Mannasaur er framtíðarorkuauðlind

Heimild: ruv

Mannasaur er framtíðarorkuauðlind

 

Nóvember 2015

Gas unnið úr mannasaur getur reynst drjúg orku-uppspretta og séð milljónum heimila fyrir rafmagni. Slík gasvinnsla gæti einnig bætt hreinlætisaðstæður til muna í mörgum þróunarlöndum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Umhverfis-, vatns- og heilsurannóknastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

 Hægt er að framleiða lífgas, sem inniheldur um það bil 60% metangas, með því að nota réttar bakteríur til að brjóta niður mannasaur við réttar aðstæður. Með hámarksnýtingu þess hráefnis sem mannfólkið skilar af sér á degi hverjum mætti framleiða úr því raforku fyrir 138 milljónir heimila, eða öll heimili í Brasilíu, Indónesíu og Eþíópíu samanlagt.

Lífgasið sem fengist með þessum hætti gæti mögulega komið í stað jarðgass fyrir allt að 9.5 milljarða bandaríkjadali á ári, eða 1.225 miljarða króna. Þurrefnið sem eftir liggur má síðan vinna og nýta í stað trékola, og draga þannig úr skógarhöggi til eldsneytisframleiðslu.

 

Mikilvægt fyrir heilsu fólks

Ábatinn af nýtingu saurs sem orkugjafa er þó smámunir einir í samanburði við þann mikla heilsufars- og umhverfislega ávinning sem hlýst af ábyrgri meðferð og nýtingu mannlegs úrgangs. Talið er að rekja megi allt að 10 af hundraði allra sjúkdóma í þróunarlöndum til ófullnægjandi hreinlætisaðstöðu. Um milljarður manna, þar af um 600 milljónir Indverja, hefur alls enga salernisaðstöðu heldur þarf að ganga örna sinna undir berum himni. Með því að koma upp salernisaðstöðu fyrir þennan hóp má bæta heilsufar og þar með lífsgæði hans svo um munar.

Væri saurnum jafnframt safnað saman væri hægt að vinna úr honum orku til að lýsa og hita 18 milljónir heimila með síendurnýjanlegu lífgasi, sem kæmi í stað allt að 50 milljarða virði af óendurnýjanlegu jarðgasi.

Lesa má meira um þessa athyglisverðu skýrslu á vef stofnunarinnar.

 

Reykvískir kamareigendur mótmæltu eignaupptöku 1912

Einhverjum kann mögulega að finnast að hér sé undarlega um vélað og vilja sem minnst af þessari orkuríku framleiðslu sinni vita eftir að sturtað er niður. Þó er ekki lengra síðan en rétt ríflega öld, að nálega 400 Reykvíkingar sendu harðorð mótmæli til bæjarstjórnar vegna nýs fyrirkomulags við kamarhreinsun í bænum. Það fyrirkomulag gerði ráð fyrir því að hreinsunarmenn á vegum bæjarins tæmdu alla kamra, og yrði hver kamareigandi að greiða fyrir það þjónustugjald.

Þótti þetta hin mesta ósvífni, enda væri með þessu verið að taka eignir manna frá þeim, endurgjaldslaust, sem væri ótvírætt brot á 50. grein stjórnarskrárinnar. Í erindi borgaranna, sem ritað var á gamlársdag 1912 og birtist í Vísi þann 5. janúar 1913, segir enn fremur að þeir vilji ekki þola að þvílíkt lagabrot sé á þeim framið, „nje heldur viljum vjer láta svifta oss eignum vorum, án þess að nokkuð komi fyrir, enda getur engum blandast hugur um, að umræddur salerna-áburður er verðmœt eign, hjer sem annarsstaðar. Er það svo alkunnugt að eigi þarf að taka það fram, og beinlínis er líka gengið út frá því í greindum samningi borgarstjóra, þar sem áburðurinn er »afhentur« hreinsunarmanni svo sem upp í endurgjald fyrir hreinsunarverkið.“

Fleira áhugavert: