Húshitun – Ókeypis varmagjafar
Ágúst 2002
Hús án hitakerfis
VÍÐA um lönd er það stöðug barátta að spara á öllum sviðum, nokkuð sem tæplega verður talið til þjóðareinkenna Íslendinga síðustu áratugina. Á norðlægari breiddargráðum, annars staðar en hérlendis, er það mikið keppikefli að spara orku á öllum sviðum, ekki síst til upphitunar. Vatn er sparað því í flestum iðnvæddum löndum kaupa menn eftir mæli, þá er auðvitað átt við kalt eða ferskt vatn til matargerðar, drykkjar og þvotta. Hérlendis er kalda vatnið ekki selt í íbúðarbyggingar eftir mæli, það er hins vegar gert í sölu vatns til fyrirtækja og stofnana víðast hvar. Við stærum okkur gjarnan af því að hér sé kalda vatnið svo ódýrt, en þar er reyndar ekki allt sem sýnist, kalda vatnið er líklega ekkert ódýrara en það heita.
Seint verður það þakkað nægilega að við skulum búa í svo ungu landi á Atlantshafshryggnum að auðvelt er að ná í heitt vatn úr iðrum jarðar til upphitunar húsa. Þetta er svo hagkvæmt að hitaveitureikningurinn er nokkuð sem við höfum ekki áhyggjur af, enda hefur það löngum verið erfitt að fá húseigendur til að hyggja að orkusparnaði til upphitunar. Það hefur þó mikið breyst á síðustu árum.
Ókeypis hiti
Það er sama hvar við búum, við fáum alltaf talsvert af ókeypis hita, það eru ýmsir varmagjafar sem sjá um það. Fremst í flokki fer sólin, hún skín inn um gluggana og vermir allt sem geislar hennar ná til. Matargerð í eldhúsinu gefur umtalsverðan varma, svo má nefna öll tækin, tölvurnar, sjónvarpið, tónlistarsamstæðan, allar ljósaperurnar og svo má lengi telja. Auðvitað er orkan sem knýr þessi tæki ekki ókeypis, en hún er ekki keypt til að hita upp, það er aukageta sem fæst þegar tækin eru notuð. Orkuna greiðum við til að horfa á sjónvarp, vafra á Netinu eða hlusta á Mozart, til að sjá á bók. Síðan erum við sjálf umtalsverðir varmagjafar og ef fjölmennt er í góðu teiti á heimilinu má búast við að allir túrkranarnir loki fyrir rennsli á ofnana vegna þess hve hitinn hefur hækkað.
Þótt við sitjum í stól og lesum eða horfum á sjónvarp gefum við frá okkur svolítinn varma, en við aðrar athafnir sem krefjast meiri hreyfingar stígur varmagjöfin umtalsvert og eykst eftir því sem meira er tekið á, en ræðum það ekki frekar.
Svíar samir við sig
Þeir eru í fúlustu alvöru að reyna að byggja hús sem ekki þarf neitt hitakerfi, þokkaleg tíðindi fyir stétt pípulagningamanna ef raunsætt reynist, það verður heldur en ekki samdráttur í verkefnum þeirra.
Já, Svíar eru að reyna þetta í alvöru og reynsluverkefnið er ekki eitt hús, heldur tuttugu raðhús í Gautaborg og önnur tuttugu í Málmey.
Þetta er svosem ekki fyrsta tilraunin til að byggja hús án hitakerfa, fyrri tilraunir hafa samt einhvern veginn alltaf gufað upp, fróðlegt verður að sjá hvernig til tekst í þetta sinn.
Hús án hitakerfis byggist á ýmsum forsendum að sjálfsögðu. Fyrst má nefna einangrun hússins og þótt þar liggi fyrir tölur og upplýsingar á tæknimáli er engin ástæða til að fara að þylja upp hver varmaleiðnin má vera um einstaka byggingarhluta þótt fróðlegt sé.
Annað atriðið er þéttleiki hússins, það má ekki opna glugga umhugsunarlaust til að hleypa inn hreinu lofti því þá tapast svo og svo mikill varmi, allt á að byggjast á þeim ókeypis varma sem í húsinu fæst og að utan kemur.
Sú spurning var lögð fyrir marga sérfræðinga í Svíþjóð hvort þeir teldu að þetta mundi lukkast, hvort þetta væri gerlegt.
Flestir voru æði gagnrýnir á tilraunina en athyglisverðasta svarið var frá þeim sem var jákvæðastur. Hann sagði:
„Já, líklega er þetta hægt. En í slíku húsi vildi ég ekki búa.“
Undir það er vissulega hægt að taka. Ef þetta ætti að ganga upp hundrað prósent mætti líklega aldrei opna glugga, enginn mætti fara út eða koma inn og líklega mundu menn lognast út af að lokum vegna súrefnisskorts.