Orkumál Pólland – Uppbygginarsj.EES 65 milljarðar

Heimild:  

.

April 2020

Forsetar og ráðherrar tóku þátt í kynningu á nýrri áætlun Uppbyggingarsjóðs EES um loftslags-, umhverfis- og orkumál í Póllandi

Ný áætlun Uppbyggingarsjóðs EES um endurnýjanlega orku, umhverfis- og loftslagsmál var kynnt á ráðstefnu í Varsjá í Póllandi 3. mars sl., með þátttöku forseta Póllands og Íslands, auk ráðherra frá Póllandi, Íslandi og Noregi. 

Þetta var í fyrsta sinn sem sett er af stað ein áætlun um loftslags-, umhverfis- og orkumál í Póllandi á vegum Uppbyggingarsjóðs EES, en unnið hefur verið að undirbúningi og skipulagi áætlunarinnar í nokkur ár á milli Póllands, Uppbyggingarsjóðsins í Brussel, Noregi og á Íslandi, sem Orkustofnun hefur annast fyrir hönd Íslands.

Stærsta framlag á sviði loftslags-, umhverfis og orkumála innan EES

Áætlunin er einnig sú allra stærsta er varðar loftslags-, umhverfis- og orkumál á vegum Uppbyggingarsjóðsins en 140 milljónum evra verður varið til áætlunarinnar og auk þess mun Pólland leggja til sömu upphæð í formi lána og styrkja og heildarfjármagn verður því 280 milljónir evra eða um 40 milljarðar króna. Umfang verkefnanna getur þó verið mun meira eða allt að 65 milljarðar króna þar sem styrkir Uppbyggingarsjóðsins eru einungis hluti af fjárhæð verkefna.

Gert er ráð fyrir að áætlunin minnki árlega koltvíoxíð, CO2, um 600.000 tonn sem nýtist öllum óháð landamærum. Til samanburðar má nefna að Ísland þarf næstu 10 ár að minnka losun á koltvíoxíði um eina milljón tonna fram til ársins 2030 eða um 100.000 tonn á ári. Árleg minnkun á losun koltvíoxíðs í þessu verkefni er því 6 falt meiri en fyrirhuguð minnkun á Íslandi. Verkefnið sýnir að Ísland getur í samstarfi við aðrar þjóðir Evrópu náð miklum árangri á sviði loftslagsmála á erlendum vettvangi, með faglegum verkefnum og markvissu samstarfi innan EES, sem nýtist öllum, þar sem loftmengun er óháð landamærum.

Í upphafi ráðstefnunnar fluttu fjórir ráðherrar erindi, en það voru frá vinstri á mynd: Waldemar Buda, aðstoðarráðherra þróunarsjóðs og byggðamála í Póllandi, Mathias Fischer, aðstoðarráðherra loftslags- og umhverfismála í Noregi, Lilja D. Alfreðsdóttir ráðherra mennta-, vísinda- og menningarmála á Íslandi og Adam Guibourgé-Czetwertyński, aðstoðarráðherra loftslagsmála í Póllandi. Í ávarpi þeirra kom fram áhersla á mikilvægi verkefnisins, ekki síst vegna áhrifa þess til að draga úr loftmengun og koltvíoxíði, CO2 í andrúmsloftinu, þar sem mengun væri mikil vegna notkunar kola. Verkefnið sýndi einnig mikilvægi og gildi EES samningsins með samvinnu landa innan hans.

Þekking og reynsla Íslands gagnast Póllandi

Lilja D. Alfreðsdóttir ráðherra lagði áherslu á reynslu Íslands þegar skipt var frá upphitun húsa með olíu yfir í jarðhita upp úr 1970. Þá tókst að minnka notkun olíu til upphitunar frá 50% í um 5% á stuttum tíma eða rúmum áratug. Þessi mikli árangur hefði náðst vegna umræðu og samstarfs á milli ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs. Ísland gæti því miðlað af langri reynslu og þekkingu á sviði jarðhita til Póllands.

Menntamálaráðherra sagði einnig að aukin nýting á jarðhita væri mikilvæg lausn í baráttunni við loftslagsvandann til að draga úr notkun kola til kyndingar, þar með losun gróðurhúsalofttegunda sem gagnast öllum löndum óháð landamærum. Á umliðnum árum hefðu 14 aðilar frá Póllandi einnig sótt nám í Jarðhitaskóla háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og margir af þeim væru nú leiðandi stjórnendur á þessu sviði í Póllandi. Þar færi fremst á meðal jafningja, Beata Kepinska sem hefði lagt mikið af mörkum til að efla samstaf Íslands og Póllands á sviði jarðvarma. Hún væri því eins konar sendiherra jarðhita í Póllandi. Lilja þakkaði síðan öllum þeim sem unnið hefðu að þessu verkefni í Póllandi, Noregi, hjá EES skrifstofunni í Brussel og á Íslandi.

Michał Kurtyka, ráðherra loftslagsmála í Póllandi

Michał Kurtyka, ráðherra loftslagsmála Í Póllandi fagnaði því að bæði forsetar Póllands, Andrzej Duda og Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, gætu verið viðstaddir kynningu á þessari áætlun. Hann sagði að samstarf á milli Póllands og Íslands, byggðist m.a. á uppbyggingu innviða í vatnsverndun og grænni orku, þar sem markmiðið væri að auka lífsgæði borgaranna, vernda umhverfi og bæta loftgæði, sem byggist á samvinnu.

Hann sagði einnig að þetta væri ekki venjuleg ráðstefna, heldur fundur til að vinna að nýjum hugmyndum til að vinna gegn sameiginlegum vandamálum sem við öll stöndum frammi fyrir, til hagsbóta fyrir samfélög og hagkerfi landa.

Ráðherrann nefndi mikilvægi verkefna Uppbyggingarsjóðsins og vildi þakka sérstaklega Íslandi, Noregi og Lichtenstein fyrir það mikilvæga framlag. Á næstunni yrðu svo boðin út 8 ný verkefni á sviði orku, umhverfis- og loftslagsmála.

Andrzej Dudaforseti Póllands

Í ávarpi sínu sagði forseti Póllands Andrzej Duda að það væri ánægjulegt að geta tekið þátt í kynningu á stærstu áætlun á vegum Uppbyggingarsjóðs EES í Póllandi og Evrópu, um loftslags-, umhverfis- og orkumál. Þetta verkefni væri svar við núverandi áskorun vegna mannlegra athafna og áhrifa á náttúru og vistkerfi. Verkefni sjóðsins væru einnig mikilvæg til að miðla upplýsingum, þekkingu og tækni til Póllands og umfram allt, þau auðvelda að koma á verðmætum tengslum, einnig persónulegum, en það er einmitt kjarni málsins í dag.

Forsetinn sagði einnig að Pólland viðurkenndi að fullu þörfina til að grípa til aðgerða, stundum brýnna, til að vernda náttúrulegt umhverfi, innanlands sem á alþjóðavettvangi. Þetta kæmi m.a. fram í því að Pólland er eina landið í heiminum sem hefur þrisvar verið gestgjafi að ráðstefnum Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar COP, (síðast árið 2018) og verið með formennsku í COP fjórum sinnum.

Þegar Pólland var með formennsku á COP24 í Katowice 2018, tókst Póllandi að semja um svokallaða Katowice reglur um framkvæmd Parísarsamkomulagsins. Um síðustu áramót var einnig loftslagsráðuneytið stofnað í nýstofnaðri ríkisstjórn Lýðveldisins Póllands sem starfar í tengslum við umhverfis-, loftslags- og orkumál.

Hann minnti á að barátta gegn loftslagsbreytingum væri verkefni sem alþjóðasamfélagið yrði að vinna saman að og í því sambandi er framlag okkar gesta hér með þekkingu, reynslu og samstarfi afar mikilvægt til að ná árangri.

Forsetinn nefndi að það væri sérstök ánægja að forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson skuli á þessum tíma heimsækja Pólland. Hann þakkaði Íslandi fyrir framlag sitt til EES-sjóðanna og það mikla samstarf sem hefði verið í mörg ár á sviði Uppbyggingarsjóðs EES og þetta einstaka tækifæri til að skiptast á þekkingu og reynslu. Forsetinn sagði að góð þátttaka á ráðstefnunni væri sönnun fyrir miklum áhuga á orku- og loftslagsbreytingaráætluninni hjá Uppbyggingarsjóði EES.

Andrzej Duda þakkaði einnig öllum aðilum sem tóku þátt í skipulagningu ráðstefnunnar. Frá Póllandi þakkaði hann Loftslagsráðuneytinu og ráðuneyti byggðamála og sjóða EES og ESB. Þá þakkaði hann ​​erlendum samstarfsaðilum frá Íslandi og Noregi fyrir farsæla samvinnu í sameiginlegum verkefnum þessarar áætlunar sem hleypt var af stokkunum í dag milli ráðuneyti loftslagsmála í Póllandi ásamt Landssjóði umhverfisverndar og vatnsstjórnunar, Umhverfisstofnunar Noregs, Vatns- og orkustofnunar Noregs og Orkustofnunar á Íslandi. Í lokin óskaði forsetinn öllum góðs gengis og hvatti alla til að nýta tækifærin sem áætlunin býður upp á og hrinda þeim í framkvæmd með frumkvæði og stuðningi sem stuðla að jákvæðum breytingum.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sagði það ánægju og heiður að taka þátt í þessari ráðstefnu. Hann minnti á að Ísland var numið fyrir meira en 1000 árum. Landnámsmenn og konur komu að ósnertri eyju af manna hálfu í miðju Norður-Atlantshafi. Við augum blöstu víðerni svartra sanda, kjarri vaxnar hlíðar, straumharðar ár og tignarlegir fossar, heitir hverir og lifandi eldfjöll. Þetta nýja umhverfi var sannarlega ólikt þeim heimahögum sem landnámsmenn höfðu yfirgefið og ógnvekjandi en það bauð líka upp á margvísleg ný tækifæri.

Um árið 1000 var tekin upp kristin trú á Íslandi. En sumt fólk vildi ekki að skírnin færi fram í köldu vatni heldur kaus það heitt hveravatn sem var víða að finna. Fólkið skildi ávinning og nýtingu jarðvarmans. Seinna skildi einn fremsti rithöfundur okkar á miðöldum, Snorri Sturluson, nýtingu og mikilvægi jarðhitans. Í Reykholti í Borgarfirði hafði hann heitan hver við hliðina á bænum. Þangað fór hann og lá í heitu vatninu og fékk innblástur og hugmyndir að sínum miklu ritverkum.

Náttúran var landsmönnum óblíður húsbóndi um aldir; kólnandi veðurfar, straumharðar ár sem torvelt var að komast yfir, endurtekin eldsumbrot sem lögðu einatt byggðarlög eða landshluta í eyði og harðir landskjálftar. En á síðustu öld tókst okkur að snúa aðstæðum okkur í vil. Okkur tókst að nýta það til heilla og hagsældar sem áður var ógn. Við beisluðum vatnsföll til að framleiða hreina orku. Við nýttum jarðhitann til að hita heimili okkar og einnig til að framleiða rafmagn. Í dag framleiðir Ísland nánast allt sitt rafmagn með vatnsafli og jarðhita. Það var afar stórt skref fram á við í mikilvægri og nauðsynlegri umbreytingu frá orkuframleiðslu með jarðefnaeldsneyti til grænnar orku. Einmitt á því sviði eru mikil tækifæri í samstarfi Póllands og Íslands – umbreyting í átt til grænnar orku.

Forsetinn sagði að það væri sérstök ánægja að samstarf á þessu sviði væri mögulegt innan Uppbyggingarsjóðs EES. Ísland stefnir að því að verða kolefnishlutlaust um 2040, 10 árum á undan Evrópusambandinu, og það mun takast. Pólland ætlar að verða kolefnishlutlaust 2050, en ef það á að takast þá er markvisst samstarf afar mikilvægt. Því er mikilvægt að hefja slíkt samstarf til hagsbóta fyrir umhverfið og fólkið.

Pólland hefur miklar auðlindir í jarðvarma þó þar séu ekki jarðskjálftar og eldgos eins og á Íslandi, en möguleikarnir á nýtingu jarðvarma er miklir, sérstaklega í suðurhluta landsins. Tækifærin eru því fyrir hendi, svo það er undir okkur komið, ykkur og okkur öllum að fara saman í rétta átt. Þessi ráðstefna og tækifærin á samstarfi sem hún opnar er prófraun á að nýta þessi tækifæri. Forsetinn sagði að lokum að það væri sér heiður og ánægja að sitja þessa ráðstefnu og að hann hlakkaði til að sjá árangurinn.

Á ráðstefnuna mættu einnig f.v. á mynd Olav Myklebust, sendiherra Noregs í Póllandi, Michal Kurtyka ráðherra loftslagsmála í Póllandi, Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, Andrzej Duda forseti Póllands, Mathias Fischer, aðstoðarráðherra loftslags- og umhverfismála í Noregi og Krzysztof Szczerski ráðgjafi forseta Póllands.  María Erla Marelsdóttir, sendiherra Íslands í Póllandi með aðsetur í Berlín, sat einnig hluta ráðstefnunnar og var í fylgd forseta, sem og Árni Sigurjónsson skrifstofustjóri hjá forsetaembættinu, Örnólfur Thorsson forsetaritari og Þórleifur Þór Jónsson verkefnisstjóri hjá Íslandsstofu sem einnig komu að undirbúningi ráðstefnunnar.

Áætlun um loftslags-, umhverfis og orkumál – helstu atriði verkefnisins

Piotr Bogusz, aðstoðarframkvæmdarstjóri Ecological Funds hjá ráðuneyti loftslagsmála, kynnti helstu atriði áætlunarinnar. Stuðningur samkvæmt áætluninni beinist að áherslum og verkefnum sem miða að því að bæta loftgæði og umhverfi, þróa hitaveitu- og raforkukerfi og bæta orkunýtni með endurnýjanlegri orku. Áhersla verður lögð á að auka framleiðslu með endurnýjanlegum orkugjöfum, s.s. jarðvarma og litlum vatnsaflsvirkjunum, og unnið verður að mótvægisaðgerðum vegna loftslagsbreytinga og verndun vistkerfa.

Áætlunin felur í sér stuðning á þremur meginsviðum:

· Endurnýjanleg orka, orkunýting, orkuöryggi

· Mótvægisaðgerðir og aðlögun vegna loftslagsbreytinga

· Verkefni er varða umhverfi og vistkerfi

· Einnig verður áhersla á tilraunaverkefni er varða hringhagkerfi  og notkun lífmassa í orkumálum.

Fjöldi útboða verður auglýstur

Piotr, sagði að fjöldi útboða á verkefnum yrði auglýstur á næstu mánuðum þar sem gefast góð tækifæri til samstarfs milli pólskra og íslenskra fyrirtækja. Aðeins pólsk fyrirtæki geta verið umsækjendur, en íslenskir samstarfsaðilar eru eftirsóttir og umsóknir með íslenskum samstarfsaðila fá aukastig við val á verkefnum. Heildarupphæð styrkveitinga í áætluninni er u.þ.b. 140 milljónir evra. Auk þess er möguleiki á viðbótarlánsfjármögnun frá Póllandi að sömu upphæð (140 milljónir evra).  Samtals verður heildarfjárhæð styrkja og lána  um 280 milljónir evra eða um 40 milljarðar króna.

Fyrstu átta útboð verkefna á sviði loftslags- og umhverfismála

Fyrstu átta útboð verkefna hafa þegar verið auglýst en þau varða sérstaklega loftslags- og umhverfismál, orkunýtni og hitaveitur. Auglýsing og útboð á öðrum verkefnum sem varða jarðvarma, hitaveitur og vatnsafl, verður kynnt um miðjan maí á fréttavef og facebook síðu Orkustofnunar.

Þau útboð verkefna sem þegar hafa verið auglýst skiptast eftir áherslum.

· Þrjú útboð varða verkefni um betri orkunýtingu og hagkvæmni í iðnaði (more efficient co-generation (CHP)), hitaveitukerfi sveitarfélaga og í skólabyggingum.

· Tvö útboð verkefna varða minni losun gróðurhúsalofttegunda og aðlögun að loftslagsbreytingum, þ.e. staðbundnar aðgerðir og vitundarvakning í skólum.

· Þrjú útboð verkefna varða loftslagsbreytingar og stjórnun vistkerfa, aðgerðir gegn framandi tegundum og kortlagningu og mat á vistkerfisþjónustu.

Síðar verða auglýst útboð á verkefnum er varðar litlar vatnsaflsvirkjanir, jarðvarma, hitaveitur o.fl.

Allar nauðsynlegar upplýsingar sem tengjast útboði þessara verkefna má finna á vef loftslagsráðuneytis Póllands hér. Skilafrestur umsókna vegna útboðanna núna er til 3. júní 2020 eða 17. júlí sem fer eftir einstökum útboðum, sjá nánar á áðurnefndum vef.

Marcin Jamiolkowski, frá National Fund í Póllandi, nefndi að sjóðurinn hefði langa reynslu og mikla þekkingu þar sem 700 starfsmenn störfuðu hjá sjóðnum. Aukinn stuðningur við jarðvarma og allt að 140 milljónir evra í formi styrkja og/eða lána verða veitt til áætlunarinnar frá National Fund í Póllandi, auk þeirra 140 milljóna evra sem kæmu frá EES styrkjaáætluninni. Samanlagt væri þetta því um 280 milljónir evra.

Uppbyggingarsjóður EES í Brussel

Árni Páll Árnason aðstoðarforstjóri hjá Uppbyggingarsjóði EES (FMO) í Brussel, sagði að starf sjóðsins væri m.a. að aðstoða lönd við uppsetningu og framkvæmd á verkefnum sem þessum á vegum sjóðsins.

Hann nefndi að samstarf í þessari áætlun hafi verið afar ánægjulegt og árangursríkt við starfsfólk í Póllandi, hjá Orkustofnun, Umhverfisstofnun Noregs og Orku- og vatnsstofnun Noregs.

Samstarfið hefði byggst á fagmennsku, heiðarleika og drífandi viðmóti og hann þakkaði sérstaklega ráðuneyti byggðamála og þróunarsjóðs, ráðuneyti loftslagsmála og þjóðarsjóði umhverfismála í Póllandi fyrir ánægjulegt og uppbyggilegt samstarf.

Árni sagði að það væri einnig ánægjulegt að sjá þetta umfangsmikla verkefni fara af stað. Verkefnið væri stórt á marga mælikvarða. Þannig er gert ráð fyrir að þetta eina verkefni muni minnki árlega losun á koltvíoxíði, CO2, um 600.000 tonn eða um 45% af öllum verkefnum Uppbyggingarsjóðs EES. Fjárfesting á vegum verkefnisins eru einnig umtalsverðar á sviði grænnar fjárfestingar, hringhagkerfis, orkunýtni, jarðvarma, hitaveitukerfa, endurreisn vistkerfa o.fl.

Reynsla Íslands og Noregs á sviði loftslags-, umhverfis- og orkumála

Í umræðum var einnig fjallað um reynslu og þekkingu Íslands og Noregs á sviði loftslags-, umhverfis og orkumála. Í umræðunum tóku þátt, f.v. (á mynd) stjórnandi umræðunnar Anna Butrym, frá Póllandi, André Kammerut verkefnastjóri tvíhliða samskipta hjá Umhverfisstofnun Noregs, Baldur Pétursson, verkefnastjóri alþjóðlegra verkefna hjá Orkustofnun og Björn Aule sviðsstjóri hjá Orku- og vatnsstofnun Noregs.

Í umræðum var rakið hvað mætti læra af reynslu landanna á ýmsum sviðum, sem gagnast myndi í þeirri áætlun sem sett var af stað í Póllandi. Þessi reynsla hefði nýst í samstarfi við Pólland og FMO í Brussel, við vinnslu og hönnun á þessari áætlun og þeim áherslum og verkefnum sem færu fljótlega í útboð. Með þátttöku og samstarfi fyrirtækja frá Íslandi og Noregi við fyrirtæki í Póllandi, myndi þessi reynsla skila sér í margvíslegri þekkingu, sérhæfingu og uppbyggingu verkefna í Póllandi. Í máli fulltrúa Noregs, kom fram að Noregur hefði áður aðstoðað við umhverfisverkefni í Póllandi sem hefðu tekist vel. Þetta væri hins vegar í fyrsta sinn sem Uppbyggingarsjóður EES væri með orkumál, en Noregur hefði mikla reynslu af rekstri vatnsorkuvera, smárra sem stórra, sem eflaust myndu nýtast vel í verkefnum í Póllandi.

Mikil tækifæri og áhugi á samstarfi á sviði jarðhita í Póllandi

Í máli Baldurs kom fram að Í Póllandi væri mikið af hitaveitudreifikerfum sem kynt væru með kolum, en einnig væri jarðhiti víða til staðar. Því væru mikil tækifæri og verkefni framundan í Póllandi að skipta yfir í hitun með jarðhita sem gæti minnkað mikið loftmengun og koltvíoxíð, CO2, sem nýtast myndi öllum löndum óháð landamærum í baráttu við loftslagsvandann. Slíkt myndi auka loftgæði, hagkvæmni, sparnað, orkuöryggi og bæta umhverfismál og lífsskilyrði. Efnahagslegur ávinningur Íslands af hitun húsa með jarðhita í stað olíu, er talinn vera árlega að meðaltali um 2,6% af landsframleiðslu og sparnaður í formi minni mengunar koltvíoxíðs CO2, rúm 3 milljónir tonna.

Hann benti einnig á að styrkir Uppbygginagarsjóðsins yrðu 140 milljónir evra, og National Fund í Póllandi myndi veita lán og styrki að upphæð 140 milljónum.  Samanlagt væri þetta því um 280 milljónir evra í styrki og lán.  Heildarupphæð verkefna yrði þó hærri eða allt að 65 milljarðar króna, þar sem lán og styrkir eru einungis hluti af upphæð verkefnanna.

Baldur sagði að Orkustofnun hefði unnið að aðstoð við svipuð verkefni Uppbyggingarsjóðs EES í öðrum löndum, eins og Rúmeníu, Portúgal (Asóreyjum) og Ungverjalandi með góðum árangri. Íslensk fyrirtæki hefðu síðan unnið verkefni á þessum svæðum í samstarfi við fyrirtæki og bæi í viðkomandi löndum.

Einnig hefur Orkustofnun unnið að og stýrt öðrum EES verkefnum á sviði jarðhita, í samstarfi við mörg lönd Evrópu s.s. með verkefninu ERA NET sem var um stefnumótun í jarðhitamálum í Evrópu og síðan Geothermica þar sem áherslan er á stór rannsóknarverkefni í jarðhita á milli Evrópulanda.

Þessi verkefni hafa skilað aukinni þekkingu, bættri stefnumörkun og aukinni áherslu og fjármagni á jarðhita innan EES samstarfsins og Evrópusambandsins. Orkustofnun hefur einnig á umliðnum árum og misserum unnið að greiningum og stefnumörkun á nokkrum löndum m.a. í Póllandi í samstarfi við fyrirtæki á Íslandi, bæi og borgir í Póllandi og umhverfisráðuneyti Póllands. Einnig hafi verið samstarf við norskar stofnanir í sumum þessara verkefna. Skýrslur af þessum verkefnum má sjá hér, í Poddebice og öðrum bæjum og borgum Póllands sem gagnast gæti fyrirtækjum við undirbúning verkefna í Póllandi. Einnig var haldinn ráðstefna á Íslandi í október 2019 með erindum frá fulltrúum bæja, borga og fyrirtækja frá Póllandi, sem gagnast gæti aðilum við undirbúning á samstarfi fyrirtækja á Íslandi og Póllandi. Frá Orkustofnun sótti einnig Harpa Þ. Pétursdóttir lögfræðingur fundinn.

Að loknum erindum og umræðu, tóku við stuttar kynningar fyrirtækja frá Noregi og Íslandi. Fulltrúar eftirfarandi fyrirtækja frá Íslandi voru á fundinum: Mannvit, EFLA, Verkís, Artic Green, Ýmir og Vatnaskil. Fleiri fyrirtæki hafa þegar hafið undirbúning að samstarfsverkefnum í Póllandi. Að loknum kynningum fyrirtækja funduðu þau með fulltrúum fyrirtækja, bæja og borga í Póllandi og ræddu um hugsanlegt samstarf þeirra á milli í tengslum við verkefni sem boðin verða út. Mikill áhugi kom fram hjá aðilum um samstarf á milli Íslands og Póllands og mikil tækifæri eru framundan á þessu sviði.

Þorleikur Jóhannesson, Verkís

Eiríkur Bragason, Arctic Green

Piotr Gburczyk, Ispol-Project, EFLA

Eric M. Myer, Vatnaskil

Þröstur Helgason, Mannvit

Sigurður Ingólfsson, Ýmir

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson og þátttakendur frá Íslandi á fundinum

Fjöldi fjölmiðla var á fundinum.

F.v. Beata Kepinska, frá MEERI PAS Póllandi, Gerard Pokruszynski, sendiherra Póllands á Íslandi og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands

Hluti af fundarmönnum í samningaviðræðum um samstarf eftir fundinn.

Fleira áhugavert: