Orkulindir – Hvar eru þær?

Grein/Linkur:  Hvar eru orkulindir?

Höfundur: Þorsteinn Vilhjálmsson

Heimild: 

.

Nesjavallavirkjun

.

Apríl 2004

Hvar eru orkulindir?

Orkulindir eru afar margvíslegar og sem betur fer líka mjög víða í kringum okkur. Þær orkulindir sem við Íslendingar þekkjum best eru vatnsorkan og jarðhitinn.

Segja má að vatnsorku sé að finna alls staðar þar sem vatn fellur fram af steini. Hún er þó fyrst og fremst hagnýtt eða virkjuð þar sem mikið vatn fellur um verulegan hæðarmun á tiltölulega litlu svæði, eins og til dæmis í fossum og flúðum.

Jarðhitinn er hins vegar fyrst og fremst á svokölluðum jarðhitasvæðum. Greint er á milli lághitasvæða og háhitasvæða sem svo eru kölluð. Á lághitasvæðum er hiti vatnsins yfirleitt innan við suðumark, oft á bilinu 70-90 stig, en á háhitasvæðum getur hann verið miklu meiri, jafnvel yfir 200 stig.

Jarðhitasvæði landsins eru yfirleitt á svokölluðu gosbelti sem liggur þvert yfir landið frá suðvestri til norðausturs. Vestfirðir og Austfirðir eru utan gosbeltisins og þar er lítið um jarðhita.

Í Nesjavallavirkjun er jarðhiti notaður til að framleiða rafmagn

Háhitasvæðin á Íslandi eru yfirleitt tengd eldstöðvum og eldvirkni eins og til dæmis í Henglinum við Reykjavík, kringum Trölladyngju á Reykjanesskaga, við Svartsengi, við Þeistareyki í Þingeyjarsýslu og kringum Torfajökul í grennd við Landmannalaugar.

Upphaflega hitaveitan í Reykjavík fékk vatn frá Reykjum í Mosfellsbæ en þar er lághitasvæði. Í sumum sveitum landsins, til dæmis í Árnessýslu, má finna jarðhita af því tagi næstum því á hverjum bæ.

Nú á dögum eru mikilvægustu orkulindirnar erlendis þar sem olíu er að finna í jörð. Ódýrasta olían er líklega kringum Persaflóann en einnig er mikla olíu að finna til dæmis í Venesúela í Suður-Ameríku, í Bandaríkjunum, við Svartahafið og svo framvegis. Á síðustu áratugum hafa menn einnig farið að nýta arðbærar olíulindir við strendur Noregs og víðar í Norðursjó.

Kolanámur eru líka orkulindir og þær er að finna víða um heim. Úr kolum má meðal annars vinna gas sem síðan má nota með ýmsum hætti.

Kjarnorka er framleidd úr þungum frumefnum eins og úrani en þá þarf afar lítið efni til að framleiða mikla orku. En engu að síður getum við talað um orkulindir sem væru þá námurnar þar sem úranið er grafið úr jörð.

Menn horfa nú mjög til þess að sólarorka verði með einhverjum hætti orkulind framtíðarinnar. Sólin skín auðvitað á alla jörðina en er samt misjafnlega sterk af því að hún getur verið mjög hátt á lofti í löndum kringum miðbaug en nær heimskautunum eins og hér hjá okkur fer hún aldrei mjög hátt upp fyrir sjóndeildarhring. Þess vegna verður líklega hagkvæmast að nýta sólarorku í „heitu löndunum“; orkulindin sólarorka er fyrst og fremst þar.

.

Mynd:

  • Wikipedia.is – Nesjavallavirkjun. Sótt 6.4.2011.

Fleira áhugavert: