Rafbílavæðing – Á fullt skrið..

Heimild: 

 

Febrúar 2018

Nú fara hlutir að gerast hratt

Áslaug Thelma Einarsdóttir

Um allan heim eru sérfræðingar sammála um að við séum að nálgast þann stað í tækni- og samgöngusögunni að rafbílavæðingin komist á fullt skrið. Tímamótum sem líkt hefur verið við það þegar stafrænar myndavélar komu í stað filmuvéla.

Sú breyting virtist hröð en hefur átt sér aðdraganda. Áratuginn áður höfðu stafrænar vélar og stuðningur við þær verið að þróast, fyrst hægt, og svo mjög hratt. Svo, eins og hendi væri veifað, hurfu filmuvélarnar.

Rafbílavæðingin er á þeim stað að á næstu mánuðum og örfáum árum taka hlutirnir að gerast mjög hratt. Rafbílar hafa verið að koma á markað í rúman áratug og verða sífellt betri. Þá hafa innviðir til stuðnings þeim líka verið efldir.

Orka náttúrunnar (ON) er leiðandi í uppsetningu á hraðhleðslu um allt land. Í kring um hátíðarnar voru opnaðar þrjár nýjar hraðhleðslur, á Egilsstöðum, í Hveragerði og í Freysnesi vestan við Jökulsárslón. Þannig opnaði ON 13 hraðhleðslur á síðasta ári og tvöfaldaði með því fjölda hraðhleðslna fyrirtækisins.

Fyrir páska opnar ON svo stöðvar við Mývatn, Skjöldólfsstaði, á Stöðvarfirði og í Nesjahverfi við Höfn í Hornafirði. Og með þeirri opnun næst sá mikilvægi áfangi í innviðauppbyggingunni að hvergi verða meira en 100 kílómetrar á milli hraðhleðslna ON á hringveginum. Þessu má líkja við þegar hringvegurinn var opnaður fyrir bílaumferð 1974, nema nú er hann opinn rafbílum.

Að auki stendur til að þétta þjónustunet ON enn frekar og opna fyrir páska nýjar hraðhleðslustöðvar á stöðum á borð við Þorlákshöfn, Minni-Borg í Grímsnesi, í Hafnarfirði og Mosfellsbæ. Fyrir sumarið 2018 verður fjöldi hraðhleðslustöðva ON því kominn upp í 33, sem er þreföldun á einu og hálfu ári.

Tíminn til að skipta yfir á rafbíl er kominn og ekki bara fyrir áhugamenn og sérfræðinga, heldur alla sem bera virðingu fyrir náttúrunni og vilja vera sjálfbærir í sínum samgöngum.

Þessu má líkja við þegar hringvegurinn var opnaður bílaumferð 1974, nema nú er hann opnaður rafbílum.

Höfundur starfar hjá Orku náttúrunnar

Fleira áhugavert: