Hamarsvirkjun – Verndarflokk, orkuöryggi
Grein/Linkur: Hart deilt um Hamarsvirkjun á Austurlandi
Höfundur: Rúnar Snær Reynisson
.
.
September 2024
Hart deilt um Hamarsvirkjun á Austurlandi
Hart er deilt um Hamarsvirkjun á Austurlandi sem lagt er til að fari í verndarflokk. Sveitarfélögin telja virkjunina nauðsynlega fyrir orkuöryggi og orkuskipti en Náttúruverndarsamtök Austurlands segja mikilvægt að friðlýsa svæðið.
Sveitarfélög á Austurlandi hafa mótmælt tillögu um að Hamarsvirkjun, sem Arctic Hydro vill reisa, fari í verndarflokk, og vilja virkja. Náttúruverndarsamtök Austurlands gagnrýna sveitarfélögin fyrir að vilja fórna svokölluðu Hraunasvæði fyrir ávinning erlendra aðila.
Virkjunin yrði nærri þegar röskuðu svæði
Verkefnastjórn rammáæætlunar lagði til að Hamarsvirkjun færi í verndarflokk, meðal annars þar sem svokallað Hraunasvæði og Lónsöræfi og ósnortin víðerni þar hefðu hátt verndargildi. Niðurstaðan er gagnrýnd í umsögn Arctic Hydro og Skírnir Sigurbjörnsson framkvæmdastjóri segir að vegir, tvær stíflur og tvö lón í Hamarsvatni og Vesturbót yrðu nærri þegar röskuðu svæði.
„Fyrir þarna á svæðinu skammt undan er Hraunaveita Kárahnjúkavirkjunar og þarna eru Ódáðavörn sem er miðlun Grímsárvirkjunar. Og við teljum að þetta séu tiltölulega lítil inngrip miðað við mikið af orku og mikið afl, 60 megavött.
Rennsli fossa myndi skerðast á um 8 kílómetra kafla en aðgengi að svæðinu batna
Hamarsvatn myndi stækka úr einum ferkílómetra í um þrjá í hæstu stöðu og inntakslónið í Vesturbót yrði um einn og hálfur ferkílómetri í hæstu stöðu. Fossar í Hamarsá myndu skerðast á um 8 kílómetra kafla; fyrir neðan inntak virkjunarinnar og niður að affalli. Skírnir segir að farvegurinn yrði ekki þurr þar sem lækir og hliðarár rynnu áfram í ána. Fyrir neðan affallið yrði rennslið svo óskert en jafnara. Komandi kynslóðir gætu ákveðið að hleypa vatni aftur á fossana. Vegagerð tengd virkjuninni myndi skapa möguleika á hringferð með ferðamenn um svæðið. Í umsögn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) segir: „Framkvæmdin myndi stórbæta aðgengi almennings að hálendi sem myndi nýtast til útivistar og eflingar ferðaþjónustu á svæðinu.“
Eiður Ragnarsson, rekur ferðaþjónustu á Bragðavöllum í Hamarsfirði og tekur í sama streng í umsögn sinni. „Hamarsdalur er lengstur þeirra dala sem skera Austfjarðafjallgarðinn eða liðlega 30 km langur mældur frá fjöru að vatnaskilum, en jafnframt er hann erfiður yfirferðar, brattur og skorinn djúpum giljum þveráa. Af þessum sökum hefur aðgengi að þeirri náttúruperlu sem ég tel dalinn vera verið mjög takmarkað og sennilega eru fáir dalir hér austanlands jafnlítið skoðaðir af heimafólki og ferðamönnum, eins og Hamarsdalur. […] Það er því rangt að mati undirritaðs að færa ferðasvæðið Djúpivogur niður í 6 úr 10 eins og gert er mati faghópsins. Sama á við um ferðasvæðið Hraun sem fært er úr 10 í 1 í sama mati, en umferð gangandi um Hraunin vestan Hamarsdals, t.d. milli Lónsöræfa og Snæfells, mun ekki upplifa neina breytingu á þeirri leið, enda er virkjunin austan vatnaskila og útsýni yfir áhrifasvæðis hennar er ekkert.“
Deilt um sjálfar deilurnar
Ein af rökum verkefnastjórnar fyrir vernd voru að Hamarsvirkjun væri umdeild og myndi valda sundrung. Skírnir undrast slík rök til að réttlæta vernd og bendir á umsagnir sveitarfélaga.
„Lýðræðislega kjörinn meirihluti er í rauninni að mótmæla því að Hamarsvirkjun sé í sett í vernd. Við erum að tala um Hornafjörð, Múlaþing, Fjarðabyggð og Fljótsdalshrepp og SSA. Þannig að ég get ekki séð annað en að það sé mikill í rauninni meirihluti, lýðræðislega kjörinn meirihluti sem er þá á bak við verkefnið og vilji sjá það fara í nýtingu,“ segir Skírnir.
Náttúruverndarsamtök Austurlands eru á öndverðum meiði og í ályktun aðalfundar fordæma samtökin sveitarfélögin fyrir afstöðu þeirra. Segja þau vilja fórna Hraunasvæðinu fyrir orkugarð á Reyðarfirði en þar á að framleiða rafeldsneyti til orkuskipta. Í ályktun samtakanna eru þau áform kölluð efnaverksmiðja spákaupmanna í tilraunaskyni við þróun rafeldsneytis.
„Þetta er einn af fáum stöðum sem eftir eru á Austurlandi þar sem náttúran fær að vera í friði að talsverðu leyti. Og þessum svæðum fer ört fækkandi á bæði lands og heimsvísu sem er áhyggjumál þar sem náttúran þarf pláss. Loftslagsbreytingar og hrun líffræðilegrar fjölbreytni eru ekki tvö aðskilin vandamál heldur tvær afleiðingar sama vandamálsins sem er ofnýting og sóun auðlinda,“ segir Guðrún Óskarsdóttir, formaður Náttúruverndarsamtaka Austurlands.
Landvernd fagnaði því í umsögn að verkefnastjórn legði til að Hamarsvirkjun færi í verndarflokk. „Segja má að með þessari ákvörðun hafi tekist að hlífa því takmarkaða svæði sem eftir stendur á Hraunum sem telja má lítt snortið. Fyrir liggur að svæðinu innar á Hraunum, þar sem svokallaðar Hraunaveitur og svo Hálslón í framhaldi hafa verið byggð hefur þegar verið raskað stórkostlega vegna virkjana,“ segir í umsögn Landverndar.
Fólk enn í sárum eftir Kárahnjúkavirkjun
Svæðið sé verðmætt út frá náttúrufari og Landvernd mótmælir í umsögninni fullyrðingum í öðrum umsögnum um að ekki séu deilur um virkjunina. „Í viðtölum við fólk á svæðinu þegar skýrsla verkefnisstjórnar var unnin komu skýrt og endurtekið fram áhyggjur um klofning. Hræðsla fólks í samfélaginu um klofning koma til af biturri og langvarandi deilu vegna langstærstu virkjanaframkvæmda Íslandssögunnar ekki fjarri upptökum Hamarsár. Félagar í Náttúruverndarsamtökum Austurlands og fjölmargir aðrir íbúar á Austurlandi bera enn þann dag í dag sár eftir þær deilur. Í því ljósi eru áform um Hamarsvirkjun ógn við samfélagið og að sama skapi ógn við þann part af Hraunasvæðinu sem nú fær vel að merkja að standa óraskaður,“ segir í umsögn Landverndar.
Tvö umsagnarferli hafa verið í tengslum við vinnu verkefnastjórnar um Hamarsvirkjun.
Hér má sá umsagnir í fyrra umsagnarferli
Hér má sjá umsagnir í seinna umsagnarferli sem líkur 27. september