Rafbílavæðing – Mikill áhugi á uppbyggingu hleðslustöðva

Heimild:  visir

 

Október 2016

rafbilarMikill áhugi á átaksverkefni stjórnvalda, Rafbílar – átak í innviðum, kom ljóslega fram í fjölda styrkumsókna frá fyrirtækjum og sveitarfélögum – en verkefnið miðar að því að gert verði átak í að efla innviði fyrir hleðslu rafbíla á landsvísu á komandi árum. Sótt var um fjórfalt hærri upphæð en stjórnvöld ætla til verkefnisins á næstu þremur árum, eða rétt tæplega 800 milljónir króna.

Á fjárlögum 2016 er að finna tímabundna fjárheimild að fjárhæð 67 milljónir króna á ári, í þrjú ár, fyrir verkefnið sem er hluti af sóknaráætlun Íslands í loftslagsmálum. Er verkefnið eitt af átta verkefnum í sóknaráætluninni sem miða að samdrætti í nettólosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi.

 

Jakob Björnsson, framkvæmdastjóri Orkusjóðs, sem fellur undir Orkustofnun, segir áhugann á verkefninu meiri en búist var við; alls bárust 33 umsóknir frá sveitarfélögum, fyrirtækjum og einstaklingum. Að svo stöddu er ekki hægt að gefa upp hverjir sóttu um, en einhver skörun umsókna er ekki útilokuð. Stóra myndin liggur þó fyrir.

„Heildarupphæðin sem sótt er um er 800 milljónir króna. Áætlaður kostnaður við verkefnin sem um ræðir er rétt um tveir milljarðar króna þannig að áhuginn er gríðarlegur,“ segir Jakob og bætir við að augljóslega fái ekki allir það sem sóst er eftir.

Hægt var að sækja um verkefni sem eru til eins, tveggja eða þriggja ára. Eingöngu eru veittir styrkir til fjárfestinga og geta styrkir hæst numið 50% af áætluðum kostnaði hvers verkefnis, sem þýðir að sá sem sækir um ætlar að leggja fram sömu upphæð, eða meira eins og tölurnar sýna en hugmyndir um uppbyggingu í umsóknum eru um milljarður – 200 milljónum meira en ef um krónu á móti krónu væri að ræða. Hámarksupphæð styrks fyrir hvert verkefni er 30 milljónir en tvær milljónir að lágmarki.

„Það eru margir sem hafa stórar hugmyndir um uppbyggingu. Umsækjendur tala um að á næstu árum muni þrýstingur á fjölgun rafbíla aukast stórlega, og ef ríkið ætlar að koma að því þá þurfi að bæta í,“ segir Jakob og vísar til texta umsóknanna.

Fleira áhugavert: