Rafmangsbílaframleiðsla – Stóraukning, einfaldara

Heimild: 

 

Nóvember 2018

Rafbílar miklu einfaldari í framleiðslu

Sigurður Már Jónsson

Bílaumboðið BL var að afhenda 1000 rafbílinn sinn í gær en þeir hófu að selja rafbíla árið 2013. Þetta er kannski ekki svo mikið en leitnin er augljós. Í ár hefur sala nýrra bíla dregist saman um 13% en sala rafbíla aukist um 50%. Rafbílar eru þó ekki nema 1% af íslenska bílaflotanum en er augljóslega að fjölga hratt þessi misserin. Við eigum nokkuð í land að ná Norðmönnum á þessu sviði en þar er 50% nýskráðra bíla rafbílar. Samkvæmt upplýsingum frá BL eru þeir með 68% hlutdeild í sölu hreinna rafbíla. Þeir njóta þess að Nissan náði forskoti með Laufinu (Leaf) og hafa fylgt því vel eftir. Áhugaverðum rafbílum fjölgar í hverjum mánuði og kaupendur standa frammi fyrir stöðugt fleiri valkostum.

Rafbíllinn virðist í dag hin augljósi kostur hér á Íslandi þegar bílaeigendur vilja ráðast í orkuskipti. Það spillir ekki fyrir að rafbílar eru ansi áhugaverðir og skemmtilegir að aka. Það er ekki langt síðan maður hlustaði á marga umboðsaðila tala gegn rafbílum, allt eftir því hvaða áherslur framleiðendur lögðu á í orkuskiptum. Þannig virtust sumir framleiðendur telja að vetni yrði kostur en það er í raun aðeins geymsluaðferð á orkunni og hefur í för með sér talsvert meira orkutap en rafbíl. En þó að rafbíll sé hinn augljósi kostur hér á landi þá hafa menn lengi vel talið að það yrði ekki annars staðar. Þar gæti etanól, vetni eða aðrir orkugjafar allt eins leyst jarðefnaeldsneyti af hólmi. Nú virðast bílaframleiðendur horfa stíft til rafbíla. Það er reyndar rétt að það komi fram að þegar dæmið er reiknað í heild sinni þá má enn hafa efasemdir um mengunaráhrif rafbíla en þetta er skrifað í þeirri trú að framleiðendur muni leysa það vandamál og rafbílar verða þarfasti þjónninn í framtíðinni.

Volkswagen stóreykur rafmagnsbílaframleiðslu

Því var athyglisvert að lesa frétt í Morgunblaðinu í gær þar sem sagt var frá umskiptum Volkswagen, stærsta bílaframleiðanda heims. Volkswagen hefur framleitt áhugaverða rafbíla til þessa en nú hyggst fyrirtækið auka framleiðslu þeirra umtalsvert. Greint var frá því að rekstr­ar­ráð Volkswagen muni hitt­ast á föstu­dag til að greiða at­kvæði um til­lög­ur um yf­ir­grips­mikl­ar breyt­ing­ar sem gætu leitt til þess að fyrirtækið flýtti áætl­un­um sín­um um að auka fram­boðið á raf­­bíl­um. Félagið íhugar nú að flýta end­ur­nýjun tveggja verk­smiðja Volkswagen í Þýskalandi; aðra í Emd­en og hina í Hanno­ver, svo að þar verði hægt að hefja fram­leiðslu raf­­bíla í upp­hafi næsta ára­tug­ar.

Sam­kvæmt grein­ing­u Goldm­an Sachs eru þriðjungi færri íhlut­ir í raf­bíl en hefðbundn­um bíl. Þar af leiðandi hefur það að skipta yfir í fram­leiðslu raf­bíla þau áhrif að minnka þörf­ina fyr­ir vinnu­afl verulega. Stjórn­end­ur Volkswagen gera sér grein fyr­ir því að færsla yfir í fram­leiðslu raf­bíla mun þýða að fækka þarf starfs­fólki. Framleiðendur hafa sagst vilja ráðast í niður­skurðinn með ábyrg­um hætti svo að þeir tug­ir þúsunda starfs­manna fé­lags­ins sem eru í eldri kant­in­um geti sest í helg­an stein frek­ar en þeim verði sagt upp störf­um.

Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að VW mun ráðstafa 20 millj­örðum evra í fram­leiðslu 50 gerða af raf­bíl­um og 30 gerða af ten­gilt­vinn­bíl­um fram til árs­ins 2025. Þá verða 50 millj­arðar evra til viðbót­ar notaðir til að tryggja nægj­an­legt fram­boð af raf­hlöðum. Er ætl­un­in að árið 2025 muni fyr­ir­tækið selja að jafnaði 2-3 millj­ón­ir raf­magns­bíla ár hvert. Einurð VW sýnir að rafbíllinn er að sigra.

Fleira áhugavert: