Affallsvatn virkjana – Framleiðsla fæðurbótaefnis

Heimild:  

.

   Mars 2018

.

   Ágúst 2013

Affalls­vatn frá jarðvarma­virkj­un­um hef­ur hingað til verið tölu­verður höfuðverk­ur fyr­ir virkj­an­ir hér á landi og hef­ur vatn­inu annað hvort verið dælt út í sjó eða dælt niður í jarðhita­geym­inn eins og gert er á Hell­is­heiði. Ekki hef­ur verið hægt að nýta vatnið til orku­fram­leiðslu vegna kís­ilút­fell­inga, en nú hafa tveir um­hverfis­tækni­fræðing­ar, sem út­skrifuðust frá Keili, stofnað fyr­ir­tæki og ætla að nýta steinefn­in í vatn­inu til að fram­leiða heilsu­vör­ur og kís­il­ríkt drykkjar­vatn.

Loka­verk­efni verður að væn­legri sölu­vöru

Fida Abu Li­bdeh og Burkni Páls­son stofnuðu fyr­ir­tækið geoSilica í fram­haldi af loka­verk­efn­um þeirra í orku- og um­hverfis­tækni­fræði, en þar skoðaði Burkni hreins­un á felld­um kís­il með raf­drætti og Fida rann­sakaði áhrif kís­ils og jarðsjáv­ar á gerla og sveppa. Komust þau að því að raun­hæft væri að nýta affalls­vatn frá Hell­is­heiðavirkj­un og hreinsa það af arsenik og öðrum efn­um sem geta verið eitruð í of miklu magni.

Í sam­tali við mbl.is seg­ir Fida að þau bú­ist við að fram­leiða um 12 þúsund ein­ing­ar af kís­il-heilsu­vör­um á fyrsta ári, en eft­ir það sé hægt að auka fram­leiðsluna gíf­ur­lega mikið. Bend­ir hún á að markaður fyr­ir heilsu­vör­ur með kís­il hafi stækkað mikið und­an­farið og að kílóverð þeirra sé mjög hátt, það geti gert nýt­ingu vatns­ins mjög arðbæra.

Sjóða vatnið þrjá­tíufalt

Fida seg­ir að hingað til hafi vatnið nær ein­göngu verið notað vegna varm­ans við að hita upp gróður­hús og fisk­eldi, en við kóln­un verða til kís­ilút­fell­ing­ar og stífla all­ar lagn­ir og tæki. Því hef­ur nýt­ing­in verið tak­mörkuð hingað til.

Hug­mynd Fidu og Burkna geng­ur út á að taka um 60°C-120°C heitt affalls­vatn frá virkj­un­inni og hreinsa burt arsenik og ál, sem er yfir leyfi­leg­um mörk­um. Vatnið er mjög kís­il­ríkt, en til að ná upp hæfi­legu magni fyr­ir heilsu­vör­una seg­ir Fida að það þurfi að sjóða vatnið þrjá­tíufalt niður, en þannig verði kís­ilstyrk­ur­inn næg­ur. Gert er ráð fyr­ir því að neyt­end­ur taki um eina mat­skeið af þessu á dag, en það er ráðlagt magn til að vinna gegn beinþynn­ingu og hafa góð áhrif á húð, hár og negl­ur.

Steinefna­ríkt drykkjar­vatn

Til viðbót­ar við þetta seg­ir Fida að ætl­un­in sé að þróa einnig kís­il- og steinefna­ríkt drykkjar­vatn. Magn kís­ils væri þó mun lægra í þessu vatni en í fæðubót­ar­efn­inu og seg­ir Fida að stefnt sé að því að markaðssetja það eins og ís­lenskt vatn sem hef­ur verið flutt út, en að beina sjón­um sér­stak­lega að kon­um á breyt­inga­skeiði og öðrum sem eru í áhættu­hópi vegna beinþynn­ing­ar.

Mik­il aðstoð frá Orku­veit­unni

GeoSilica hef­ur þegar fengið styrk frá Tækniþró­un­ar­sjóði, en styrk­ur­inn nær til þriggja ára og seg­ir Fida að það hafi gert þeim kleift að hefjast handa og byrja þró­un­ina mark­visst. Þá hafi Orku­veita Reykja­vík­ur veitt þeim aðgang að affalls­vatni og mun aðstoða þau við að leggja lagn­ir að suðuaðstöðu við virkj­un­ina.

Frá suðuaðstöðunni verður kís­ilsvif­lausn­in flutt til frek­ari fram­leiðslu hjá fyr­ir­tæk­inu að Ásbrú, en Ölgerðin mun svo sjá um töpp­un, dreif­ingu og markaðssetn­ingu hér á landi.

Ódýr aðföng og mögu­leiki á mik­illi fram­leiðslu­aukn­ingu

Fida seg­ir að aðföng­in vegna fram­leiðslu á þess­um vör­um séu ekki dýr og lít­ill skort­ur á affalls­vatni. Því verði hægt að auka fram­leiðsluna gíf­ur­lega á næstu árum ef allt geng­ur að ósk­um, en hún seg­ist gera ráð fyr­ir því að inn­an ör­fárra ára verði hægt að selja hundrað þúsund vöru­ein­ing­ar á ári.

Fleira áhugavert: