Innlend nýsköpun í stað erlendar stóriðju

Rúv

Stjórnvöld ættu frekar að leita leiða til að halda í innlend nýsköpunarfyrirtæki heldur en að niðurgreiða starfsemi erlendrar stóriðju að mati Skúla Mogensens, forstjóra Wow.

 Skúli var gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2, og ræddi þar umhverfisvernd.

 

 Smella á mynd til að hlusta á viðtalið

 

 skúli Mogensen

 

Skúli tók um helgina undir málflutning Bjarkar Guðmundsdóttur söngkonu og Andra Snæs Magnasonar rithöfundar. Þau héldu blaðamannafund í tengslum við Airwaves til að vekja athygli á umhverfisvernd og andmæla hugmyndum um sæstreng til Evrópu.

Stóriðjuvæðing í hálfa öld

Skúli sagði í Morgunútvarpinu að hér væri ekki þörf á frekari virkjunum eða stóriðju. Það væri skiljanlegt að landsmenn hefðu fetað þessa leið fyrir um hálfri öld þegar auka átti fjölbreytni í íslensku atvinnulífi og skjóta fleiri stoðum undir það. Sú staða væri ekki lengur uppi. „Auðvitað þarf kjark. Eins og ég segi hefur stóriðjuvæðingin verið ríkjandi á Íslandi, í 50 til 60 ár, og gríðarlegur þungi á bak við hana.“Hann líkti hugmyndum um raflínur yfir hálendið við umdeild áform í Bandaríkjunum um að leggja 3.500 kílómetra langa olíuleiðslu frá Kanada yfir Bandaríkin. Hvort tveggja olíuframleiðendur og repúblikanar hefðu barist mjög fyrir þeirri leiðslu en Barack Obama Bandaríkjaforseti staðist þann þrýsting.

Skúli sagði að Íslendingar byggju nú við fjölbreytt atvinnulíf, atvinnuleysi væri í lágmarki og ferðaþjónusta væri í miklum vexti. Því væri ástæða til að leita annarra leiða en að auka stóriðju. „Mér þætti nær að ígrunda hvernig getum við haldið í mikið af þessum frábæru fyrirtækjum sem hafa verið jafnvel að flýja land, og af hverju eru þau að flýja land. Þá er ég að tala um innlend nýsköpunarfyrirtæki frekar heldur en að laða til okkar og niðurgreiða erlenda stóriðju.“

Nýrri og eyðslugrennri flugvélar

„Þetta er það ódýra skot sem ég hef fengið á mig,“ sagði Skúli aðspurður hvort það færi saman að reka flugfélag og lýsa áhyggjum af umhverfis- og loftslagsmálum. Hann sagðist hafa verið farinn að tala fyrir umhverfisvernd áður en hann hóf rekstur WOW og þá hefði gagnrýnin frá vinstrimönnum beinst að því að hann sem sjálfstæðismaður ætti ekki að tala um slíkt. Hann kvaðst hafa lagt sig fram um að vera með sem nýjastar flugvélar sem eyddu sem minnstu eldsneyti. Þá hefði hann fylgst vel með því sem væri að gerast í þróun flugvéla, tilraunum til að gera þær léttari og umhverfisvænni.

 

Heimild: RÚV

 

 

Fleira áhugavert: