Þegar Nixon bannaði olíuútflutning
Febrúar 2016
Í desember sem leið (2015) urðu þau tímamót vestur í Bandaríkjunum að olíuskip lét úr bandarískri höfn – fullhlaðið og með stefnuna á útlönd!
Bandaríkjaþing hafði þá nýaflétt rúmlega fjörutíu ára banni á útflutning á bandarískri hráolíu. Þetta var bara fyrsta olíuskipið af mörgum sem á næstunni mun flytja bandaríska hráolíu til útlanda. Og núna berast t.a.m. fréttir af því að skip með fyrsta farminn af bandarískri olíu til Kína sé á leiðinni þangað. Nú þegar heil 44 ár eru liðin frá því Richard Nixon, þáverandi Bandaríkjaforseti, fór til Kína að hitta Maó. Og Bandaríkin og Communist China tóku loks upp stjórnmálasamband.
Í tilefni af þessum bandaríska hráolíu-útflutningi, er ekki síður skemmtilegt að rifja upp sjónvarpsávarp Nixons síðla árs 1973. Þegar hann flutti landsmönnum sínum tíðindi um orkukreppuna sem skollin væri á þjóðinni. Þar sem hann, ansið brúnaþungur, tjáði þjóð sinni að hún mætti helst ekki nota bílinn á sunnudögum. Og yrði að keyra hægar. Og spara húshitun (sem var á þessum tíma að miklu leyti olíukynding).
Fyrir ökuglaða Bandaríkjamenn með sitt olíukynta heimili og raforkuvædda eldhús, var þetta ekki neinn gleðiboðskapur. Þess vegna reyndi öðlingurinn hann Nixon að stappa stálinu í þjóð sína. Með því m.a. að minna hana á að bensínsölubann yfir helgar myndi t.d. leiða til þess að fólk ætti meiri kósý tíma heima; „spend a little more time at home“. Og kreisti fram sitt einstaka glott.
Sjálfur myndi Orkubloggarinn gjarnan vilja ferðast þarna aftur til 1973. Og á afar auðvelt með að sjá sjálfan sig sitja notalega við vökvastýrið á sjálfskipta dollaragríninu. Og liðast áfram á 50 mílna max speed – samkvæmt fyrirmælum Nixons – innan um olíuasna eða eldflugur einhvers staðar í Suðurríkjunum. Á föstudagssíðdegi. Því það var jú ekki lengur hægt að fá bensín á drekann um helgar!
Þessi ljúfi fólksbíll á myndinni, Cadillac Eldorado, væri t.a.m. upplagður fyrir Orkubloggarann. Ekki nema nett tæp 2,500 kg og pínkuponsu 400 hestafla átta lítra vél. Sem sagt sannkallaður sparibaukur! Úff – ímyndið ykkur hljóðið þegar stigið var létt á benísgjöfina á þessu stáltryllitæki. Those were the days!
En Adam var ekki lengi í Paradís. Nú voru árans Sádarnir á góðri leið með að eyðileggja stemninguna. Tilefni olíusparnaðaraðgerðanna var auðvitað ástandið í Mið-Austurlöndum. Þar sem helstu olíuflutningsríkin sættu sig ekki við stuðning vestursins við Ísrael. Og voru svo óforskömmuð að setja útflutningsbann á olíu.
En snúum aftur til nútímans og nýs upphafs að bandarískum olíuútflutningi. Í desember á því herrans ári 2015. Það var auðvitað viðeigandi að þessi fyrsta bandaríska hráolía sem flutt var út þarna í desember sem leið, skv. hinni almennu nýsamþykktu heimild þingsins í Washington DC, sigldi úr höfn frá Líkama Krists í gamla olíufylkinu Texas. Texas hefur einmitt undanfarin ár upplifað nýtt olíuæði í formi tight oil (shale oil). Og það er þessi nýja olíuvinnsla sem hefur valdið því að þörf Bandaríkjanna fyrir innflutta olíu hefur á skömmum tíma snarminnkað.
Með hliðsjón af þessum tímamótum er kannski vert að rifja upp olíuútflutningssögu Bandaríkjanna. Svona rétt í hnotskurn.
Bandaríkjamenn hófu mjög snemma að flytja út olíu. Strax upp úr 1910 var þetta orðinn góður bissness. Og þegar komið var fram á fjórða ártug 20. aldar var Japan orðið afar mikilvægur viðskiptavinur. Það breyttist eftir að þeir gerðust árásargjarnir og 1940 bannaði Roosevelt forseti olíuútflutning til Japans (fram að því fékk Japan um 80% allrar olíu sinnar frá Bandaríkjunum!). Þessi ákvörðun var vafalítið ein af orsökum þess að ráðist var á Perluhöfnina á Hawaii 1941. Og andvaraleysi Bandaríkjahers með ólíkindum.
Á tímum heimsstyrjaldarinnar síðari reiddu bandamenn í Evrópu sig mjög á bandaríska olíu. En með æpandi efnahagsuppgangi vestra eftir stríðið, þurftu Bandaríkjamenn sjálfir sífellt meira á olíunni sinni að halda. Og fóru meira að segja að flytja inn olíu. Upp úr 1970 urðu svo þau tímamót að olíuframleiðslan vestra nægði ekki lengur til að uppfylla eftirspurnina innanlands (sbr. grafið hér að ofan). Í fyrsta sinn í sögunni urðu Bandaríkin háð innfluttri olíu.
Það varð því mikill taugatitringur westur í Washington þegar enn eitt stríðið skall á milli Ísrael og Arabaríkjanna. Haustið 1973. Þetta var stríðið kennt við helgidaginn Yom Kippur. Og nú ákváðu Arabaríkin að nýta tækifærið til að þrýsta á Vesturlönd og settu á áðurnefnt útflutningsbann á olíu vegna bandamanna Ísrael.
Þar með lokaðist á olíuútflutning til Bandaríkjanna. En þó ekki algerlega, því Arabaríkin létu Bandaríkjaher njóta undantekninga. Enda hefði Bandaríkjaher í Víetnam fljótt orðið eldsneytislaus og Arabaríkin vissu að það bæri of áhættusamt að ganga svo langt. Þ.a. herinn fékk sína olíu – en ekki bandarískur almenningur. Fyrir vikið fór brátt a bera á eldsneytisskorti vestra.
Nixon kynnti nú olíusparnaðaraðgerðirnar og greip til ýmissa stjórnvaldsákvarðana sem fólu í reynd í sér útflutningsbann á bandaríska olíu. Þetta er að vísu nokkur einföldun, því bandaríski olíuiðnaðurinn hafði um áratugaskeið notið mikillar verndar gagnvart ódýrri innfluttri olíu frá Mið-Austurlöndum. Útflutningsbannið kom því eiginlega í stað allskonar verndaraðgerða sem haft höfðu þann tilgang að sporna gegn samkeppni við bandaríska olíuframleiðendur. Og það er athyglisvert að nýlega var þetta útflutningsbann Ríkharðs Nixon á bandaríska olíu nefnt a fine example of the perverse effects of protectionism. Í grein í Economist.
Það fór reyndar svo að OPEC og Arabaríkin létu brátt af olíuútflutningsbanni sínu. Og Bandaríkin gátu óhindrað flutt inn olíu þaðan, en á þessum tíma var vel að merkja mest öll olíuvinnslan við Persaflóa í höndum vestrænna olíufyrirtækja. En olíuframleiðsla í Bandaríkjunum hafði náð toppi og fór nú hnignandi. Og þar með urðu Bandaríkjamenn smám saman sífellt háðari innfluttri olíu.
Alaskaolían veitti að vísu tímabundinn létti og á níunda áratugnum minnkaði innflutningsþörf Bandaríkjanna verulega. Þar kom einnig til erfitt efnahagsástand á þessum tíma, sem dró úr olíueftirspurn.
En Alaskaolían dróst jafnhratt saman og hún kom – og brátt jókst innflutningsþörfin á ný. En upp úr árþúsundamótunum kom svo nýr bjargvættur – í formi Tight Oil.
Sú olía, ásamt aukinni olíuvinnslu úr kanadískum olíusandi, var í reynd ekkert annað en skýrt tákn um hátt olíuverð. Nú var sem sagt orðið hagkvæmt að sækja olíu sem vitað var af í jörðu í þunnum lögum víða um Bandaríkin og þó einkum undir sléttunum í Texas og N-Dakóta. Fram að þessu verið alltof dýrt að vinna þessa olíu, en nú var olíuverð orðið svo hátt að þetta varð rífandi bissness.
Þessi nýja olíuvinnsla, ásamt sífellt sparneytnari bifreiðum, hefur nú orðið til þess að olíuinnflutningaþörf Bandaríkjanna hefur síðustu árin minnkað hreint ótrúlega hratt. Öll þessi þróun kemur vel fram á grafinu hér ofar í greininni. Stóra spurningin núna er hversu lengi þessi nýja olíuvinnsla – tight oil fracking – nær að halda í horfinu. Það verður ekki mjög lengi ef marka má spá bandaríska orkumálaráðuneytisins, sbr. grafið hér til hliðar.
Þegar litið er á tölur um olíunotkun og innflutningsþörf Bandaríkjanna á olíu kemur vel að merkja í ljós að olíubúskapur Bandaríkjanna núna er lítt skárri en var 1973 – þegar Nixon bannaði olíuútflutning. Bandaríkjamenn eru sem sagt í dag ámóta stór olíuframleiðandi og var 1973 0g eru i dag ekkert síður háðir innfluttri olíu en var þá! Þar að auki er búist við að framleiðsla Bandaríkjanna á tight oil nái brátt hámarki – og muni svo fara hnignandi.
Þess vegna eiga varnaðarorð Nixon væntanlega alveg jafn vel við í dag eins og þá. Og þess vegna kemur nokkuð á óvart að Bandaríkjaþing skuli nú hafa leyft útflutning á hráolíu. Þarna virðist meira horft til hlutabréfaverðs bandarísku olíufyrirtækjanna fremur en hagsmuna almennings af því að eiga aðgang að bandarískri olíu til framtíðar.
Og ástandið í Mið-Austurlöndum núna er varla mikið skárra en var þarna 1973. Enda var Obama alls ekki sáttur við útflutningsleyfi þingsins – en lét þó gott heita.
En fyrst að olíuverð er nú komið í og jafnvel undir 30 USD/tunnu mætti kannski hugsa sér að Kanar fari aftur að smíða almennilega bíla. Úr stáli! Því hver þarf álbíladós þegar gallonið af bensíni kostar orðið minna en skitna tvo dollara? Bráðum getur maður kannski aftur beðið um Wipe the Windows, Check the Oil, and Dollar Gas!