Græn orka á góðri siglingu..
Janúar 2016
Verð á olíu og jarðgasi er lágt – og hefur farið lækkandi undanfarin misseri. Þegar svo háttar til hafa fyrirtæki í endurnýjanlegri orku oft líka orðið fyrir höggi vegna fjármagnsflótta úr græna orkugeiranum. Því lágt verð á kolvetnisorku er til þess fallið að gera grænu orkuna ósamkeppnishæfari en ella.
Það eru því talsverð tíðindi að þrátt fyrir mjög lágt verð á kolvetnisorkugjöfunum (olíu, gasi og kolum) var árið 2015 fjárfest meira í endurnýjanlegri orku en nokkru sinni áður.
Árið 2015 var sem sagt metár í grænni orkufjárfestingu í heiminum. Þessi jákvæðu tíðindi koma fram í nýrri skýrslu Bloomberg New Energy Finance (BNEF). Þar er rakið hvernig græn orkufjárfesting er nú aftur komin á flug, eftir netta dýfu á árunum 2012 og 2013 (sbr. grafið hér til hliðar).
Það er sem sagt engu líkara en græna orkan – eða a.m.k. hluti hennar – hafi nú rifið sig lausa frá kolvetnisorkunni. Til marks um það má nefna að danska vindorkufyrirtækið Vestas er nú tvöfalt verðmeira en það var fyrir ári. Og tífalt verðmeira en var fyrir tveimur árum! Sbr. grafið hér að neðan.
Og það er einmitt mikill vöxtur í vindorku sem á mestan heiður af þessari miklu fjárfestingu í grænni orku árið 2015. Þarna er uppbygging vinorkuvera í Kína og víðar í Asíu umfangsmest. En vindorkan er að gera það gott víðar. Þannig var slegið nýtt met í Danmörku á liðnu ári, þegar raforkuframleiðsla með danskri vindorku nam rúmlega 42% af raforkunotkun í Danmörku.
Annað vestrænt land sem virðist vera að gera það merkilega gott í vindorkunni er Bandaríkin. Þar var framleiðslumet slegið í Texas 20. desember s.l. þegar vindorkuverin í gamla olíufylkinu framleiddu raforku sem nam um 45% af raforkunotkun fylkisins.
Það ótrúlegasta eða óvæntasta er þó að á sumum svæðum þarna vestra, þ.e. í í Bandaríkjunum, er að verða eða jafnvel orðið ódýrara að reisa vindlund en gasorkuver. Þ.e. ódýrara að framleiða raforku með nýju vindorkuveri heldur en nýju gasorkuveri. Þessu hélt Obama forseti a.m.k. fram í árlegri ræðu sinni á Bandaríkjaþingi nú fyrir nokkrum dögum (State of the Union Address). Og Washington Post hefur staðfest að þessar fullyrðingar Obama séu réttar.
Lækkandi kostnaður í vindorkunni hefur sem sagt orðið til þess að á sumum svæðum, þar sem hvað best nýting næst, er vindorkan ámóta ódýr eða jafnvel ódýrari kostur en jarðgas. Sem er með miklum ólíkindum þegar haft er í huga hversu verð á jarðgasi er lágt nú um stundir.
Eins og áður sagði er það Kína sem var í fararbroddi í græna orkugeiranum á liðnu ári. Ásamt fleiri Asíuríkjum. Aftur á móti hefur heldur dregið úr fjárfestingum í vindorku á sumum svæðum heimsins og þá helst innan Evrópusambandslandanna (ESB). Þar kann að skipta talsverðu máli að farið er að bera á offjárfestingu í vindorku í fjölmennasta ríki ESB; Þýskalandi.
Slíkt ástand getur haft óheppileg áhrif á raforkumarkað, því þá geta komið tímabil þegar svo mikil raforkuframleiðsla á sér stað hjá vindorkuverunum að raforkuverð fellur úr hófi fram. Sem veldur miklu tapi hjá raforkufyrirtækjum sem ekki geta dregið snögglega úr framleiðslu sinni og þar með kostnaði. Þetta á einkum við um kjarnorkuver og kolaorkuver. Græna orkubyltingin er því ekki án vandræða. Og getur valdið offjárfestingu í orkugeiranum. En það er gjaldið sem flest ríki verða að greiða fyrir það að stórauka hlutfall endurnýjanlegrar orku.