Húseigendafélaginu berast fjölmargar fyrirspurnir er tengjast lögnum í fjöleignarhúsum. Sérstaklega algengt er að fyrirspurnir þessar lúti að því hvort lagnir sem endurnýja þarf séu í sameign allra eigenda, sameign sumra eigenda eða í séreign.Það hefur áhrif á kostnaðarskiptingu á milli eigenda fjöleignarhúss hvort lagnirnar teljist séreign eða sameign.
Það er meginregla að jafnan eru líkur á því að lagnir í fjöleignarhúsi séu í sameign allra eigenda í fjöleignarhúsinu. Í fjöleignarhúsalögunum segir, að til sameignar fjöleignarhúss teljist allar lagnir sem þjóna sameiginlegum þörfum og þörfum heildarinnar, án tillits til þess hvar þær liggja í húsinu. Með öllum lögnum er átt við raflagnir, kaldavatnslagnir, skolplagnir o.s.frv.
Sameign sumra
Jafnframt segir í lögunum, að um sameign sumra sé að ræða þegar lega sameignar eða afnot hennar eða möguleikar til þess eru með þeim hætti að sanngjarnt og eðlilegt sé, að hún tilheyri aðeins þeim sem hafa aðgang að henni og afnotamöguleika.Á þetta meðal annars við um lagnir og er um að ræða undantekningu frá þeirri meginreglu sem nefnd er hér að ofan. Undantekninguna ber að skýra þröngt samkvæmt almennum lögskýringasjónarmiðum.
Lagnir í fjöleignarhúsum eru í eðli sínu bæði viðameiri og flóknari en gerist í annars konar byggingum. Má ætla, að slíkt lagnakerfi miðist fyrst og fremst við hagkvæmni og kostnað þar sem ákvörðun er tekin út frá aðstæðum og hagsmunum hússins í heild, en ekki með sérstöku tilliti til þess að lega eða afnot lagna gagnist beinlínis fleiri eða færri eignarhlutum hússins. Ráða þannig aðstæður og hagkvæmni því oft hvort fleiri eða færri eru um tiltekna lögn. Slík ákvörðun þjónar sameiginlegum þörfum heildarinnar.
Kærunefnd fjöleignarhúsamála hefur í fjölmörgum álitum sínum túlkað framangreind ákvæði laga um fjöleignarhús á þann hátt að sem sanngjarnast sé fyrir heildina þegar til lengri tíma er litið þannig að íbúar fjöleignarhúsa búi að þessu leyti við það réttaröryggi sem búseta í fjöleignarhúsi getur veitt.
Nefna má eitt álit kærunefndarinnar þar sem deilt var um skiptingu kostnaðar vegna kaldavatnslagna. Álitsbeiðandi taldi að um væri að ræða lagnir sem tilheyrðu sameign allra eigenda. Gagnaðili taldi hins vegar að þar sem lagnirnar þjónuðu eingöngu þörfum tveggja íbúða í húsinu væri um sérkostnað þeirra að ræða.
Niðurstaða nefndarinnar var sú að lagnirnar væru sameign allra eigenda þar til þær væru komnar inn fyrir vegg viðkomandi íbúðar. Á sama hátt hefur nefndin komist að þeirri niðurstöðu að lagnir séu í sameign allra eigenda þar til þær eru komnar upp fyrir gólf íbúða.
Öll álit kærunefndarinnar er snúa að skiptingu kostnaðar vegna lagna eru byggð á sömu grunnsjónarmiðum og nefnd eru hér að framan og hefur nefndin gefið um það skýr fordæmi að hvers konar lagnir í fjöleignarhúsum séu í sameign allra eigenda þangað til þær eru komnar inn fyrir vegg eða upp fyrir gólf í hverjum eignarhluta fyrir sig.