Baðherbergi – Nýjar leiðir

Heimild:

.

Október 1995

Nýjar hugmyndir, nýtt bað

Erfiðast er að bylta fyrirkomulagi þegar breytingar standa fyrir dyrum, bæði húseigendum og ekki síður hönnuðum er tamt að hugsa hefðbundið t.d. þegar endurnýja þarf baðherbergi. Hér er bent hann á mögulegar nýjar leiðir í þessum efnum.

Stundum fer svo að mönnum fallast hendur áður en byrjað er á verki. Þetta á ekki síst við þegar ætlunin er að endurnýja eldra húsnæði.

Erfiðasti þröskuldurinn er að brjótast út úr hefðbundnum þankagangi. Þetta á ekki aðeins við um húseigendur; ekki síður um hönnuði og aðra fagmenn.

Veltum fyrir okkur endurnýjun á baðherbergi. Það er æði mikið farið að láta á sjá, lagnir og tæki komin af fótum fram. Það erfiðasta er að bylta formi og fyrirkomulagi. Flestir hugsa út frá því skipulagi sem fyrir er og ekki að ástæðulausu; verður salernið ekki að vera á sama stað, frárennslislögnin er jú þarna og hvað með baðkerið, það getur ekki verið annars staðar en þar sem það hefur alltaf verið?

Þýsk hugmynd

Á meginlandi Evrópu er talsvert mikið að gerast í lagnamálum, miklu meira en náð hefur augum og eyrum okkar hér á eylandinu, fjöldi fyrirtækja keppist við að koma með nýjar lausnir og vera feti framar en keppinauturinn.

Eitt þessara fyrirtækja er hið þýska Geberit. Það er eitt af þessum fyrirtækjum sem vinnur makvisst að því að koma með heildarlausnir.

Eitt það nýjasta hjá Geberit er innréttingakerfi sem gert er úr stálrömmum og einkum ætlað þeim sem vilja ekki aðeins endurnýja baðherbergið heldur jafnvel bylta því, færa til tæki, staðsetja salernið þar sem baðkerið var, setja upp sturtu og handlaugina á allt annan vegg en áður var.

Með stálrömmunum er hægt að byggja falska veggi, hálfveggi, grind sem heldur uppi baðkerinu og gerir það einfalt að fjarlægja það síðar og setja annað ker í staðinn ef þurfa þykir. Þannig er ekkert mál að búa til hálfvegg út í baðherbergið, sem gerir nýja uppstillingu á tækjum auðvelda, þannig gæti salernið verið staðsett öðru megin á hálfveggnum og handlaugin hinumegin.

Það er ekki alltaf nauðsynlegt að tækin séu sett á einhvern fjögurra veggja baðherbergisins og það þarf ekki alltaf að vera nauðsynlegt að baðkerið sé við vegg, það getur jafnvel verið á miðju gólfi.

Inn í rammakerfið koma allar leiðslur og í flestum tilfellum eru vatnslagnir úr plasti; rör-í-rör kerfið sem við hérlendis erum farin að ræða um en lítið meira.

Stálrammana er auðvelt að sníða að hvaða máli sem er og þeim fylgja sérhannaðar festingar, síðan má klæða þá með margvíslegum plötum sem að lokum er hægt að flísaleggja.

Fleira áhugavert: