Í lok síðasta árs var í Bændablaðinu greint frá áformum um upp byggingu á Orkugarði Austurlands. Í verkefninu felst áætlun um umhverfisvæna vetnisframleiðslu í Reyðarfirði til frekari framleiðslu á rafeldsneyti með rafgreiningu, til dæmis ammóníaki. Hliðarverkefni af þeirri framleiðslu væri að reisa þar umhverfisvæna áburðarverksmiðju. Ein af forsendum þess að verkefnið geti orðið að veruleika er að reistur verði vindorkugarður í Fljótsdal. Danskt fjárfestingafyrirtæki stendur á bak við verkefnið og á nú í viðræðum við landeigendur og sveitarfélög á svæðinu um framgang þess.
Varmi sem verður til við framleiðsluna í orkugarðinum mun nýtast fyrir hitaveitu í Fjarðabyggð sem er á köldu svæði, auk þess sem hann nýtist fyrir fiskeldi á landi.
Þegar greint var frá áformunum í byrjun árs var verkefnið enn í hagkvæmnisathugun, en nú má segja að það sé komið á góðan rekspöl. Mikilvægur liður í því að áformin með verkefninu nái fram að ganga, er að reistur verði vindmyllugarður í Fljótsdalshreppi sem muni sjá orkugarðinum fyrir nægu vistvænu rafmagni. Gert er ráð fyrir að byrjað verði að reisa orkugarðinn á árinu 2028.
Verkefnið fellur vel að áformum um orkuskipti
Það er danska fjárfestingafélagið Copenhagen Infrastucture Partners (CIP) sem stendur á bak við verkefnið um Orkugarð Austurlands og tengiliður félagsins á Íslandi er Magnús Bjarnason hjá MAR Advisor. „Það er opinber stefna stjórnvalda að fara í orkuskipti í samgöngum á næstu árum. Verkefnið um Orkugarð Austurlands fellur vel að þeim áformum og er hugsað til langs tíma inn í framtíðina. Grunnplanið er óbreytt frá því þegar verkefnið var á því stigi að vera einungis hagkvæmnisathugun. Ætlunin er að umbreyta endurnýjanlegri orku í ammóníak, sem verður nýtt sem rafeldsneyti á skip,“ segir Magnús.
Skipaflotinn notar um 26 prósent af allri olíunotkun á Íslandi, samkvæmt gögnum á vefnum orkuskipti.is.
Viljayfirlýsing um vindmyllugarð
„Mál hafa, á þessu tæpa ári, þróast eins og við vonuðumst eftir. Við höfum á þeim tíma undirritað viljayfirlýsingu við Fljótsdalshrepp um uppbyggingu á vindmyllugarði í sveitarfélaginu, en áður var búið að mynda samstarfsgrundvöll með Fjarðabyggð. Síldarvinnslan og Atmonia, sem er nýsköpunar fyrirtæki á sviði vistvænnar áburðar framleiðslu, eru einnig aðilar að samstarfinu,“ útskýrir Magnús.
Þannig eru að hans sögn flestar forsendur fyrir orkugarðinum fyrir hendi í dag. Aðeins ein mikilvæg breyta í stóra samhenginu sé enn ófrágengin, sem er vindmyllugarðurinn.
Ekki er ljóst hvaða lög og reglur muni gilda um umgjörð og rekstur slíkra orkuvera í framtíðinni. Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis, orku og loftslagsráðherra skipaði í sumar starfshóp sem vinnur nú að tillögum um nýtingu vindorku og metur hvort setja þurfi sérlög um raforkuframleiðslu með vindmyllum. Starfshópinn skipa þau Hilmar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður, Björt Ólafsdóttir, fyrrverandi alþingismaður og umhverfisráðherra, og Kolbeinn Óttarsson Proppé, fyrrverandi alþingismaður. Hilmar er formaður starfshópsins, en gert er ráð fyrir að niðurstöðum verði skilað fyrir 1. febrúar á næsta ári.
Orkuskiptin standa og falla með meiri orkuöflun
Þegar Magnús er spurður hvort verkefnið um orkugarðinn standi og falli með vindmyllugarðinum, segir hann að almennt megi segja að fyrirætlanir stjórnvalda um orkuskipti í samgöngum standi og falli með því að hægt sé að afla meiri umhverfisvænnar orku. „Það gildir það sama um þetta verkefni. Ef það verður tekin ákvörðun um að það verði ekki framleidd meiri orka, þá er um leið tekin ákvörðun um að hætta við orkuskiptin – nema vistvænt eldsneyti verði innflutt. Í framtíðinni munum við nota vistvænt eldsneyti, eins og ammóníak, og þá þarf að ákveða hvort það eigi að framleiða það hér eða flytja það inn. Okkar áætlanir ganga út á að kosið verði að nota innlenda framleiðslu. Ammóníakið verði þá notað annars vegar sem eldsneyti á skip, en hins vegar til að umbreyta í áburð. Aukaafurðir verða svo varmi og súrefni, sem munu nýtast til húshitunar og til fiskeldis á landi.
Þessi málefni um orkuskipti eru svo stór í öllum skilningi, bæði hér heima og í alþjóðlegum skilningi að mér finnst stundum eins og fólk eigi erfitt með að ná utan um þau. Alþjóðlega skipta þau auðvitað sköpum um framtíð jarðarinnar og íbúa hennar, en hér heima er ljóst að verkefni tengd orkuskiptum verða stærstu fjárfestingaverkefnin hér á landi á næstu árum.“
Vindorkugarðurinn er 50 milljarða króna fjárfesting
Vindmyllugarðsverkefnið er eitt og sér talið vera um 50 milljarða króna fjárfesting. Gert er ráð fyrir að reistar verði 58 vindmyllur sem muni duga fyrir um 350 megavöttum í uppsettu afli, sem muni svo skila þeim 240 megavöttum niður í Reyðarfjörð sem Orkugarður Austurlands þarf fyrir framleiðslu sína. Þegar þeirri orku hefur verið umbreytt í ammóníak, jafngildir það um helmingi af eldsneytisþörf íslenska flotans. Magnús gerir ráð fyrir að orkugarðurinn þurfi einnig að kaupa viðbótarrafmagn úr íslenska raforkukerfinu.
„Áburðarframleiðslan er einnig mjög áhugavert hliðarverkefni sem fellur mjög vel að hugmyndum um sjálfbæra áburðargjafa sem nú er mikið talað um að þörf sé fyrir, vegna óvissuástands á heimsmörkuðum með aðföng til bænda,“ segir hann.
Að sögn Magnúsar er verkefnið fullfjármagnað af CIP, sem sé stærsti fjármögnunarsjóður fyrir slík verkefni í heiminum. „Sjóður á vegum CIP hefur nýlega lokið fjármögnun fyrir átta verkefni að meðtöldum Orkugarði Austurlands, með um 3,2 milljörðum evra til ráðstöfunar. Eitt af þessum verkefnum er systurverkefni í Noregi, sem er mjög mikilvægt orkugarðinum enda mikil hagkvæmni fólgin í því að þróa svona sams konar verkefni samhliða.“
Þrjú svæði í Fljótsdalshreppi til skoðunar
Að sögn Magnúsar eru þrjú svæði í Fljótsdalnum til skoðunar undir vindmyllugarðinn.
Alls eigi um 20 landeigendur land á þessum svæðum og eigi CIP í viðræðum við 14 þeirra.
„Við höfum líka haldið íbúafundi þarna undanfarið ár og fjölmargir landeigendur hafa þegar lýst yfir áhuga sínum með að vinna með okkur að þróun vindorkugarðs á þessu svæði. Nýleg vettvangsferð sveitarstjórnarmanna og landeigenda til Spánar, til að heimsækja vindorkugarð sem CIP hafði þar reist, er afrakstur þeirra funda.“
Vettvangsferð sveitarfélagsins og landeigenda til Spánar
Helgi Gíslason, sveitarstjóri í Fljótsdalshreppi, segir að Spánarheimsóknin hafi verið mjög fróðleg.
„Við höfðum áður skrifað undir viljayfirlýsingu við danska félagið, en í því felst að sveitarfélagið skoðar verkefnið með opnum huga og á jákvæðan hátt. Í henni felst hins vegar engin skuldbinding eða að sveitarfélag taki á sig einhverjar ábyrgðir vegna verkefnisins. Mér telst til að það séu 1214 landeigendur opnir fyrir því að skoða þetta líka. Ferðin var farin til að auðvelda til dæmis landeigendum að taka upplýsta ákvörðun og hjálpa okkur öllum að skilja og upplifa raunverulegan vindorkugarð. Þetta fyrirbrigði er auðvitað alveg óþekkt á Íslandi.“
Skipulagsvaldið hjá sveitarfélaginu
„Aðkoma sveitarfélagsins er fyrst og fremst að leiða saman aðila verkefnisins og opna fyrir samtalið, en auðvitað höfum við líka skipulagsvaldið. Þetta verkefni verður örugglega umhverfismatsskylt og þar mun sveitarfélagið koma að málum. Þá fylgjumst við með niðurstöðum starfshópsins sem vinnur að tillögum um lagaumhverfið varðandi nýtingu á vindorku,“ segir Helgi.
Hann bendir á að sveitarfélagið hafi sent greinargerð til starfshópsins, þar sem áhuga er lýst á því að Fljótsdalshreppur verði virkur þátttakandi í samráði við starfshópinn, önnur sveitarfélög og samtök þeirra við undirbúning löggjafar sem ætlað er að setja um nýtingu vindorku til raforkuframleiðslu. Þar segir að vegna „samstarfs sem hafið er við CIP við skoðun á uppbyggingu vindorkuvers og vegna fyrri reynslu af uppbyggingu raforkumannvirkja í sveitarfélaginu [Kárahnjúkavirkjunar] og þeirra innviða sem sú uppbygging skapaði, getur það haft ýmislegt fram að færa í þessum efnum.“
Mikil reynsla í stórum orkumálum
Helgi segir að í greinargerðinni komi fram ýmis sjónarmið sveitarfélagsins varðandi skipulagsmál, en einnig sé velt upp ýmsum möguleikum varðandi skatta og gjöld af slíku orkuveri. „Þótt okkar sveitarfélag sé ekki stórt í mannfjölda þá er það með mikla og góða reynslu í stórum orkumálum,“ segir Helgi. „Þetta er mikil framkvæmd og byggingar hafa rask í för með sér, en hönnun og útfærslur hafa veruleg áhrif á hvort og hve mikil umhverfisáhrif verða af þessu. Í þessu samhengi er skemmtilegt að greina frá því að í heimsókninni á Spáni var rætt við Spánverja um hvort ekki væri sjónmengun af vindmyllunum þar. Þeir skildu okkur ekki, því þeir hafa lengi verið með vindmyllur og líklega má segja að þeir líti á þær eins og við lítum á síma og ljósastaurana okkar. Þetta er auðvitað mjög áhugavert fjárfestingaverkefni fyrir okkar sveitarfélag – gríðarlega stór fjárfesting og talið er að það skapist um 20 heilsársstörf við rekstur á vindmyllugarðinum.“
Ganga samstíga til samninga sem ein heild
Óformleg samtök landeigenda starfa í Fljótsdal, sem taka þátt í viðræðunum við danska fjár festingafélagið CIP um kaup á löndum þeirra undir fyrir hugaðan vindmyllugarð.
Gísli Örn Guðmundsson er landeigandi á Þorgerðarstöðum í Suðurdal. Hann segir að hefðbundinn sauðfjárbúskapur hafi verið þar lengst af en lagðist af um 1980. Frá árinu 1990 hefur verið stunduð skógrækt á 200 hektara svæði samkvæmt samningi við Skógræktina.
Hann segir að hin óformlegu samtök samanstandi af 13 landeigendum úr Fljótsdal, sem hafa tekið þátt í viðræðunum á þessu stigi og svo séu einhverjir fleiri sem fylgist með framvindu og gætu komið inn á seinni stigum. Þessir 13 aðilar tengist tíu mismunandi jörðum í sveitinni.
Spánarferðin dró ekki úr áhuganum
Að sögn Gísla fóru 11 manns í ferðina sem fulltrúar sex jarða. „Ferðin heppnaðist vel og voru menn sammála um að gott hefði verið að upplifa það að koma í vindorkugarð til að gera sér betur grein fyrir hvernig þessi mannvirki líta út og hvernig er að vera í kring um slík mannvirki.
Ferðin varð ekki til þess að draga úr áhuga landeigenda til að halda samningum áfram. Íbúafundir voru haldnir á vegum sveitarstjórnar og CIP í vor. Þeir landeigendur sem hafa lýst sig reiðubúna til viðræðna við félagið eru samstíga um að ganga til samninga sem ein heild og hafa átt gott samstarf sín á milli.
Engin álitaefni þeirra sem eru í samningsferlinu
Þegar Gísli er spurður hvort einhver álitaefni séu uppi í samtökunum segir hann engin slík hafa komið upp sem snúi að þeim landeigendum sem eru þátttakendur í samningsferlinu. Hann geti ekki tjáð sig um sjónarmið þeirra sem ekki eru á þeirri vegferð. Íbúafundur verður haldinn í Fljótsdal 22. nóvember þar sem farið verður yfir stöðu mála.
Gísli segir að CIP sækist fyrst og fremst eftir því að gera athuganir á svæðum í yfir 500 metra hæð. Þeir landeigendur sem eru í viðræðum eigi jarðir í Suðurdal og eins vestan megin í Fljótsdal upp á Fljótsdalsheiði.