Endurheimt votlendi- Skurðir, 33 þús. KM
Nóvember 2015
Grófum skurð í kringum jörðina
Stór hluti þess lands sem ræstur var fram á með stuðningi ríkisins á hálfrar aldar tímabili er lítið eða ekkert nýttur. Því er ekkert því til fyrirstöðu að endurheimta votlendi á að minnsta kosti eitt þúsund ferkílómetrum af þeim fjögur þúsund sem þurrkaðir voru upp. Þetta segir dr. Hlynur Óskarsson sérfræðingur hjá Landbúnaðarháskóla Íslands í Kastljósi í kvöld. Koltvísýringslosun af uppþurkuðu mólendi er tvisvar sinnum meira en öll önnur losun á Íslandi til samans, að stóriðnaði, bíla- og fiskiskipaflota meðtöldum.
„öndunarfæri landsins“
„Á síðustu áratugum hafa menn verið verðlaunaðir af hinu opinbera fyrir að ræsa fram mýrar, lífseigustu gróðursvæði landsins, undir yfirskini túnræktar (…) Fer ekki að verða mál til að verðlauna menn fyrir að moka ofaní þetta aftur,“ sagði Halldór Laxness í frægri grein sinni „Hernaðurinn gegn landinu“ árið 1970.
Skurðgröftur Íslendinga víða um land, átti eftir að halda áfram í tvo áratugi með beinum stuðningi hins opinbera eftir að grein Halldórs birtist. Árangurinn af þessu eru skurðir sem samasettir myndu ná langleiðina í kringum hnöttinn. Í greininni sagði Halldór meðal annars:
„Mýrarnar eru stundum kallaðar öndunarfæri landsins. Þúsundir hektara af mýrum standa nú með opnum skurðum sem ristir hafa verið í þeim tilgángi að draga úr landinu alt vatn; síðan ekki söguna meir: eftilvill var aldrei meiníngin í alvöru að gera úr þessu tún.“
Á um það bil hálfri öld ristu Íslendingar upp 33 þúsund kílómetra af skurðum í því skyni að þurrka upp votlendi og mýrar. Þetta var að lang stærstum hluta til gert til þess að liðka fyrir landbúnaði en líka til að rýma fyrir byggingum og vegagerð. Framræsingin þótti nauðsynleg til að að standa undir matvælaframleiðslu framan af og voru landeigendur og bændur styrktir sérstaklega til verksins.Slíkir styrkir voru við lýði í nokkra áratugi en var hætt árið 1987.Upp úr 1970 fór þó að verða vart hugarfarsbreytingar og nokkrir bændur höfðu þá að eigin frumkvæði farið að fylla upp í skurði og endurheimta þannig votlendi. Það var ekki síst fyrir tilstuðlan fuglaverndarmanna sem umræðan snerist.
Losa lang mest
Í raun má segja að umræðan um gríðarlega losun gróðurhúsalofttegunda, vegna þurrkunar mólendis hafi ekki vakið almenna athygli fyrr en nýlega. Samkvæmt nýjustu tölum sem gefnar eru upp í svari umhverfisráðherra við fyrirspurn Sigríðar Andersen þingmanns, er heildarlosun framræsts lands á Íslandi rúmlega tvöfalt meiri en öll önnur losun koltvísýrings: allrar stóriðju, bílaflota, fiskiskipa og heimila þar með talið. Samt hefur lítið gerst í því að minnka þessa losun með endurheimt votlendis síðstu áratugi.
Gagnmokstur gengur hægt
Í fréttaskýringu Fréttablaðsins um þetta efni fyrir ári kom fram að þrátt fyrir umræður, nefndarstörf og sérstaka baráttu Íslendinga fyrir málefninu á heimsvísu, er árangurinn lítill. Þannig hafa einungis sex ferkílómetrar af þessum tæplega 4000 sem voru ræstir fram, verið endurheimtir á síðustu tuttugu árum. Ýmislegt hefur þó gerst. Árið 1996 var sérstök nefnd sett á laggirnar af Guðmundi Bjarnasyni þáverandi ráðherra.
Grænar greiðslur
Árið 2000 var framkvæmdaaðilum eins og Vegagerðinni gert skylt að endurheimta votlendi sem þurrkað væri uppi vegna framkvæmda þeirra. 2006 kom út skýrsla sem markaði nokkur tímamót þar sem votlendissvæði voru sögð eiga að vera óröskuð nema brýna nauðsyn bæri til og reglur settar um endurheimt annarra. Hugmyndin um að ríkið myndi taka þátt í þeim aðgerðum með sérstökum styrkjum kom þar einnig fram. Samskonar styrkju hefur verið beitt í skógrækt.
Heima og heiman
Eins kom þar fram að Íslendingar skyldu beita sér fyrir því að endurheimt votlendis yrði metin sem sérstök aðgerð til að mæta skuldbindingum vegna losunarmarkmiða Kyoto bókunarinnar. Árið 2007 lögðu Íslendingar svo til á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna að endurheimt votlendis yrði tekin til greina og nýttist þar með í losunarmálum. Þetta ákvæði tókst svo að fá staðfest á ráðstefnu 2013 og þótti merkilegt.
Viðhald skurða
Engu að síður hefur lítið þokast í málum hér innanlands. Einstaka bændur hafa þó gert sitt en aðgerðir til að liðka fyrir, á sama hátt og gert var þegar landið var þurrkað, með styrk hins opinbera, hafa ekki komið til ennþá. Ríkið er hins vegar enn að styðja við viðhald á framræstum svæðum í gegnum búvörusamninga þar sem gert er ráð fyrir 10 milljón króna framlagi ríkisins til hreinsunar affallskurða ár hvert.