Vindorkuspaðar – Einn haförn á ári

Grein/Linkur:  Einn haförn á ári yrði spöðunum að bráð

Höfundur:  Sunna Ósk Logadóttir, Heimildinni

Heimild:  

.

Ránfugl á válista – Um 90 arnarpör eru í landinu en frjósemi þeirra er lítil og því stækkar stofninn hægt. Hann er þó á bátavegi eftir að hafa verið nánast horfinn skömmu eftir aldamótin 1900

.

September 2024

Einn haförn á ári yrði spöðunum að bráð

Qa­ir Ice­land byggði nið­ur­stöð­ur á áflugs­hættu hafarna á vind­myll­ur áform­aðs orku­vers að­eins á hluta þeirra gagna sem fyr­ir­tæk­ið hafði að­gang að. Það leiddi til van­mats á hætt­unni að mati Nátt­úru­fræði­stofn­un­ar sem seg­ir að finna ætti vindorku­ver­inu aðra stað­setn­ingu en fuglap­ara­dís­ina á Laxár­dals­heiði.

Laxárdalsheiðinni þar sem Qair Iceland áformar að reisa 29 vindmyllur, hverja um 200 metra á hæð, er ríkulegt fuglalíf. Vindorkuverið yrði innan Dalabyggðar en áhrifanna, meðal annars hinna sjónrænu, myndi gæta mun víðar. Þessi virkjanahugmynd hefur verði kennd við Sólheima, jörðina sem hið fyrirhugaða framkvæmdasvæði tilheyrir. Þá jörð keypti félag í eigu Ásmundar Einars Daðasonar mennta- og barnamálaráðherraoog fjölskyldu hans árið 2015. Aðeins tvö vindorkuver hafa verið færð inn á aðalskipulag sveitarfélaga á Íslandi og er Sólheimaverið annað þeirra.

Frá því að hugmyndin um að reisa hin miklu mannvirki á Laxárdalsheiðinni komu fram hafa þeir sem þekkja til bent á að svæðið, sem er alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði, er í flugleið hafarna. Haförn er sem kunnugt er á válista yfir tegundir í hættu og margir hafa lagt mikið á sig til að vernda þessa stærstu ránfugla sem finnast hér á landi. Vegna þessa lögðu Náttúrufræðistofnun og Umhverfisstofnun ríka áherslu á að fuglarannsóknir á hinu fyrirhugaða framkvæmdasvæði yrðu ítarlegar.

„Við teljum því að það eigi ekki að byggja vindmyllur á svæðum þar sem hafernir eru töluvert á ferðinni“

Áhrif vindorkuvera á fuglalíf geta verið margþætt. Tap verður á búsvæðum fugla á framkvæmdasvæði en tap á búsvæðum tegunda ógnar líffræðilegum fjölbreytileika. Þá er talið að tegundir sem þurfa mikil lífssvæði geti hrakist frá búsvæðum sínum við framkvæmdir sem þessar. Vindorkuverin geta skapað hindrun milli lífssvæða fuglanna (varp-, beitar- og veiðisvæði). Þá getur vindorkuver virkað sem hindrun á flugleiðum fugla. Getur það valdið því að fuglarnir þurfi að finna sér nýjar farleiðir sem geta verið orkufrekari. Vindorkuver skapa auk þess áflugshættu fyrir fugla sem þurfa að fara um svæðið. Þar geta þættir eins og þéttleiki, staðsetning með tilliti til athafnasvæða og flughegðun fuglanna spilað inn í.

Hávaði frá vindmyllum getur einnig haft margþætt áhrif á fuglalíf. Hávaði getur skert getu fugla til að greina óvini og haft áhrif á samskipti fuglanna sín á milli. Þá þurfa fuglarnir að syngja hærra til að yfirvinna hávaðann frá vindorkuverinu.

Svæðið sem Qair ætlar að reisa ver sitt á í Sólheimum er allt innan mikilvægs fuglasvæðis.

Vindorkuverið Sólheimar – Qair Iceland áformar að reisa 29 vindmyllur, hverja um 200 metra á hæð, á Laxárdalsheiðinni. Vindorkuverið yrði innan Dalabyggðar en áhrifanna myndi gæta mun víðar.

14 ernir í spaðana á 25 árum

Qair Iceland, fyrirtækið sem áformar byggingu versins, er alfarið í eigu franskra aðila. Það gaf í sumar út umhverfismatsskýrslu um verkefnið þar sem m.a. er greint frá þeim fuglarannsóknum sem gerðar voru. Svokallaðar sjónarhólsrannsóknir voru gerðar, þar sem manneskja fylgist með fuglum á ákveðnum tímum yfir skilgreint tímabil, sem og ratsjárrannsóknir. Þá segir í skýrslunni að stuðst hafi verið við rannsóknir Náttúrufræðistofnunar út frá gögnum úr gervihnattamerkingum hafarna. Og niðurstaða skýrslu Qair hvað haförninn snertir: Á 25 ára líftíma verkefnisins jafngildir þetta afföllum 13 til 14 fugla miðað við viðveru allt árið.

Bæði Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun telja að hér sé um vanmat að ræða. Umhverfisstofnun bendir á að tveir þekktir hreiðurstaðir hafnarna séu í innan við 10 kílómetra fjarlægð frá framkvæmdasvæðinu. Haförn sé í meiri hættu en flestar aðrar fuglategundir á að fljúga á mannvirki á borð við vindmyllur. Forðunartíðni hans, líkt og það er orðað, er lægri heldur en t.d. álfta og himbrima. Miðað við þá forðunartíðni er hætta á árekstri um einn haförn á ári, segir Umhverfisstofnun í umsögn sinni við umhverfismatsskýrslu Qair. „Í ljósi stofnstærðar hafarnar verður þetta að teljast há tala.“

Rúmlega 90 arnarpör eru í landinu og hafa þau ekki verið fleiri frá því að fuglinn var friðaður árið 1914. Stofninn á enn langt í land með að ná fyrri stærð. Varpútbreiðsla þeirra er takmörkuð við vestanvert landið.

Mest verða áhrif á fuglalíf

„Engum blöðum er um það að fletta að vindorkugarðurinn mun gjörbreyta landslagi svæðisins og hafa víðtæk ásýndaráhrif í landshlutanum sem einungis magnast þegar samlegðaráhrif við aðra mögulega vindorkugarða eru skoðuð,“ segir í umsögn Náttúrufræðistofnunar. „Mest munar um áhrif á fuglalíf.“ Hið ríkulega fuglalíf sem finna megi á framkvæmdasvæðinu myndi verða fyrir beinum áhrifum vegna búsvæðarasks, truflunar og áflugshættu ef verið yrði byggt.

Mikil umferð fugla sé um svæðið, m.a. hafarna. „Það eitt og sér er nægileg forsenda fyrir því áliti Náttúrufræðistofnunar að vindorkugarðurinn í Sólheimum sé mjög óheppilega staðsettur og feli í sér töluverða hættu fyrir viðkvæman stofn hafarna og muni skerða búsvæði fjölda fleiri fuglategunda innan mikilvægs fuglasvæðis. Æskilegra væri að finna aðra staðsetningu fyrir starfsemina.“

Fáliðuð stofnun og álag vaxandi

Tugir vindorkuverkefna eru á teikniborðinu og gríðarleg vinna fyrir höndum hjá stofnunum að kafa ofan í matsskýrslur framkvæmdaaðila. Þau Snorri Sigurðsson, sviðsstjóri náttúruverndarsviðs Náttúrufræðistofnunar, og Sunna Björk Ragnarsdóttir, sviðsstjóri rannsókna og vöktunar, telja óhætt að segja að álag á starfsmenn Náttúrufræðistofnunar fari hratt vaxandi við að sinna lögbundinni umsagnarskyldu stofnunarinnar sem og við að veita margs konar ráðgjöf og standa að gagnasöfnun á eigin vegum.

Náttúrufræðistofnun er lítil stofnun, benda þau á. „Við erum fáliðuð en með afar mörg verkefni. Vindorkuverin eru stórt nýtt viðfangsefni sem við höfum þurft að setja okkur inn í en það er einnig mikill vöxtur í öðrum geirum samfélagsins sem við þurfum líka reglulega að veita okkar faglega mat á og jafnvel koma að rannsóknum og vöktun á,“ segja þau og nefna álag á ferðamannastöðum, fiskeldi í sjó og á landi, skógrækt, uppbyggingu frístundabyggða, stækkun þéttbýlis, jarðvarmanýtingu, vatnsaflsvirkjanir og efnistöku í sjó og á landi.

„Það er vöxtur í þessu öllu og ekki alltaf skýr stefna til staðar um hvernig best sé að þessu staðið til að tryggja sjálfbærni og góða umgengni um náttúru landsins og að hlífa því sem er viðkvæmt og sérstakt.“

Náttúrufræðistofnun veitir vel yfir 350 umsagnir um skipulagsmál, umhverfismat framkvæmda og leyfisveitingar á hverju ári og þeim fer hratt fjölgandi. Þá er ótalin alls konar óformleg ráðgjöf sem og þátttaka sérfræðinga í rannsóknum vegna einstakra verkefna. Stofnunin þyrfti sannarlega að vera fjölmennari að mati Snorra og Sunnu til að geta sinnt öllu því sem leitast er eftir hjá þeim fyrir utan að sinna lögbundnum rannsóknum um grunnkortlagningu og grunnvöktun íslenskrar náttúru en þau verkefni séu fjölmörg sömuleiðis. „Það er óhætt að segja að það eru of fáir náttúrufræðingar á Íslandi yfirhöfuð, og margt sem á eftir að rannsaka betur,“ segja þau.

Þess vegna vanti enn mikilvægar grunnupplýsingar um margt í náttúru landsins, gildi hennar, ástand og mat á hvernig hún þolir breytingar af mannavöldum – það eigi við um fugla, gróður, landslag, jarðfræði, líf í vatni og sjó og svo framvegis. Mat á umhverfisáhrifum verði einnig sífellt viðameira og flóknara, sem sé að þeirra mati að mörgu leyti gott, því kröfur um gæði séu að aukast.

„Það er nauðsynlegt að standa vörð um og styrkja starfsemi náttúruvísindastofnana sem sinna grundvallarrannsóknum, vöktun, miðlun og ráðgjöf um náttúru landsins,“ segja Snorri og Sunna. „Það er grunnforsenda fyrir því að fagleg ákvarðanataka stjórnvalda og annarra í þágu sjálfbærrar nýtingar og verndunar íslenskrar náttúru fari fram.“

Aðeins hluti gagna nýttur

Náttúrufræðistofnun segir í umsögn sinni að ákveðnir annmarkar séu í skýrslu Qair á notkun og túlkun þeirra umfangsmiklu gagna sem safnað var um fuglalíf, einkum er varða áflugshættu „og líkur á að áhrif hafi verið vanmetin að hluta“.

Bendir stofnunin sérstaklega á þau gögn sem aflað var með GPS-staðsetningarbúnaði á haförnum. Að mati stofnunarinnar hefði mátt vinna mun betur með þau gögn í umhverfismatinu, en þau sýna að stór hluti hafarna hefur farið um svæðið og að mikil umferð ungra arna sé almennt um Laxárdalsheiðina.

Mat Qair byggðist eingöngu á sjónarhólsmælingunum og skosku viðmiði á forðunartíðni, segja þau Snorri Sigurðsson, sviðsstjóri náttúruverndarsviðs Náttúrufræðistofnunar, og Sunna Björk Ragnarsdóttir, sviðsstjóri rannsókna og vöktunar, við Heimildina. „Við bendum á að önnur gögn, svo sem farleiðagögnin, voru ekki notuð í þessu mati fyrir haförninn og radargögnin, sem hefðu til dæmis getað nýst fyrir stærri farfugla eins og álftir og gæsir, voru heldur ekki notuð. Þetta er því örugglega vanmat að okkar mati. Hversu mikið er erfitt að segja.“

Þau benda einnig á að ekki hafi verið staðreynt að 95% forðunartíðni hafarna, sem er fengin úr skoskum viðmiðum, eigi við hér á landi. Það sé alls ekki öruggt. „Það er erfitt að reikna út án þess að vera með gögn til þess, hver líkleg áflugstíðni er – hvort það fari nálægt því sem Umhverfisstofnun leggur til.“

„Í raun óháð því að um líklegt vanmat á áflugstíðni sé að ræða þá teljum við hættuna of mikla fyrir haförninn“

Sunna og Snorri hjá Náttúrufræðistofnun

Þá verði líka að horfa til samlegðaráhrifa með tilliti til allra þeirra vindorkuáforma sem eru til skoðunar innan útbreiðslu/ferðasvæðis hafarnarins á Vesturlandi – tvö á Laxárdalsheiði, Garpsdal, tvö í Borgarfirði, eitt í Hvalfirði, mögulega eitt í Húnavatnssýslum og svo framvegis. „Ef af þeim öllum verður er ljóst að áflugshættan verður þeim mun meiri.“

En eru það ekki verulega gagnrýniverð vinnubrögð af hálfu framkvæmdaaðila að byggja mat í skýrslu sem þessari aðeins á hluta gagna?

„Jú, það er gagnrýnivert að miða við hversu mikið var safnað af gögnum, þá virðast þau hafa verið notuð mismikið, sérstaklega þegar kemur að matinu á áflugshættu,“ svara Snorri og Sunna. „Vissulega henta gögn misvel fyrir þessa útreikninga sem notaðir eru, en það breytir því ekki að þegar útreikningarnir byggjast einungis á einni gerð gagna sem gefa takmarkaðar upplýsingar, þá muni það gefa að einhverju leyti misvísandi niðurstöðu.“

Of mikil hætta fyrir haförninn

En, segja þau, „í raun óháð því að um líklegt vanmat á áflugstíðni sé að ræða þá teljum við hættuna of mikla fyrir haförninn.“ Jafnvel matið sem sett er fram í umhverfismatsskýrslunni, byggt á þeim gögnum sem þar voru notuð og sem gerir ráð fyrir mótvægisaðgerðum – að einn örn fljúgi á vindmyllu á þriggja ára fresti að jafnaði – sé of hátt fyrir hafarnastofninn. „Hann er það viðkvæmur.“

Íslenski stofninn telji ekki nema um 90 pör, frjósemi þeirra sé lág og fjölgun í stofninum hafi gerst mjög hægt. „Svona mikla viðbótaráhættu ber að forðast. Við teljum því að það eigi ekki að byggja vindmyllur á svæðum þar sem hafernir eru töluvert á ferðinni.“

Fleira áhugavert: