Raforka – Uppseld en niðurgreidd
.
Nóvember 2019
Furðulegar hugmyndir um raforkuverð
Einkennilegt er að kallað sé eftir því að Landsvirkjun niðurgreiði stóriðju á sama tíma og raforka á Íslandi er svo gott sem uppseld.
Landsvirkjun hefur unnið að því á undanförnum árum að fá hærra verð fyrir raforkuna og draga úr tengingum raforkuverðs við sveiflur á álverði. Hlutfall raforku sem tengd er við verð á áli hefur lækkað úr tveimur þriðju og er nú hlutfallið ríflega þriðjungur. Þessi stefna beri þann árangur að fyrirtækið geti greitt 10-20 milljarða króna í arð til ríkisins á ári næstu árin. Einnig er stefnt að því að sérstakur þjóðarsjóður verði stofnaður, fyrst og fremst um arðgreiðslur Landsvirkjunar.
Nú heyrast raddir um að raforkuverðið sé svo hátt í nýlegum raforkusamningum að það ógni innlendum iðnaði. Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, hefur farið mikinn að undanförnu og gagnrýnt raforkuverð í nýjum samningum Landsvirkjunar við Norðurál og Elkem sem og raforkuverð í samningi Landsvirkjunar við Rio Tinto í Straumsvík árið 2010.
Hann segist óttast að störf hans félagsmanna hverfi vegna þessa. Við nánari skoðun stenst það þó varla. Verð í fyrri raforkusamningum var lágt og miðaði að því að fá hingað til lands orkufrekan iðnað. Landsvirkjun sér Norðuráli fyrir tæplega þriðjungi af raforku álversins en í samningnum er raforkuverð tengt við Nord Pool raforkumarkaðinn á Norðurlöndum í stað þess að vera tengdur við álverð eins og áður var. Eftir sem áður eru tveir þriðju raforku Norðuráls enn tengdir við álverð í gegnum samninga við HS Orku og Orkuveitu Reykjavíkur.
Raforkuverð Elkem var ákveðið í gerðardómi. Landsvirkjun segir verðið ekki standa undir kostnaðarverði virkjana. Einar Þorsteinsson, forstjóri Elkem á Íslandi, segir við Viðskiptablaðið að raforkuverðið hafi áhrif en lágt afurðaverð sé helsta skýringin á þungum rekstri. Það sama á við um annars staðar í íslenskri stóriðju. Ástæður rekstrarerfiðleika stóriðjunnar þessi misserin eru lágt afurðaverð sem skýrist af hægagangi í heimshagkerfinu.
Fátt bendir aftur á móti til þess að raforkuverðið sé mjög hátt í alþjóðlegu samhengi, t.d. í samningum sem Norðurál og Rio Tinto undirgengust sjálfviljug við Landsvirkjun, enda verðið beintengt raforkuverði á Norðurlöndunum.
En eftir hverju er Vilhjálmur að kalla? Er verið að fara fram á að raforkusamningarnir verði á ný tengdir við sveiflur á verði málma? Þannig beri íslenskir skattgreiðendur, í gegnum Landsvirkjun, hallann af lágu afurðaverði fremur en þau erlendu stórfyrirtæki sem sérhæfa sig í framleiðslu á umræddum málmum.
Vilhjálmur telur að raforkugreiðslur til Elkem hækki um 1,3 milljarða króna á ári. Ef við tökum Vilhjálm trúanlegan með hækkunina samsvarar hún um 7,7 milljónum króna á ári fyrir hvern starfsmann Elkem á Íslandi eða um 640 þúsund krónum á mánuði, á hvern starfsmann. Sé það sérstakt markmið að skapa störf á Vesturlandi er hægt að gera það með mun ódýrari hætti en að greiða upphæð sem heggur nærri meðallaunum á Íslandi með hverjum starfsmanni. Ólíklegt má telja að féð rynni til starfsmannanna. Líklegra er að það færi í vasa eigenda fyrirtækjanna, sem eru nokkrir af stærstu hrávöruframleiðendum heims.
Fyrirtækjum í atvinnurekstri býðst alla jafna ekki að fá niðurgreidd aðföng eftir því hvernig þeim gengur að selja sína afurð. Flugfélögum gefst ekki kostur á að greiða lægra olíuverð ef flugmiðaverð lækkar og pappírinn sem dagblöðin eru prentuð á lækkar ekki í verði ef hægist á áskriftarsölunni.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í viðtali við 80 ára afmælisblað Frjálsrar verslunar í haust að stóriðjuskeiðið væri runnið á enda. Ekki mætti búast við nýrri stóriðju hér á landi á næstu árum. Sem stendur má segja að raforka sé uppseld á Íslandi, og fáar stórvirkjanir í augsýn. Á þeim tímapunkti skýtur það skökku við að farið sé fram á að hin takmarkaða auðlind, vatnsaflið, sé ekki seld til hæstbjóðenda.