Shaybah Arabíu – 14 milljarðar tunna
Grein/Linkur: Shaybah Arabíu – 14 milljarðar tunna
Höfundur: Ketill Sigurjónsson
.
.
April 2008
Á valdi óttans
Óttinn við minnkandi olíuframboð er áberandi nú um stundir. Í framhaldi af síðustu færslu var ég spurður að því hvort ég legði ekki full mikil völd í hendur Sauda-konungs. Því er tilefni til að útskýra nánar hvaða hlutverk Saudi-Arabía leikur i orkumálum og hversu mikil áhrif Saudarnir hafa á framboð af olíu og gasi
Auk þess sem Saudi-Arabía er stærsti olíuútflytjandi heims, er langmestu olíubirgðirnar þar að finna. Sjálfir segjast Saudar ráða yfir 260-265 milljörðum fata af olíu, sem gerir hátt í fjórðung af öllum þekktum olíubirgðum jarðar. En vandamálið er, að í raun veit enginn hvort Saudarnir segja satt. Heimurinn veit í raun ekki hversu miklar olíu- eða gasbirgðir eru í Arabíu.
Nánast öll olíu- og gasframleiðsla Sauda er í höndum ríkisolíufélagsins Saudi Aramco, sem að sjálfsögðu er langstærsta olíufélag í heimi. Lengi vel áttu erlend olíufyrirtæki stóran hlut í Saudi Aramco, sem byrjaði olíuvinnslu í Arabíu upp úr 1930. Meðal eigendanna var t.d hið alræmda bandaríska olíufélag Standard Oil, sem við þekkjum í dag sem Chevron. En frá 1980 hefur Saudi Aramco verið 100% í eigu ríkisins. Og þar liggja upplýsingar ekki á lausu. Þannig að heimsbyggðin verslar með olíu, sem að stórum hluta kemur frá Saudi Arabíu, en enginn veit hversu lengi það ágæta land spámannsins getur haldið áfram að mæta sívaxandi eftirspurn eftir olíu og gasi. Þess vegna er tilfinningin að eiga viðskipti með olíu á NYMEX, dálítið eins og að spila rúllettu í Las Vegas. Æsandi, stressandi og unaðslegt; allt í senn.
Myndin hér að ofan er frá Shaybah olíusvæðinu í Arabíu, en þar er að finna einhverja stærstu olíulind i heimi. Þarna munu liggja sem samsvarar um 14 milljörðum tunna af hágæða hráolíu á um 1500 metra dýpi. Þetta er vissulega heillandi – og ekki síður staðurinn sjálfur en þarna er jafnan um 60 stiga hiti á daginn og 10 stig á næturnar. Þægilegasta hitasveifla – ekki satt? Minnir á það þegar Tinni sigldi til Íslands og lenti í fárviðri, en Kolbeinn kafteinn kallaði það þægilegan goluþyt („Dularfulla stjarnan“!).