagerðar við Svartárvirkjun gæti framkvæmdin haft umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér“.
Af skýrslu Veiðimálastofnunar vegna Svartárvirkjunar má ráða að veiði leggist nánast af á áhrifasvæði virkjunarinnar enda Svartá svo gott sem þurrkuð upp á 3,1 kílómetra kafla, en sjálfbærar veiðar, þar sem skylt er að sleppa öllum urriða og bleikju, hafa verið stundaðar í Svartá í áratugi.
Heimild: Vísir