Fráveitukerfi Reykjavíkurborgar – Um fráveituna..
Undanfarna tvo áratugi hafa verið gerðar miklar úrbætur í frárennslismálum á höfuðborgarsvæðinu. Árið 1992 undirritaði Reykjavíkurborg samning við nágrannasveitarfélögin um hreinsun strandlengjunnar með uppbyggingu skólphreinsikerfis.
Almennt um fráveituna
Fyrsta hreinsistöðin við Ánanaust var tekin í notkun 1998 og tengdist við hana fráveituvatn frá 57% íbúa Reykjavíkur. Árið 2002 var hreinsistöðin í Klettagörðum tekin í notkun og var þá 83% íbúa í borginni tengdir við skólphreinsistöðvar. Árið 2005 var tekin í notkun dælustöð fyrir skólp í Gufunesi og við það tengdist fráveita frá Grafarvogi og Grafarholti við hreinsistöðina í Klettagörðum. Þar með urðu 99,5% íbúa tengd við fráveitukerfi með hreinsistöð.Til stendur að opna þriðju hreinsistöðina fyrir Grundarhverfi á Kjalarnesi. Með opnun þeirrar stöðvar mun síðasta íbúðarhverfi Reykjavíkur tengjast fráveitu með hreinsistöð. Í stöðvunum fer fram síun (3 mm ristar) ásamt fitufleytingu- og sandfellingu.
Kollafjörður, sem staðsettur er í suðaustanverðum Faxaflóa, er sá fjörður sem tekur við öllu skólpi frá Reykjavík og nágrannasveitarfélögum. Flatarmál Kollafjarðar er um 83 ferkílómetrar og rúmmál hans um 1,4 rúmkílómetrar við vorfjöru. Skólpinu frá hreinsistöðinni að Ánanaustum er dælt út um 500 m langan dreifara á sjávarbotni, 3,6 til 4,1 km norðvestan við stöðina. Hins vegar er skólpinu frá Klettagarðastöðinni dælt út um 1000 m langan dreifara, 4,5 til 5,5 km norðvestan við stöðina. Fjarlægðin á milli þessara tveggja losunarstaða er rúmlega 3 km. Sterkir straumar og tiltölulega heitur og saltur Atlantshafssjór einkennir Faxaflóann. Áætlaður viðverutími sjávarins í flóanum er um 7,5 vikur en hann getur verið mjög breytilegur frá einum mánuði til annars og frá einu ári til annars (Guðjón Atli Auðunsson 2006)
Hitaveituvatn frá hitun hýbíla er stór hluti skólpsins sem er nokkuð sérstætt í samanburði við skólp erlendis. Ummerki og dreifing skólpsins, m.a. með tilliti til ólífræns kísils, hefur verið skoðuð í viðtakanum (Jón Ólafsson og Sólveig Ólafsdóttir 2001).
Í gildi er reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp og lög nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna. Reglugerð nr 798/1999 er byggð á evróputilskipun um skólplosun frá þéttbýli (nr. 271/1991/EBE). Einnig má nefna að í gildi er samþykkt um rotþrær í Reykjavík nr. 593/2001.
Veitur ohf. sjá um rekstur og uppbyggingu fráveitu í Reykjavík og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur eftirlit með fráveitunni í samræmi við reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp.
Upplýsingar
Vinsamlegast hafið samband við Svövu S. Steinarsdóttur eða Kristínu Lóu Ólafsdóttur hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur. Einnig er hægt að senda fyrirspurn hér á síðunni eða á netfangið Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur eða hafa samaband í síma 411-1111 ef einhverjar spurningar og/eða athugasemdir eru varðandi efnið.