Af góðri og vondri lögfræði
Tryggvi Felixson í Fréttablaðinu 3.3. og Snorri Baldursson í sama blaði 7.3. gera harða hríð að undirrituðum vegna greinar minnar í blaðinu 27.2. Um leið og ég virði góðan hug og einbeittan vilja þeirra til þess að varðveita þau verðmæti sem felast í íslenskri náttúru þá afsakar það á engan hátt endurteknar tilraunir þeirra til þess að afflytja texta og innihald laga um Rammaáætlun þannig að það henti þeirra málstað.
Þeir reyna hvað þeir geta að ætla verkefnisstjórn Rammaáætlunar nýtt og stærra hlutverk í stjórnsýslunni og Snorri, sem reyndar sakar undirritaðan um að viðhafa vonda lögfræði, gengur svo langt að kalla hana „fjölskipað stjórnvald sem er jafnsett Orkustofnun í stjórnkerfinu“. Lítum á það hvað sagt er um þetta í athugasemdum með frumvarpinu: „Líkt og fyrri verkefnisstjórnum yrði henni eingöngu ætlað að hafa ráðgjafarhlutverk. Verði frumvarpið að lögum er því á engan hátt hróflað við hlutverki opinberra stofnana á sviði rannsókna og stjórnsýslu.“
Hvar liggja mörk friðlýsingar
Tryggvi telur óþarfa að skilgreina það svæði sem á að njóta verndar því í skýringum við lögin standi að virkjunarsvæði í vatnsafli miðist við allt vatnasvið fallvatns ofan virkjunar og farveg fallvatnsins neðan virkjunar. Í athugasemdum við frumvarpið segir hins vegar: „Í 4. mgr. kemur fram að verkefnisstjórnin skuli afhenda ráðherra rökstuddar tillögur um flokkun virkjunarkosta og afmörkun landsvæða í samræmi við flokkunina. Á verkefnisstjórnin því að afmarka virkjunarsvæði og þau landsvæði sem hún telur rétt að friðlýst séu.“ Þar er reyndar einnig sagt að til álita komi að vernda heil vatnasvið en líka skýrt tekið fram að til álita komi að friðlýsa hluta vatnasviðs eða hluta fallvatns.
Lög um rammaáætlun eru skýr um það hvernig virkjunarkostir koma til umfjöllunar hjá verkefnisstjórn sbr. eftirfarandi tilvísun úr 9. grein laganna. Þar koma fram hlutverk Orkustofnunar og verkefnisstjórnarinnar.
„Ef virkjunarkostur er að mati Orkustofnunar nægilega skilgreindur skal verkefnisstjórn fá hann til umfjöllunar. Orkustofnun getur einnig að eigin frumkvæði falið verkefnisstjórn að fjalla um virkjunarkosti. Verkefnisstjórn fjallar um virkjunarkosti skv. 2. mgr. og þau landsvæði sem viðkomandi virkjunarkostir hafa áhrif á að hennar mati. Verkefnisstjórn getur að eigin frumkvæði eða samkvæmt beiðni endurmetið virkjunarkosti og landsvæði sem gildandi áætlun nær til og lagt til breytingar á henni.“
Í framhaldi af þessu er skýrt hvenær virkjanakostir koma ekki lengur til umfjöllunar í Rammaáætlun þ.e.a.s ef leyfi til nýtingar eða virkjunar hefur verið gefið út eða ef friðlýsing, ekki tillaga um friðlýsingu, bannar framkvæmdina.
Tillaga um friðlýsingu er ekki friðlýsing
Tryggvi býsnast yfir þeirri ósvífni Orkustofnunar að leggja fram tillögur um breyttar útfærslur á virkjunarkostum, sem eru í verndarflokki annarrar Rammaáætlunar. Þá þarf hann að útskýra hvað átt er við með eftirfarandi málsgrein í athugasemdum með frumvarpinu:
„Einnig þarf áætlunin að skapa svigrúm til ákvarðana um friðlýsingu ákveðinna svæða gagnvart orkuvinnslu. Til þess að svo megi verða þarf áætlunin að ná til hæfilega langs tíma. Á sama tíma verður þó að veita ákveðið svigrúm til aðlögunar með tilliti til breyttra forsendna. Í því sambandi getur m.a. þurft að taka tillit til nýrra virkjunarkosta. Einnig þarf að vera unnt að taka tillit til nýrra rannsókna og nýrrar þekkingar og tækni. Þá má nefna að aðferðir við nýtingu viðkomandi orkulinda hafa breyst og nýjar aðferðir verið þróaðar við mat á áhrifum nýtingar og verndargildis viðkomandi svæða.“
Í upphaflegu frumvarpi var ákvæði um að gildistími Rammaáætlunar yrði 12 ár. Í nefndaráliti atvinnuveganefndar er lagt til að það ákvæði yrði fellt á brott með eftirfarandi rökstuðningi: „Að mati nefndarinnar er þetta óþarft þar sem verndar- og orkuáætlunin er stöðugt í endurskoðun og því ekki endanleg áætlun en hún kemur til endurskoðunar eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti “
Þetta verður að mínu mati ekki túlkað öðruvísi en svo að þeir kostir sem ekki fá umfjöllun hjá verkefnisstjórn Rammaáætlunar og eru ekki með í ályktun Alþingis á hverjum tíma lendi sjálfkrafa í biðflokki. Ég vil ekki trúa að það sé markmið þeirra sem berjast fyrir því að kostir í núverandi verndarflokki séu ekki teknir til umfjöllunar í málsmeðferð þriðju rammaáætlunar og hafni þannig í biðflokki næstu áætlunar. Mikilvægt er að tryggt verði, að slíkir kostir fái lögformlega rétta málsmeðferð samkvæmt þeim lögum sem tóku gildi eftir að önnur Rammaáætlun var samþykkt.
Heimild: Vísir