Eftirspurn eftir rafmagni mikil – Orkufyrirtæki eiga ekki nægt rafmagn að selja

landsvirkjun

Bjorgvin Sigurdsson

Bjorgvin Sigurdsson

Björgvin Sigurðsson, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunar hjá Landsvirkjun, segir að eftirspurn eftir rafmagni hérlendis sé svo mikil að orkufyrirtæki eigi ekki nægt rafmagn til að selja. Sú staðreynd ein og sér staðfestir samkeppnishæfni raforkusamninga sem í boði eru á Íslandi miðað við önnur lönd.

„Það er markmið Landsvirkjunar að bjóða samkeppnishæf kjör á raforku með langtímasamningum, hagstæðu verði og miklu afhendingaröryggi. Fast verð til lengri tíma veitir Landsvirkjun samkeppnisforskot sem viðskiptavinir meta mikils,“ segir Björgvin.

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, kallaði í síðustu viku eftir því að Landsvirkjun lækkaði raforkuverð til þess að tryggja samkeppnishæfni iðnaðar á Íslandi. Sagði hann það nauðsynlegt í ljósi þróunar á alþjóðlegum raforkumörkuðum. Björgvin segir nauðsynlegt að leiðrétta tilvísanir Almars sem snúa að verðþróun í erlendum rafmagnssamningum.

Ekki sambærilegt raforkuverð

„Það er rétt hjá Almari að raforkuverð á skammtímamörkuðum í Evrópu og víðar hefur lækkað að undanförnu,“ segir Björgvin.  Þannig geti fyrirtæki keypt rafmagn til 1-6 mánaða á ágætum kjörum. „En samkeppnishæfni Landsvirkjunar er fyrst og fremst í samningum á föstu verði til 10-15 ára. Gögn um alþjóðlega raforkusamninga sem gerðir eru á þeim forsendum liggja ekki á lausu en Landsvirkjun býr þó yfir ágætum upplýsingum í gegnum markaðsstarf sitt,“ segir Björgvin og nefnir nokkur dæmi.

Samningar í Kanada

Nýlega voru gerðir rafmagnssamningar við þrjú álver í Kanada. „Í aðdraganda þessara samninga hótuðu álverin að hætta starfsemi sinni. Kanadísk stjórnvöld drógust inn í samningana undir þessum hótunum og hlutuðust til um að aðilar næðu saman.“ segir Björgvin. Hann segir að þar komi fram að þótt samið sé til 15 ára sé hægt að segja upp samningunum með 5 ára fyrirvara. Álverin skuldbindi sig til að fjárfesta fyrir rúma 30 milljarða króna og tryggja nokkur þúsund störf til langs tíma. Í einum samningnum verður eigandi álversins að afhenda hlut sinn í vatnsorkuveri í lok samningstímans, en hluturinn er metinn á tæplega 40 milljarða króna.

„Þrátt fyrir þessa íhlutun hins opinbera í Kanada er það mat okkar hjá Landsvirkjun að þegar á allt er litið séu samningar sem fyrirtækið býður hérlendis vel samkeppnishæfir við þá sem gerðir voru í Kanada,“ segir hann.

Styttri samningar í Noregi

Að sögn Björgvins eru fáar vísbendingar um að langtíma samningar séu í boði í Noregi á hagstæðari kjörum en bjóðast hérlendis. „Þvert á móti hefur Statkraft, systurfyrirtæki Landsvirkjunar og stærsti raforkuvinnsluaðili Noregs, upplýst að það bjóði sjaldan samninga til lengri tíma en 5-7 ára. Það hefur ekki verið tilkynnt um nein stór áform um uppbyggingu á nýjum verksmiðjum í Noregi á undanförnum árum, en á sama tíma hefur Landsvirkjun reist nýjar virkjanir, endursamið við eitt álveranna á Íslandi, aukið sölu rafmagns til viðskiptavina í stóriðju og heildsölu, lokið samningum við tvö ný kísilmálmver sem eru í byggingu og fleiri verkefni eru í farvatninu,“ segir hann.

Auðlindir Íslands verða sífellt verðmætari

„Íslendingar hafa á undanförnum áratugum styrkt stoðir efnahagslífsins af harðfylgi og hyggindum. Hér býr vel menntað starfsfólk, samgöngur eru góðar, raforkukerfið mjög öflugt, kostnaður við skipaflutninga hagstæður og aðgangur greiður að evrópskum mörkuðum. Allir þessir þættir hafa stuðlað að því að mikil eftirspurn er eftir rafmagni hérlendis frá erlendum fyrirtækjum á kjörum sem Landsvirkjun býður. Það hlýtur að teljast sanngjörn krafa að málflutningur Samtaka iðnaðarins endurspegli þessa staðreynd og vaxandi verðmæti íslenskra orkuauðlinda,“ segir Björgvin að lokum.

 

Heimild: Landvirkjun

Fleira áhugavert: