Sæstrengur – Evrópski fjárfestingarbankinn fjármagnar

Heimild: 

 

Mars 2018

Evrópski fjárfestingarbankinn hefur áhuga á að fjármagna lagningu raforkusæstrengs milli Íslands og Skotlands. Þetta segir aðstoðarframkvæmdastjóri bankans sem lánar fyrir allt að helmingi af kostnaði þeirra verkefna sem hann tekur þátt í.

Bretar hafa enn mikinn áhuga á lagningu raforkusæstrengs milli Íslands og Skotlands þótt lítið sé að gerast í málinu af hálfu Íslendinga en sáralítil hreyfing hefur verið á málinu undanfarna átján mánuði.

Evrópski fjárfestingarbankinn sérhæfir sig í lánveitingum til innviðafjárfestinga á innri markaði Evrópu. Andrew McDowell aðstoðarframkvæmdastjóri bankans segir bankinn sé áhugasamur um að fjármagna verkefni um lagningu sæstrengsins. Kostnaður er allt að 800 milljarðar króna en Evrópski fjárfestingarbankinn lánar fyrir allt að helmingi af heildarkostnaði verkefna sem hann tekur þátt í.

„Viðræðurnar hafa verið varkárar enn sem komið er. Ferlið er of stutt á veg komið til að við getum rætt það í smáatriðum en við vitum af tillögunum um verkefnið og erum meðvituð um mögulegan ávinning þar sem Ísland býr yfir gríðarlega miklum auðlindum til að framleiða sjálfbæra orku,“ segir Andrew McDowell.

Evrópski fjárfestingarbankinn lánaði nýlega 350 milljónir evra til fjármögnunar á Nordlink raforkusæstrengnum sem fyrirhugaður er milli Þýskalands og Noregs.

„Það eru ekki margir sæstrengir í Evrópu eða á milli Evrópusambandsins og nágrannalanda sem Evrópski fjárfestingabankinn hefur ekki fjármagnað. Við erum eftirsótt fjármálastofnun hjá frumkvöðlum á þessu sviði vegna sérfræðiþekkingar okkar og skilnings á efnahagslegum þáttum tenginga á milli landa og tækninnar sem til þarf og mismunandi fjármagnsskipan sem komið er upp til að fjármagna slíkar tengingar. Svo þetta er svið sem við höfum mikla sérþekkingu og áhuga á,“ segir Andrew McDowell.

Fleira áhugavert: