Stilling lagnakerfa – Hátt lét í loftræstikerfinu

Heimild:  

.

Febrúar 1995

Tónleikar á Kjarvalsstöðum

Það á að vera einfalt að komast að því, hvað er að á Kjarvalsstöðum. Er loftræstikerfið vanstillt eða er því ranglega beitt?

Einn af okkar fremstu fiðluleikurum hélt tónleika á Kjarvalsstöðum og flutti verk eftir fjögur íslensk tónskáld, látna og lifandi. Það er of seint að njóta þessara „myrku músikdaga“ en ekki úr vegi að lesa hvað tónlistargagnrýnandi Morgunblaðsins hefur um tónleikana að segja.

Eins og við var að búast voru þetta glæsilegir tónleikar og flestum til sóma. Örugglega flytjanda og höfundum til sóma, en hvers vegna þá að segja „flestum“

Einfaldlega vegna þess að aðilar, sem voru kannske víðs fjarri, léku þarna hlutverk, sem er þeim til skammar.

„Í umsögn gagnrýnandans stendur , meðal annars, þetta; tónmál verksins er einfalt og skýrt en nokkuð truflaði það frábæran ftutning Rutar, að hátt lét í loftræstikerfi Kjarvalsstaða, sem þarna lék of stórt hlutverk til óþæginda fyrir hlustendur. Í raun eru Kjarvalsstaðir óhæfir til tónleikahalds af þessum sökum, því loftfossandi niðurinn er svo sterkur, að hann felur fyrir hlustendum mikið af þeim fínlegri blæbrigðum tónlistar, sem mikilvægt er að skili sér til áheyrenda.“

Er of sterkt tekið til orða að segja að einhver eigi að skammast sín? Ef svo er, þá hver ?

Feimnismál íslenskra lagnamanna

Það er ekki langt síðan að íslenskir lagnamenn fóru að ræða það í sínum hópi, hvað betur mætti fara í þeirra verkum. Lengst af hefur hver bograð í sínu horni, sumir við teikniborð, aðrir við snittvél eða blikkpressu.

Sem betur fer er þetta mikið að breytast. Meiri og meiri þátttaka er að verða í fræðslufundum og endurmenntun; menn eru smátt og smátt að viðurkenna það, að þeir hafi ekki komið með alla visku heimsins út úr skóla á unga aldri, hvað svo sem skólinn heitir, iðnskóli, tækniskóli eða háskóli.

En mikið lifandis ósköp eiga íslenskir lagnamenn enn langt í land.

Svo er það þáttur hins opinbera. Það er til opinbert eftirlit, embætti byggingafulltrúa er til í hverju sveitarfélagi. En hvernig er þeirra eftirlit skipulagt. Það er eftirlit með því að pípulögn, hvort sem það er hitalögn eða neysluvatnslögn, haldi vatni með ákveðnum þrýstingi. En það er ekkert eftirlit með því hvort hiti komi á ofnana, hvort hitalögnin sé rétt stillt þannig að allir ofnar hitni og orkan nýtist sem best.

Sam er um loftræstikerfin, feimnismál íslenskar lagnamanna. Hefurðu setið á fundi í glæsilegum salarkynnum og hlustað á fróðlegan fyrirlestur? Skyndilega fer loftræstilerfið í gang og það heyrist ekki mannsins mál. Loftræstikerfin trufla víðar en á tónleikum á Kjarvalsstöðum.

Burt með draslið!

Þetta heyrist oft sagt um loftræstikerfi, vegna þess að þau vinna ekki eins og þau eiga að gera. En hvað er þá að?

Í flestum tilfellum eru þau níutíu og níu prósent í lagi. En það vantar þetta litla eina prósent. Og hvaða prósent er það?

Nákvæmlega sama prósentið og vantar á fjölmörg ofnakerfi; það vantar lokafrágang og stillingar.

Þar af leiðandi vinna kerfin aldrei eins og þau eiga að gera.

Þó getur verið önnur ástæða. Það getur verið loftræstikerfi hafi verið frágengið og stillt að fullu, en flest loftræstikerfi bjóða upp á mismunandi sterka vinnslu, allt eftir því sem er að gerast í sölum hússins. En þá þarf að vera til staðar leiðarvísir eða handbók, sem segir vörslumanni hússins hvernig eigi að beita því. Hún er sjaldnast til staðar. Þú kaupir ódýra kaffivél eða rjómaþeytara og færð heila bók með, sem segir þér hvernig eigi að nota gripinn.

En um loftræstikerfi í margra hæða byggingu er oft ekki staf að finna.

Það á að vera einfalt að komast að því hvað er að á Kjarvalsstöðum; er loftræstikerfið vanstillt eða er því ranglega beitt. En því miður eru Kjarvalsstaðir ekki eina húsið sem á við þennan „sjúkdóm“ að stríða. Þessi vandamál er að finna út um allt land.

Í leikskóla einum hafði starfsfólk árum saman verið óánægt með þungt loft í húsinu. Að lokum var fenginn fagmaður til að kanna hvort nokkuð væri til bóta. Eftir stutta athugun spurði hann hvers vegna loftræstingin væri ekki höfð í gangi.

„Hvaða loftræsting“ var spurt á móti.

Það vissi enginn um hana, hún hafði aldrei verið sett í gang.

Var þetta aldrei gert, gleymdist að stilla loftræstikerfið?

Loftið, sem streymir um þessa stokka, þarf að vera undir hörðum aga.

Fleira áhugavert: