Ísrael, Kýpur – Risastórar gaslindir

Heimild: 

 

Október 2012

Afródíta heillar

Fyrir nokkrum árum hitti breska olíufélagið Cairn Energy beint í mark suður á Indlandi. Það vel heppnaða olíuævintýri skilaði félaginu nokkrum milljörðum USD í vasann. Í framhaldinu ákvað Cairn að nú skyldi haldið á gjörólíkar slóðir og tók stefnuna á Baffinsflóa vestan Grænlands. Þar var borað af miklum móð í tvö sumur – alls átta tilraunabrunnar – en án árangurs.

Mediterranean-Sea-Countries

Mediterranean-Sea-Countries SMELLA Á MYNDIR TIL AÐ STÆKKA

Þessir þurru brunnar Cairn Energy á Baffinsflóanum gleyptu rúman milljarð USD af eigin fé fyrirtækisins. Og nú hefur þetta geysilega fjársterka olíufélag ákveðið að minnka áhersluna á Grænland og þess í stað einbeita sér aftur að hlýrri slóðum. Undanfarið hefur Cairn Energy nefnilega verið að selja hluta af rannsóknaleyfum sínum við Grænland og fjárfesta í nýjum olíuleitarsvæðum á Miðjarðarhafi.

Það virðist reyndar svo að Miðjarðarhafið geti senn orðið eitt heitasta olíu- og gasleitarsvæðið hér í Evrópu. Síðustu misseri og ár hafa ríki allt í kringum Miðjarðarhaf – og þá ekki sist við austan- norðanvert Miðjarðarhaf – verið að bjóða út ný leitarsvæði af miklum móð. Og áhugi manna í olíubransanum á olíuleit þarna í sól og sumaryl virðist vera að aukast hratt.

Sum löndin sem liggja að sunnanverðu Miðjarðarhafi eiga sér langa sögu sem mikil olíusvæði. Þar er um að ræða lönd eins og Alsír, Líbýu og Egyptaland. Olíuvinnslan þar við Afríkustrendur hefur þó mestöll verið á landi eða á grunnum svæðum rétt utan við ströndina. Sjálft ægidjúp Miðjarðarhafsins hefur aftur á móti verið nánast ósnert – allt þar til núna á allra síðustu árum.

Israel-Gas-Areas-1

Israel-Gas-Areas-1

Ástæða aukins á huga á Miðjarðarhafi er einföld; hækkandi olíuverð hefur freistað áhættusækinna olíufélaga til að leggja út á djúpið utan hinna hefðbundnu vinnslusvæða. Og það jafnvel þrátt fyrir mikla pólítiska óvissu og óróa víða á svæðinu. Þessi þróun byrjaði fyrir einungis örfáum árum. En árangurinn lét ekki á sér standa. Segja má að ævintýrið hafi byrjað fyrir alvöru þegar bandaríska olíufyrirtækið Noble Energy hitti í mark á ísrealska landgrunninu árið 2009. Og fann þar risastóra gaslind, sem kölluð hefur verið Tamar – eins og Orkubloggið hefur áður sagt frá.

Það var svo 2010 að allt varð endanlega vitlaust á nýju Miðjarðarhafssvæðunum. Þá rambaði Noble á aðra ennþá stærri gaslind í ísraelsku lögsögunni. Hún er kennd við sæskrímslið Levíaþan. Þessi góði árangur Noble og gríðarlegu gaslindir skipta auðvitað mestu máli fyrir Ísrael, sem fram til þessa hefur þurft að flytja inn bæði allt gas og alla olíu (og það frá lítt vinsamlegum nágrönnum!). Nánast í einu vetfangi hefur gasið úr ægidjúpi Miðjarðarhafsins (hafdýpið þarna er 1.500-1.800 m) orðið til þess að Ísrael stefnir nú hraðbyri á orkusjálfstæði. Þessar tvær umræddu gaslindir, Tamar og Levíaþan, munu á endanum skila sem samsvarar nokkrum milljörðum olíutunna. Sést hafa tölur um að vinnanlegt magn þessara tveggja svæða slagi hátt í sem nemur 4,5 milljörðum tunna! Ísrael verður því ekki einungis orkusjálfstætt næstu áratugina, heldur líklega einnig stór gasútflytjandi.

Cyprus-Oil-Gas-Map-1

Cyprus-Oil-Gas-Map-1

En þettu eru ekki aldeilis einu stóru fréttirnar af nýjum kolvetnissvæðum á Miðjarðarhafi. Risafundurinn i ísraelsku lögsögunni gaf vonir um að önnur lönd við austanvert Miðjarðarhaf geti gert sér vonir um að verða brátt þátttakendur í kolvetnisiðnaði veraldarinnar. Og nýverið gerðist það að enn ein risalindin fannst undir austanverðu Miðjarðarhafi og nú í lögsögu Kýpur.

Þar var það líka Noble Energy sem átti heiðurinn. Gaslindin við Kýpur fannst á svæði sem nefnist Afródíta og er einungis um 20 sjómílum vestan við ísralesku gaslindirnar kenndar við Levíþan. Rétt eins og Ísraelsmegin er hafdýpið þarna ansið mikið eða um 1.700 m. Talið er að svæðið hafi að geyma um 200 milljarða rúmmetra af gasi, sem jafngildir um 1, 2 milljörðum tunna af olíu. Afródíta er því ekki bara tákn um ást og fegurð, heldur er ástargyðjan um það bil að gera Kýpur að olíuríki. Eða öllu heldur gasríki.

Cyprus-northern-oil-dispute-a

Cyprus-northern-oil-dispute-a

Nú á bara eftir að koma í ljós hvernig mun ganga að byggja upp vinnsluna. Bæði ísraelsku og kýpversku svæðin eru á pólítískt eldfimum landgrunnssvæðum. Á tímabili leit út fyrir að Líbanon myndi jafnvel gera innrás í Ísrael vegna gaslindanna og ágreinings um lögsögumörk. Ekki síður harkaleg viðbrögð komu frá tyrkneskum stjórnvöldum vegna fyrirhugaðrar gasvinnslu Kýpverja. Tyrknesk stjórnvöld viðurkenna ekki lögsögumörk Kýpur og líta á norðurhluta eyjunnar sem svæði sem hafi verið hernumið af grískumælandi Kýpverjum. En þrátt fyrir hótanir og herskip á sveimi hélt Noble sínu striki og nú stefnir allt í að vinnsla muni brátt hefjast bæði á Afródítu og ísraelsku svæðunum.

Turkey-TPAO-Shell-Oil-deal-1

Turkey-TPAO-Shell-Oil-deal-1

Það er nokkuð augljóst að gróðavonin á Miðjararhafi er sterkari en stríðsóttinn. Upp á síðkastið hafa fjölmörg olíufélög lýst yfir vilja til að reyna reyna fyrir sér úti á ægidjúpi Miðjarðarhafsins. Nýlega var t.d. tilkynnt um stóran samning milli Shell og tyrneska ríkisolíufélagsins TPAO um umfangsmikla olíuleit sunnan við strendur Tyrklands.

Grænlandsvinirnir í Cairn Energy virðast einnig vera komnir með mikinn áhuga í Miðjarðarhafi. Cairn var nefnilega nýlega að festa sér leyfi til olíuleitar í lögsögu Spánar; nánar tiltekið skammt frá sólareyjunni Ibiza. Og Cairn er einnig sagt sækjast eftir sérleyfum til leitar við bæði Kýpur og Möltu. Því miður heillaði íslenska Drekasvæðið aftur á móti ekki ljúflingana hjá fjárhagslega ofursterku Cairn.

Noble-Cyprus-Oil-Rig-1

Noble-Cyprus-Oil-Rig-1

Fjölmörg önnur Miðjarðarhafsríki hugsa sér gott til glóðarinnar. Auk Ísrael, Líbanon, Kýpur, Spánar og Möltu virðist nú vera góð hreyfing á tilvonandi olíuleit utan við strendur landa eins og Marokkó, Túnis, Frakklands, Ítalíu, Grikklands og Tyrklands. Það er til marks um svartagullæðið þarna á leitarsvæðunum í Miðjarðarhafi að grísk stjórnvöld hafa lýst því yfir að innan grísku lögsögunnar sé að finna 20-30 milljarða tunna af vinnanlegri olíu! Og ólíuiðnaðurinn virðist ekki telja það útí hött, því um tugur félaga tók þátt í nýlegu olíuleitarútboði grískra stjórnvalda. Það er óneitanlega öllu meiri áhugi en var í dauflegu Drekaútboðinu hér á Klakanum góða fyrr á þessu ári.

Það er ekki ofsagt að stórskuldugir ríkissjóðir þjóðanna við norðanvert Miðjarðarhaf bindi miklar vonir við fyrirhugaða olíuleit. Enn er alltof snemmt að fullyrða nokkuð um hver árangurinn verður á nýju leitarsvæðunum í Miðjarðarhafi. En hreint magnaður árangurinn í lögsögu Ísraels og Kýpur gefur vissulega góð fyrirheit. Og mikill áhugi olíufélaga á nýju leitarsvæðunum í Miðjarðarhafi mun vafalítið tryggja mikla og vandaða olíuleit. Hver veit nema Miðjarðarhafið verði brátt hinn nýi Norðursjór.

Fleira áhugavert: