Hönnun – Í viðjum vanans

Grein/Linkur:  Þarf nokkuð að teikna?

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild:  

.

.

Mars 1995

Þarf nokkuð að teikna?

Sigurður Grétar Guðmundsson 1934-2013

Hönnun á að spara fjármuni frekar en kalla á óþarfa eyðslu, segir Sigurður Grétar Guðmundsson. Hún þýðir í rauninni, að rétt sé staðið að úrlausnarefnunum.

Mikið lifandis skelfing eigum við Íslendingar langt í land með að kunna að meta undirbúning verka. Fáir þættir eru jafn vanmetnir og hönnun, áætlanir og undirbúningur hverju nafni sem hann nefnist. Tökum dæmi. Stór byggingaraðili, sem byggir margar íbúðir og selur, kaupir oft og tíðum hönnun og undirbúning eftir krónutölu. Ennþá furðulegra er að sá sem byggir sitt eigið hús gerir það sama.

Það er farið frá einum til annars og spurt; hvað kostar teikningin hjá þér? Afleiðingin verður oft sú að „teikningin“ er keypt þar sem hún er ódýrust, oft hjá einhverjum sem rissar hana upp við eldhúsborðið. Nú er það vissulega engin trygging fyrir góðri „teikningu“ að hún sé sem dýrust. Vandamálið liggur oft í því, að sá sem borgar brúsann, veit ekki hvað hann á að fara fram á, veit ekki hvað hann er að kaupa.

Hönnun er ekki bara teikning

Það er sama hvort um er að ræða húsbyggingu eða lögn í hús; það sem kemur fram á teikningu er afrakstur af nokkuð löngu ferli, eða ætti að vera það. Hönnun kemur ekki alltaf fram á teikningu, hún getur einnig komið fram skrifuð á blaði sem áætlun. Hönnun er undirbúningsvinna, sem á að spara fjármuni frekar en kalla á óþarfa eyðslu. Hönnun þýðir í raun, ef rétt er staðið að málum, að það er verið að leysa úrlausnarefnin og vandamálin fyrirfram.

Flestir virðast viðurkenna að einhverja teikningu þarf til að geta byggt hús. Flestir virðast einnig viðurkenna að einhverja teikningu þurfi að lagnakerfi í hús. En þá kemur spurningin; er farið eftir þessum teikningum?

Á undanförnum árum hafa byggingamenn, ekki síst lagnahönnuðir, orðið fastir í viðjum vanans. Það er byggð blokk eftir blokk og maður skyldi ætla að alltaf sé gerð ný og ný teikning að húsi og lögnum, ný og ný hönnun. Staðreyndin er allt önnur.

Flestar íbúðarblokkir, sem byggðar hafa verið á síðustu áratugum, eru eins. Grundvöllur þeirra flestra er ekki hönnun, heldur teikning. Hönnun felur nefnilega í sér, eða á að fela í sér, nýja hugsun. Ef litið er á þær lausnir, sem notaðar eru í þessum byggingum, eru þær ekkert annað en sama endurtekningin aftur og aftur. Sömu mistökin aftur og aftur. Allar lagnir múraðar á kaf, öll baðker innmúruð, lagnir settar á staði þar sem vitað er að þær munu í tímans rás rústa í sundur og valda miklum skaða.

Þetta er hinn napri sannleikur.

Ekki er hönnuðum einum um að kenna.

Það hafa allir tekið þátt í þessari vitleysu, húsbyggjendur, hönnuðir, byggingareftirlit, iðnaðarmenn, almenningur. Drifkraftur þessara mistaka er máttur vanans.

Það hafa fáir þorað að fara upp úr hjólfarinu. Svona hefur þetta verið gert í áratugi. Byggjandinn hugsar sem svo; ef bryddað er upp á nýjungum verða kaupendur hræddir, nýjungar kunna að lækka söluverð.

Hönnuðurinn fer ódýrustu leiðina, dregur upp sínar gömlu lausnir og klippir þær saman enn einu sinni, iðnaðarmaðurinn þegir sem fastast og telur sig sælan að hafa fengið verk sem er nákvæmlega eins og það síðasta; það sparar svo mikla áreynslu á litlu gráu sellurnar.

En hver er afstaða húsbyggjandans? Sé hann stórbyggjandi sem byggir og selur eru allar breytingar eitur í hans beinum. Sé hann einkahúsbyggjandi vill hann sem minnst vita af grófri vinnu eins og lögnum, múrarinn sér hvort sem er um að láta þær hverfa. Það er ekki fyrr en kemur að vali á hreinlætistækjum, blöndunartækjum og þessu sýnilega sem hann vaknar. Þá er þotið búð úr búð, að lokum komið með eitthvað sem er svo „sætt“ en á engan veginn við þá hefðbundnu stúta sem fyrirfinnast í votrýmum; baði, eldhúsi og þvottahúsi. Þá byrjar ballið. Brjóta, brjóta, brjóta! Þá virðist oft ekkert sparað til að geta komið fyrir „sætu“ tækjunum, sem valin voru. En ef allt hefði verið hannað í tíma og tækin valin í tíma hefði verið hægt, oft og tíðum, að spara mikla fjármuni, spara mikil óþægindi og tíma.

„Þarf nokkuð að teikna“ heyra lagnamenn oft hjá húsbyggjendum og húseigendum. Það er kannske ekki nema von; þetta heyrist stundum, því miður, hjá þeim sjálfum.

Það þarf mikla hugarfarsbreytingu hjá húsbyggjendum og lagnamönnum á mörgum sviðum.

Þeir þurfa að nenna að hugsa.

Fleira áhugavert: