Hamarsvirkjun – Í verndarflokk
Grein/Linkur: Arctic Hydro æfir yfir verndarflokkun Hamarsvirkjunar
Höfundur: Sunna Ósk Logadóttir, Heimildinni
.
.
Júlí 2024
Arctic Hydro æfir yfir verndarflokkun Hamarsvirkjunar
Verkefnisstjórn rammaáætlunar hefur lagt til að kosturinn Hamarsvirkjun á Austurlandi fari í verndarflokk. Fyrirtækið Arctic Hydro, sem ætlaði að reisa virkjunina, gagnrýnir tillöguna. Það gera einnig þeir sem stefna á byggingu risavaxins vindorkuvers.
Ekkert verður af 60 MW Hamarsvirkjun á Austurlandi líkt og fyrirtækið Arctic Hydro hf. áformar ef tillögur verkefnisstjórnar 5. áfanga rammaáætlunar um að setja kostinn í verndarflokk verða að veruleika. Verðmætamat faghóp á náttúru svæðisins, landslags og víðerna, spilar þar stærstan þátt.
Virkjunaraðilinn er allt annað en sáttur og leitaði bæði liðsinnis lögfræði- og verkfræðistofu til að verjast. Lögfræðistofan Sókn gagnrýnir harðlega í umsögn sinni mat faghópa rammaáætlunar, sem tillaga verkefnisstjórnar byggir á, og segir vísbendingar um að það „hvíli á villum og tilteknu samræmisleysi“.
Verkfræðistofan Efla er á svipuðum nótum í sinni umsögn og gagnrýnir m.a. mat á mikilvægi víðerna í tengslum við virkjunina og segir faghópana ekki hafa tekið tillit til nýrra gagna frá virkjunaraðilanum sem rýri þar með trúverðlugleika og fagleika við niðurstöðuna. „Þegar rök verkefnisstjórnar fyrir flokkun Hamarsvirkjunar í verndarflokk eru skoðuð má sjá að settar eru fram ýmsar staðhæfingar sem eru háðar ýmsum annmörkum og eru beinlínis rangar í mörgum tilvikum,“ segir svo í umsögn framkvæmdastjóra Arctic Hydro.
Höfðu horft til Hamarsvirkjunar varðandi jöfnunarafl fyrir rafeldsneytisverksmiðju á Reyðarfirði
Fjarðarorka ehf., sem hyggur á byggingu risavaxins vindorkuvers í Fljótsdal og sömuleiðis á framleiðslu á „grænu ammoníaki“ sem rafeldsneytis á Reyðarfirði, hugðist nota orku Hamarsvirkjunar sem jöfnunarafl og er fyrirtækið af þeim sökum gagnrýnið á tillögu verkefnisstjórnarinnar. Vindorkuver framleiða ekki rafmagn nema að vindur blási og til að halda framleiðslunni stöðugri þarf mikið magn orku úr öðrum orkugjöfum til jöfnunar. „Forsenda þess að græn orkuframleiðsla geti farið fram á Íslandi í formi virkjunar vindorku er að nægjanlegt framboð sé af jöfnunarorku,“ segir Fjarðarorka í umsögn sinni.
„Enn gætir afleiðinga þeirra sára sem Kárahnjúkavirkjun olli í samfélagi okkar hér eystra“
Hamarsá á upptök sín í smávötnum og tjörnum á Sviðinhornahraunum í efstu drögum Hamarsdals. Virkjunarhugmyndin gerir ráð fyrir miðlun í Hamarsvatni, sem myndi stækka úr 1 km2 í 3 km2. Þremur hliðarám yrði veitt inn í aðrennslisgöng að stöðvarhúsi sem yrði byggt inni í fjalli. Hátt mat á verðmæti náttúruminja og mikil áhrif á þau verðmæti eru mikilvægur þáttur í mati á virkjunarkostinum, segir í tillögu verkefnisstjórnarinnar.
Byggðaráð Múlaþings leggst gegn því að Hamarsvirkjun verði flokkuð í verndarflokk og það gera stjórnvöld í Fjarðabyggð og Fljótsdalshreppi einnig.
Náttúrufræðistofnun er hins vegar sammála þeirri niðurstöðu verkefnisstjórnar að Hamarsvirkjun fari í verndarflokk og telur rök fyrir þeirri niðurstöðu vera skýr. Það sé fyrst og fremst vegna þess að ýmsir náttúrufarsþættir sem yrðu fyrir áhrifum af virkjun Hamarsár eru metnir með hátt eða mjög hátt verndargildi og leiði það til þess að sú heildareinkunn sem tilgreind er fyrir virkjunarkostinn í skýrslu faghóps 1 er há fyrir bæði verðmæti og áhrif. Heildareinkunn fyrir verðmæti náttúrufarsþátta séu með þeim hæstu sem metnir hafi verið í samanburði við aðra virkjunarkosti. Þar vegi þyngst hátt verðmætamat á landslagi, víðernum, jarðminjum og vatnafari.
Ósammála mati á samfélagsáhrifum
Meðal þess sem Arctic Hydro gagnrýnir er að verkefnisstjórnin telur vísbendingar um að Hamarsvirkjun kunni að verða umdeild í Múlaþingi og gæti því haft nokkuð neikvæð áhrif á samheldni samfélagsins. „Þetta mat faghópsins byggir á því að forsvarsmenn Múlaþings búast við að raddir andstæðinga verði háværari þegar virkjunin kemst nær framkvæmdastigi,“ skrifar Skírnir Sigurbjörnsson framkvæmdastjóri. „Segja má að Hamarsvirkjun líði þarna fyrir hreinskilni forsvarsmanna Múlaþings, sem eru einfaldlega að segja það sem allir vita, það er að virkjunarframkvæmdir eru ávallt umdeildar að vissu marki. Það sama á örugglega við um aðrar virkjanir sem voru til umfjöllunar.“
Sár vegna deilna um Kárahnjúkavirkjun enn opin
Stefán Steinólfsson er meðal þeirra sem hrósa verkefnastjórninni fyrir að setja Hamarsvirkjun í verndarflokk og minnir á „sárin frá Kárahnjúkavirkjun“. Sú virkjun, sú langstærsta sem byggð hefur verið á Íslandi, var mjög umdeild á landsvísu og olli miklu ósætti í nærsamfélaginu.
Pétur Heimisson, læknir og fulltrúi Vinstri grænna í sveitarstjórn Múlaþings, tekur í sama streng. „Samfélagsleg sátt er einn af hornsteinum hvers samfélags og það er mitt mat að Hamarsvirkjun væri líkleg til að draga mjög úr slíkri sátt í nærsamfélaginu. Enn gætir afleiðinga þeirra sára sem Kárahnjúkavirkjun olli í samfélagi okkar hér eystra. Að virkja ekki í Hamarsdal er því liður í að aftstýra slíkum klofningi.“