Bandaríkin – Innleiðing vindorku, sagan

Grein/Linkur: Kennedy er Íslandsvinur

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

.

Kennedy er Íslandsvinur

VanityFairGreen2008Aðferðir Íslands við orkunýtingu eru eitt aðalmálið hjá Robert Kennedy Junior. Ég var að fara í flug í dag. Og á Kastrup var ég svo ljónheppinn að reka augun í nýjasta Vanity Fair. Sem reyndist vera „the annual green issue 2008“. Reyndar var forsíðan ekki alveg jafn „græn“ og stundum áður. En Madonna klikkar auðvitað ekki. Svo blaðið var keypt og lesið í vélinni á leið yfir Atlantshafið. Auðvitað út af greinunum en ekki forsíðumyndinni.

Og sem sagt; þarna skrifar Robert Kennedy um nauðsyn þess að næsti forseti Bandaríkjanna taki til hendinni og komi á skynsamlegri orkustefnu.

Í reynd endurómar greinin ábendingar Boone Pickens um að stór hluti Bandaríkjanna henti mjög vel fyrir stórfellda virkjun vind- og sólarorku. Og þeir Bobby og Boone eru einnig sammála um mikilvægi þess að Bandaríkin verði minna háð orku erlendis frá, en nú er.

RobertKennedysÉg hef alltaf verið svolítið veikur fyrir Kennedyunum. Svalir töffarar. Minnist Jack Jr. sem reri á kajak um Hornstrandir. Þannig að mér hlýnaði við að sjá Robert Jr. fara fögrum orðum, í grein sinni, um orkunýtingu Íslendinga. Samt kannski ekki hárnákvæmt hjá honum að segja Ísland vera „100% energy independent“. Við þurfum jú smáræði af innfluttri olíu og bensíni fyrir t.d. bíla- og skipaflotann. En líklega á Kennedy við húshitun. Sem reyndar er heldur ekki alveg nákvæmt, því olíukynding þekkist jú sumstaðar ennþá hér á landinu bláa. (Myndin hér til hliðar er af Robert Jr. með Bobby pabba)

Robert Kennedy Jr. er lögfræðingur að mennt og hefur helgað sig umhverfisvernd og baráttu gegn kolefnislosun. En það getur verið erfitt að sameina það að vera harður baráttumaður fyrir bættu umhverfi og þekktur fyrirlesari. T.d. hefur kallinn verið gagnrýndur fyrir að þeytast milli fyrirlestra á einkaþotu. Alltaf einhverjir sem þurfa að vera með leiðindi.

KennedyWind

KennedyWind

Og þó svo hann sé harður stuðningsmaður vindorku, þýðir það ekki endilega að hann vilji turna með vindtúrbínum „in his back yard“, ef svo má segja. Kennedy hefur t.d. skrifað gegn stóru vindorkuveri sem stóð til að reisa út af Þorskhöfða; Cape Cod. Rök Kennedy gegn verkefninu eru m.a. stórfelld skerðing á útsýni frá Martha's Vineyard og mikið fugladráp sem risastórir spaðarnir gætu valdið.

Og Ted frændi hefur einnig barist með kjafti og klóm gegn þessu vindorkuveri í öldungadeild Bandaríkjaþings. Hann á reyndar líka glæsivillu á Cape Cod. Já – það er stundum vandlifað. Og enn er óvíst hver verða örlög þessa metnaðarfulla vindorkuvers.

Fleira áhugavert: