Japan – Öryggismál, nágrannar
Grein/Linkur: Öryggismál: Erfiðir nágrannar Japana
Höfundur: Sigurður Már Jónsson
.
.
Öryggismál: Erfiðir nágrannar Japana
Japanir eru að reyna að sætta sig við þá hugsun að þeir verði að taka meiri ábyrgð á eigin vörnum. Eins og vikið var að hér í pistli fyrir stuttu þá er það krafa hins lýðræðissinnaða heims að öxulveldin gömlu, Þýskaland og Japan, auki verulega framlög sín til varnarmála. Fyrir báðar þjóðir er það erfitt enda eru þær enn að vinna úr skömm seinni heimsstyrjaldarinnar. Bæði samfélögin hafa vanist því að vera undir verndarvæng Bandaríkjamanna sem nú kalla eftir aukinni ábyrgð þeirra.
Japanir eru ekki öfundsverðir af nágrönum sínum í Norður-Kóreu, Kína og Rússlandi. Norður-Kórea, sem sumir kalla land „stráksins með sprengjuna“, er í raun fullkomlega ófyrirsjáanleg. Í lok janúar skutu Norður-Kóreumenn langdrægri eða meðaldrægri skotflaug sem var sú öflugasta sem landið hafði skotið á loft í nokkur ár. Um var að ræða sjöundu skotflaugatilraunina það sem af var árinu en fyrri flaugar í janúar voru skammdrægar. Þarna var um að ræða nýtt met í þessari umdeildu tilraunastarfsemi. Sérfræðingar telja að flaug þessi hafi næga drægni til að ná til alls landssvæðis Japans. Henni var þó ekki beint inn í efnahagslögsögu Japans. Fyrir tæpri viku skutu þeir á loft eldflaug sem hefur verið bönnuð og það í fyrsta sinn síðan árið 2017 sem þeir skjóta slíkri flaug. Japanskir embættismenn töldu að eldflaugin hafi flogið 1.100 kílómetra áður en hún féll í Japanshaf eftir að hafa flogið í meira en klukkustund.
Breytt stefna í Norður-Kóreu?
Eftirtektarvert þykir að Norður-Kórea hafði ekki skotið langdrægum flaugum um nokkurn tíma þegar lætin byrjuðu í janúar og jafnvel gefið til kynna vilja til samningaviðræðna. Óttast er að þessi aukna athafnasemi með skotflaugar það sem af er ári, meðaldræga flaugar og bannaðar flaugar, séu vísbendingar um að Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, sé á ný að opna dyrnar á tilraunir með langdrægar flaugar sem geta borið kjarnaodda. Fyrstu flaug slíkrar gerðar var skotið á loft árið 2017 og hefur ekki verið endurtekið síðan. Þeirri flaug var skotið yfir Japan. Tilraunirnar árið 2017 urðu meðal annars til þess að Donald Trump, þáverandi forseti Bandaríkjanna, hótaði Norður-Kóreu eld og brennisteini („fire and fury“) héldi landið áfram á sömu braut. Taki Norður-Kórea upp slíkar æfingar á ný með langdrægar flaugar hefðu þær drægni til stærsta hluta Bandaríkjanna. Komi til þess kallar það án vafa á sterk viðbrögð frá Bandaríkjunum.
Reyndar kynnti Kim Jong-un í janúar fyrir ári síðan fimm ára kjarnavopnaáætlun. Samkvæmt henni er ætlunin að stækka kjarnavopnaforðabúr landsins með smærri taktískum kjarnaoddum auk kjarnaodda í „ofurstærð“. Samkvæmt áætluninni er markmiðið að byggja upp árásargetu sem meðal annars gerir ráð fyrir að hægt væri að ráðast á skotmörk í allt að 15.000 km fjarlægð. Það þýðir að þær nái til Washington, heimkynna Bandaríkjaforseta.
Jafnvægislist í samskiptum við Kína
Samhliða því að eiga við strákinn í Norður-Kóreu þurfa Japanir að stunda mikla jafnvægislist í samskiptum við Kína. Fulltrúadeild japanska þingsins, Diet, neðri deildin, samþykkti ekki fyrir löngu ályktun þar sem lýst er yfir áhyggjum um stöðu mannréttinda Úígúra (Uyghur) múslima í Kína. Í meðförum þingsins var orðalag tillögunnar útvatnað nokkuð sem endurspeglar þá jafnvægislist sem Japan hefur leitast við að stunda í samskiptum sínum við Kína. Þannig er talað um mannréttindaástand en ekki mannréttindabrot, því síður minnst á þjóðernishreinsanir eða glæpi gegn mannkyni. Kína er heldur ekki nefnt á nafn í ályktuninni heldur er tekið fram að hún tengist ekki innanríkismálum neins ríkis.
Engu að síður er sú staðreynd að ályktunin var samþykkt skömmu fyrir vetrarólympíuleikanna og á sama ári og löndin tvö fagna 50 ára afmæli stjórnmálasambands þeirra, vísbending um að hér væri stórt skref stigið af hálfu Japana. Þeir hafa löngum forðast að taka opinbera afstöðu til ástands mannréttinda í öðrum löndum en japanskir ráðamenn og stjórnmálamenn hafa þó síðustu misseri látið meira í sér heyra, ekki síst síðan kínversk stjórnvöld fóru að þrengja að Hong Kong. Auk þess má nefna að Fumio Kishida forsætisráðherra skipaði sérstakan ráðgjafa í mannréttindum við embætti sitt þegar hann tók við völdum.
Í síðasta mánuði tilkynnti ríkisstjórnin að eingöngu embættismenn sem hefðu með ólympíuleikana að gera yrðu viðstaddir vetrarleikana í Kína en engir ráðherrar úr ríkisstjórninni fóru. Var það í samræmi við ákvörðun Bandaríkjanna og annarra vestrænna ríkja.
Aukin spenna í samskiptum við Rússa
Fumio Kishida forsætisráðherra Japans og Joe Biden Bandaríkjaforseti funduðu í gegnum netið í upphafi innrásar Rússa inn í Úkraínu. Á fundinum hét Kishida því að vinna náið með Bandaríkjunum og öðrum bandalagsríkjum vegna þeirrar ógnar sem steðjaði að Úkraínu auk þess að eiga samráð um viðbrögð vegna mögulegrar innrásar.
Á blaðamannafundi í kjölfarið gagnrýndi Mikhail Galuzin, sendiherra Rússlands í Tókýó, Kishida fyrir þetta og varaði japönsk stjórnvöld við því að taka þátt í viðskiptaþvingunum vestrænna ríkja sem beint væri gegn Rússlandi vegna Úkraínu. Ítrekaði hann afstöðu Rússlands varðandi stækkun Nató til austurs og sagði að viðskiptaþvinganir myndu skaða samskipti landanna.
Þessum orðum er beint að áratugalangri deilu um yfirráð yfir fjórum syðstu eyjum Kuril-eyjaklasans (allt í allt eru þær á sjötta tug) norður af Japan. Sovétríkin hernámu eyjarnar í lok seinni heimstyrjaldarinnar en Japanir hafa ekki gefið eftir kröfu sína til að endurheimta hluta þeirra. Óumdeilt er að allar hinar eyjar Kuril-klasans tilheyra Rússlandi. Þrátt fyrir ýmsar tilraunir til að leysa þessa deilu í gegnum árin hefur það ekki tekist. Þetta hefur valdið því að Japan og Rússland hafa ekki enn getað undirritað friðarsamning eftir að síðari heimstyrjöldinni lauk og hefur í gegnum tíðina verið einn helsti ásteytingarsteinninn í samskiptum ríkjanna.
Hinn nýi sendiherra Bandaríkjanna í Japan, Emanuel Rahm, tísti í kjölfar blaðamannafundar hins rússneska starfsbróður og kvað um misheppnaða tilraun til að hræða Japani. Tímasetningin væri afar óheppileg í ljósi þess að á mánudag á eftir var dagur norðurhéraðanna í Japan en hann snýst um eyjarnar fjórar. Ítrekaði hann jafnframt að reglur og gagnkvæm virðing yrði að ríkja og að Bandaríkin stæðu með forsætisráðherranum og Japan og þeim sameiginlegu gildum sem löndin stæðu fyrir.
Sá rússneski stóðst ekki mátið og lauk þessum tístskylmingum með því að Galuzin sagði tímasetningu blaðamannafundarins hárrétta. Fyrir þá sem ekki vissu það vildi hann upplýsa að Rússar viðurkenndu ekki ólögmætar landakröfur yfir suður Kuril-eyjum (eins og Rússar kalla þær), hvað þá heldur einhver hátíðarhöld sem snérust um þær.
Menn voru farnir að ræða breyttar áherslur í öryggismálum Japana áður en þau atriði sem hér hafa verið rakin fóru að verða áberandi. Það gæti truflað fleiri en Japani ef landið fer að hervæðast á ný, margir nágranar þeirra urðu að þola skelfilega hluti af hálfu japanska hersins í heimsstyrjöldinni síðari. En nú er langt um liðið og sannarlega eru miklar breytingar í heimsmálunum núna.