Hinir miklu auðlindir Úkraínu sem Trump ágirnist
Það vakti furðu og reiði þegar Donald Trump Bandaríkjaforseti setti fram kröfu um að Úkraínumenn greiddu
eða endurgreiddu Bandaríkjunum veitta og framtíðar hernaðar- og efnahagsaðstoð með aðgangi að auðlindum
landsins að andvirði 500 milljarða dollara, jafnvirði um 70.000 milljarða króna, að öðrum kosti yrði allri aðstoð
hætt. Þessi upphæð er miklum mun hærri en verðmæti þeirra úkraínsku auðlinda sem Bandaríkjastjórn gerði
kröfu til í samningsdrögum sem þau sendu stjórnvöldum í Kænugarði, og Bresku blöðin Telegraph og
Financial Times komust yfir.
Líkist meira kúgun en samningi við vinaþjóð
Blaðamönnum Telegraph reiknast til, að yrði gengið að ýtrustu kröfum Trumps, þá þyrftu Úkraínumenn að greiða
Bandaríkjunum hærra hlutfall þjóðarframleiðslu sinnar en Þjóðverjar voru krafðir um í Versalasamningnum á sínum
tíma. Munurinn væri þó sá, að hér beindist krafan ekki að sigruðum óvini og árásarþjóð, heldur vinaþjóð sem enn
stendur í varnarstríði við árásaraðilann, og að með samþykkt samningsins hefðu Úkraínumenn þurft að sætta sig
við að verða nánast efnahagsleg nýlenda Bandaríkjanna um fyrirsjáanlega framtíð.
Volodymyr Zelensky Úkraínuforseti hafnaði alfarið fyrstu drögunum að auðlindasamningi sem Bandaríkjastjórn sendi stjórnvöldum í Kænugarði og kallar eftir ákvæði um að Bandaríkin tryggi framtíðarfrið í Úkraínu, gegn aðgengi að auðlindum landsins. Hann hefur ekki fengið vilyrði fyrir neinu slíku. EPA-EFE – OLIVIER HOSLET
Sjálfur orðaði Volodymyr Zelensky Úkraínuforseti þetta eitthvað á þá leið, að
Bandaríkin væru að reyna að þvinga hann til að skrifa undir samning sem myndi
neyða „tíu kynslóðir Úkraínumanna“ til að borga brúsann, og undir það
myndi hann aldrei skrifa. Kröfurnar voru víða fordæmdar og sagðar líkjast meira
illa dulbúinni kúgun en samningi við vinaþjóð.
Trump segir nýjan samning verða undirritaðan í Washington á föstudag
Nú berast þær fréttir að samningur sé í burðarliðnum um aðgengi Bandaríkjamanna
að auðlindum Úkraínu, en þó í minna mæli og á öðrum forsendum en í fyrri drögum,
og að sá samningur verði jafnvel undirritaður í Washington strax á föstudag, þegar Zelensky sækir Trump heim.
Haft er eftir Denys Shmyhal, forsætisráðherra Úkraínu, að í samningnum sé kveðið á um einskonar fjárfestingasjóð sem
ætlað er að fjármagna endurreisn Úkraínu að stríði loknu, og lúti sameiginlegri stjórn Bandaríkjamanna og Úkraínumanna.
Úkraína skuldbindi sig til að leggja helming af framtíðararði allra auðlinda landsins í sjóðinn, og Bandaríkjamenn komi
með framlög á móti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að skrifað verði undir samninginn í Washington föstudaginn 28. febrúar – en að allt tal um að tryggja öryggi Úkraínu verði að bíða. AP – Alex Brandon
Vill ákvæði um að Bandaríkin tryggi frið í Úkraínu – en fær það ekki í gegn
Úkraínuforseti hefur lagt áherslu á að í samningnum sé ákvæði um að Bandaríkin
skuldbindi sig til að tryggja öryggi Úkraínu gegn frekari árásum í skiptum fyrir
aðgang að auðlindunum. Hann greindi frá því á miðvikudag, að slík ákvæði væru
enn ekki í samningnum, en að hann vildi enn fá þau inn. Trump fullyrðir að
samningurinn verði undirritaður á föstudag. Aðspurður, hvað Úkraínumenn fái út úr
honum, sagði Trump, „350 milljarða dollara, hergögn og réttinn til að berjast áfram.
“ Um öryggistryggingu fyrir Úkraínu sagði hann, að það mál yrði skoðað síðar.
Það eftirsóttasta varla sýnt og alls ekki gefið
En hvað er það sem Trump og stjórn hans ásælast svo mjög austur í Úkraínu?
Þar er fyrst að telja svonefnda sjaldgæfa jarðmálma – sem reyndar eru ekki sérlega sjaldgæfir. Þetta eru sautján frumefni; yttrín,
skandín og fimmtán svonefndir lantaníðar. Þessi efni eru mikilvæg við framleiðslu á alls kyns rafeindabúnaði, svo sem seglum,
rafhlöðum, LED-ljósum og ýmsum hergögnum og hátæknibúnaði. Kínverjar framleiða allra þjóða mest af þeim, og Bandaríkin
leita allra leiða til að þurfa ekki að vera upp á þá komin við öflun þeirra.
Fullunnin jarðmálmaoxíð. Aftasta röð frá vinstri: Gadólín, praseódým og serín. Miðröð frá vinstri: Samarín og lanþan. Fremst: Neódým. Wikipedia/Landbúnaðarráðuneyti Bandaríkjanna – Peggy Greb
Gallinn er sá, að þótt vitað sé að sjaldgæfir jarðmálmar fyrirfinnist í úkraínskri jörð, þá er lítið vitað um hversu mikið það er.
Engar jarðmálmanámur eru í landinu og ekki vitað með vissu um nein jarðlög sem innihalda þessi efni í vinnanlegu magni,
segir jarðfræðingurinn Robert Möckel í umfjöllun þýska tímaritsins Der Spiegel.
Að auki er stór hluti þess sem þó er eitthvað vitað um grafinn djúpt í austurhéruðum Úkraínu, sem Rússar hafa sölsað undir
sig. Rússlandsforseti hefur reyndar boðið Bandaríkjamönnum samstarf um námuvinnslu „á nýju svæðunum“ eins og hann
orðaði það í sjónvarpsviðtali. „Við erum reiðubúnir að vinna þar með samstarfsþjóðum okkar, þar á meðal Bandaríkjunum,“
sagði Pútín. Það breytir þó ekki mati jarðfræðingsins Möckel, sem telur ólíklegt að svo mikið sem gramm af sjaldgæfum
jarðmálmum verði flutt frá Úkraínu til Bandaríkjanna næstu tíu árin hið minnsta.
Liþíum og málmgrýti
En Úkraína lumar á fleiri auðlindum. Þar á meðal er um þriðjungur alls liþíums sem vitað er um í Evrópu. Liþíum er
ómissandi í bílarafhlöður og hvers kyns hleðslubatterí, og þar með lykilmálmur í orkuskiptum heimsins. Hér gildir
þó sama og um sjaldgæfu jarðmálmana: Nær engin liþíumvinnsla hefur verið í Úkraínu og óvíst hvernig sú vinnsla
mun ganga, ef af verður. Þá er um fjórðungur liþíumsins á hernumdu svæðunum. Það á líka við um næstum helming
alls málmgrýtis. Sá helmingur sem enn er á valdi Úkraínumanna er þó ekkert smáræði, því magn járn-, mangan- og
kvikasilfursgrýtis í Úkraínu er með því mesta sem þekkist í heiminum og því eftir miklu að slægjast. Málmgrýtið
hefur líka þann kost að það er mun auðsóttara en fyrrnefndu jarðefnin, vitað hvar það er og löng hefð fyrir vinnslu
þess í landinu. Þá er Úkraína í tíunda sæti yfir títaníum- og úranauðugustu lönd heims.
Stór hluti þekktra og ætlaðra auðlinda í úkraínskri jörðu er í austanverðu landinu, á svæðum sem Rússar hafa lagt undir sig með gegndarlausum árásum. Þar eru innviðir víða rústir einar og óhægt um vik að nálgast auðlindir á borð við kol, því námurnar hafa margar verið eyðilagðar í sprengjuregninu. AP – Stringer
Billjón rúmmetrar af gasi og 30 milljarðar tonna af kolum
Það vantar heldur ekki jarðgas í Úkraínu. Talið er að rúmlega billjón – milljón milljónir – rúmmetra af því sé þar að f
inna, sem er það þriðja mesta í Evrópu á eftir Rússlandi og Noregi. En – um fimmtungur þessara gaslinda er á herteknu
svæðunum, og stór hluti lindanna vestast í landinu er undir Karpatafjöllunum og því erfitt að sækja gasið.
Auk þess eru allir innviðir til gasvinnslu í skötulíki, þar sem Úkraínumenn sóttu til skamms tíma allt sitt gas austur til Síberíu.
Fram að innrásinni fluttu Úkraínumenn allt sitt gas inn frá Rússlandi, aðallega Síberíu, Erfitt gæti reynst að sækja gas í gaslindir Úkraínu, sem sumar eru óaðgengilegar, og litlir sem engir innviðir til leitar, borunar og vinnslu til staðar í landinu. EPA – EPA-EFE
Loks eru það steinkolin. Af þeim eru yfir 30 milljarðar tonna í úkraínskri jörð, meira en í nokkru öðru Evrópulandi að
Rússlandi frátöldu. En – enn og aftur – stór hluti, reyndar tveir þriðju hlutar kolanna er á herteknu svæðunum. Þar að
auki reikna stjórnvöld í Kænugarði ekki með því að geta sótt kol þangað í bráð jafnvel þótt þeir endurheimti landið,
því námurnar eru meira og minna ónýtar eftir sprengjuregn Rússa.
Matarkista Evrópu
Við þetta er svo því að bæta að Úkraína er eitt gróskumesta land heims og jarðvegurinn óvíða frjósamari en einmitt þar.
Ræktarland er hvergi meira í Evrópu en í Úkraínu, sem framleiddi meira af sólblómafræjum og sólblómaolíu fyrir
innrásina en nokkuð annað land í heiminum og var fimmta mesta hveitiútflutningsríki heims.
Úkraína hefur verið kölluð matarkista Evrópu, enda jarðvegur þar frjósamari en víðast annars staðar og óvíða í heiminum er hlutfall ræktarlands af heildarflatarmáli hærra. EPA – EPA-EFE
Ekki hefur komið fram, hvort landbúnaðarafurðir falli undir auðlindasamninginn við Bandaríkin, en hitt er vitað, að
í fyrstu drögum samningsins kröfðust Bandaríkjamenn yfirráða eða í það minnsta óhefts aðgangs að höfnum landsins,
mikilvægustu útflutningsleiðinni fyrir úkraínskar landbúnaðarafurðir.
Miklar auðlindir en verðgildið þó langt undir 500 milljörðum dala
Sem fyrr segir hefur innihald auðlindasamningsins enn ekki verið birt og allar tölur enn á reiki. Jarðfræðingurinn
Anouk Borst fullyrðir þó í samtali við Spiegel að þessir 500 milljarðar dollara sem Trump krafðist upphaflega í formi
sjaldgæfra jarðmálma og annarra mikilvægra málma og efna séu algjörlega út úr kortinu.
Markaðsvirði sjaldgæfra jarðmálma á heimsvísu, segir hún, er áætlað tæpir fjórir milljarðar dollara, og jafnvel þótt
málmgrýti og mikilvæg hráefni á borð við títaníum, grafít og liþíum séu höfð með í reikningnum verður útkoman
aðeins 64 milljarðar dollara – á heimsmarkaðnum, þar sem hlutur Úkraínu er tiltölulega lítill.
En hvaðan kemur þá þessi tala, 500 milljarðar dala? „Ekki hugmynd,“ segir Borst, en svona „heimskulegir frasar“
sýna glöggt, að hennar mati, að allt snúist þetta um auðlindir og að hagsmunir eigin hagkerfis séu mönnum
mikilvægara en allt annað – „líka mikilvægara en friður, mannréttindi, öryggi og velferð“ fólks.