Carbfix – Niðurdæling CO2 Straumsvík
Grein/Linkur: Viðskiptaáætlun Carbfix: Földu áform sín fyrir íbúum
Höfundur: Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson Heimildinni, Valur Grettisson Heimildinni
.
.
Janúar 2025
Viðskiptaáætlun Carbfix: Földu áform sín fyrir íbúum
Fyrirætlanir Carbfix eru mun umfangsmeiri en fram hefur komið. Stefnt er að því að dæla niður allt að 4,8 milljónum tonna af koldíoxíði (CO2) og fyrirtækið vonast til þess að velta hátt í þrjú hundruð milljörðum á fullum afköstum. Það er hærri upphæð en stærsta fyrirtæki landsins veltir í dag. Á meðal viðskiptavina er fyrirtæki sem framdi glæp gegn mannkyni og vill dæla niður CO2 á Íslandi.

Skyggnst inn í heim Carbfix. Heimildin rýnir í fjárfestingakynningu Carbfix þar sem má finna ítarlegar upplýsingar um framtíðaráætlanir Carbfix. Mynd: Carbfix
Carbfix, fyrirtæki Orkuveitunnar sem fargar kolefnum með því að dæla þeim ofan í jörðina, stefnir að mun meiri niðurdælingu á koldíoxíði í Hafnarfirði en íbúum hefur verið sagt frá. Fyrirtækið stefnir að niðurdælingu í gegnum verkefni sem hefur fengið nafnið Coda Terminal í útjaðri bæjarins. Carbfix hefur gert viljayfirlýsingu við fyrirtæki sem hefur hlotið dóm fyrir glæpi gegn mannkyni um að taka við og dæla niður í íslenska jörð meira en tveimur milljónum tonna af CO2. Fyrirtækið neitar því að það ætli að dæla meira niður, en áréttar að ef áhugi væri á slíku í framtíðinni, fæli það í sér nýtt verkefni sem yrði lagt fyrir í nýju umhverfismati. Í viðskiptaáætlun fyrirtækisins segir að sótt verði um auknar heimildir til niðurdælingar, í fyrsta ársfjórðungi árið 2026.
Þær áætlanir Coda Terminal sem hafa verið kynntar fyrir íbúum ganga út á að flytja inn og dæla niður þremur milljónum tonna af koldíoxíði, eða CO2, í jörðina nærri Vallarhverfinu í Hafnarfirði. Í viðskiptaáætlun fyrirtækisins kemur hins vegar fram að sækja eigi um annað umhverfismat á næsta ári og óska eftir að dæla mun meira magni en það ofan í jörðina.
Koldíoxíðinu á að safna saman erlendis og flytja hingað til lands sjóleiðina. Var áætlað að full starfsemi hæfist í Hafnarfirði árið 2032. Bæjarbúar í Hafnarfirði hafa mótmælt þessum áformum harðlega og er svo komið að bæjarstjórn hefur samþykkt að efna til íbúakosninga vegna verkefnisins.
Fjölmörgum spurningum er enn ósvarað varðandi rekstur og umgjörð Carbfix sem er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur. Heimildin hefur undir höndum margvísleg gögn sem félagið sjálft hefur látið gera. Meðal annars viðskiptaáætlun þar sem fjallað er um áætlanir Carbfix til næstu fimmtán ára eða svo. Orkuveitan hefur samþykkt lánafyrirveitingu upp á sjö milljarða til Carbfix á meðan félagið bíður þess að ná samningum við fjárfesta.
Fyrirtækið stefnir á að velta hátt í þrjú hundruð milljörðum um miðjan næsta áratug og skila hátt í 200 milljörðum í hagnað. Þá áætlar Carbfix að starfsemi þess muni vaxa um 2.600 prósent á aðeins tíu árum.
Borgarlögmaður og fjármála- og áhættusvið Reykjavíkurborgar hafa viðrað áhyggjur sínar af áhættusækinni starfsemi Carbfix í sérstakri greinargerð sem unnin var um stofnun Carbfix hf. og Coda Terminal árið 2021. Þar er REI-málið nefnt sem víti til varnaðar. Stjórn og eigendur brugðust við athugasemdunum með því að breyta lögum um kjarnahlutverk Orkuveitunnar og sníða að starfsemi Carbfix. Svo virðist sem nær engin umræða hafi farið fram í borgarstjórn um þá meiri háttar ákvörðun að breyta kjarnahlutverki Orkuveitu Reykjavíkur.
Heimildin er með lista yfir fyrirtæki sem hafa gert viljayfirlýsingu um förgun á koldíoxíði í gegnum Carbfix. Á meðal þeirra eru alræmd fyrirtæki sem hafa ítrekað brotið gegn umhverfislögum um allan heim, auk fyrirtækis sem var fundið sekt fyrir bandarískum dómstólum fyrir glæpi gegn mannkyni.
Heimildin fjallar um viðskiptahluta Carbfix í þessari grein, sem er sú fyrsta í röð greina um starfsemi félagsins og tækni tengdri kolefnisföngun og förgun.
Stefna á 60 prósenta stækkun
Í 120 blaðsíðna fjárfestingarkynningu Carbfix kemur fram að fyrirtækið stefni á að dæla niður allt að 4,8 milljónum tonna á hverju ári í Straumsvík árið 2028. Sótt verði um nýtt umhverfismat árið 2026 þar sem farið verður fram á að fyrirtækið fái heimild til þess að dæla meira af magni niður. Bandaríski bankinn Morgan Stanley sá um að gera kynninguna fyrir Carbfix sem lögð var fyrir fjárfesta í júlí árið 2023. Bandaríski fjárfestingasjóðurinn EIG Global Partners er eini fjárfestingasjóðurinn sem er í viðræðum við Carbfix um fjárfestingu í Coda Terminal en samningar hafa ekki tekist enn, einu og hálfu ári síðar.
Tekið er fram að núna sé eingöngu verið að sækja um leyfi hjá yfirvöldum vegna niðurdælingar á þremur milljónum tonna af CO2, en markmiðið sé að nýta getu hafnarinnar til þess að flytja inn allt að 10 milljónir tonna af koldíoxíði á ári og sótt verði um auknar heimildir. Í kynningum og á fundum með íbúum og bæjarfulltrúum Hafnarfjarðar hefur aldrei verið minnst á þessi markmið. Það staðfestir Valdimar Víðisson, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar. „Ég hef ekki heyrt um þetta,“ sagði hann. „Það hefur alltaf verið talað við okkur um þessar þrjár milljónir tonna.“
Valdimar tók við sem bæjarstjóri í byrjun árs en hann var formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar þegar verkefnið var kynnt fyrir honum.
Sú áætlun sem Carbfix kynnir fjárfestum gerir ráð fyrir 60 prósenta meiri niðurdælingu en sú ætlun sem bæjarstjórninni var kynnt.
Carbfix og Hafnarfjarðarbær kynntu hugmyndir félagsins um áætlanir Coda Terminal á kynningarfundi íbúa í maí 2024, tæpu ári eftir að fjárfestingaráætlunin var kynnt fyrir EIG. Þar kom skýrt fram í svörum framkvæmdastjóra Carbfix, Eddu Sif Aradóttur Pind, að stefnt væri að niðurdælingu á þremur milljónum tonna. Spurð sérstaklega hvort það stæði til að stækka framleiðsluna seinna meir, svaraði hún:
„Þetta er verkefnið eins og við erum að hanna það, við fórum í umhverfismat fyrir verkefni á fullum skala, byggjum upp í áföngum, völdum að fara í fullt umhverfismat í upphafi, þannig, eins og ég segi, þetta er verkefnið. Við sjáum á þessu stigi ekki fyrir okkur frekari stækkun,“ sagði Edda Sif en bætti þó við: „Ef vel gengur, það er mögulegt, við þurfum bara að sjá til, við ætlum fyrst að byggja þetta.“
Á þessum tímapunkti lá skýrt fyrir í viðskiptakynningu fyrir EIG að það væri stefnt að því að sækja um leyfi til aukinnar niðurdælingar árið 2026. Svo vonast fyrirtækið til þess að niðurdælingin hefjist árið 2028.

Áætlanir um leyfisveitingarCarbfix setur saman tímalínu yfir þau leyfi sem það er komið með og hyggst sækja um. 1. Árið 2026 áætlar Carbfix að sækja um umhverfismat (EIA) hjá Umhverfisstofnun til þess að auka niðurdælingu um 60% og dæla þá niður alls 4,8 milljónum tonna af CO2 á ári. Fyrirtækið telur að málsmeðferðin taki um 18–24 mánuði. 2. Tekið er sérstaklega fram í áætluninni að upplýsingarnar eru byggðar á framtíðaráætlunum fyrirtækisins. 3. Fyrirtækið stefnir á að fullnýta höfn í Straumsvík og flytja inn 10 milljónir CO2 á ári. 4. Fyrirtækið áætlar að niðurdæling á 4,8 milljónum tonna af CO2 hefjist árið 2028. Mynd: Carbfix
Þrjár stöðvar á Íslandi
Samtals stefnir fyrirtækið því á að dæla niður yfir 14 milljónum tonna af CO2 á hverju ári niður í íslenskt berg í þremur starfsstöðvum. Það þýðir að fyrirtækið muni nota allt að 360 milljarða lítra af vatni árlega til niðurdælingar, sé miðað við það magn sem tilkynnt hefur verið um að verði nýtt við niðurdælingu nærri Straumsvík.
Stöðin í Hafnarfirði á að vera sú fyrsta en sú næsta er áætluð í Helguvík. Tilraunaborhola er nú þegar í Helguvík þar sem fyrirtækið rannsakar hvort hægt sé að nota sjó til niðurdælingar í stað ferskvatns. Þriðja stöðin er svo áætluð í Þorlákshöfn og hefur verkefnið verið kynnt fyrir sveitarstjórn, samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar. Engin ákvörðun hefur verið tekin á sveitarstjórnarstiginu um niðurdælingarstöðvar Coda Terminal, hvorki í Þorlákshöfn né Helguvík. Allar þessar stöðvar eiga að hafa getu til þess að dæla 4,8 milljónum tonna af koldíoxíði og kemur ítrekað fram í viðskiptáætlun Carbfix.
Áætlað var að framkvæmdir myndu hefjast í Helguvík strax í ár og starfsemin yrði komin á fullt skrið árið 2028. Til stóð að hefja framkvæmdir í Ölfusi árið 2026 og starfsemin að hefjast árið 2029.
Forsvarsfólk Carbfix stefnir líka á útrás. Ef áætlanir fyrirtækisins ganga eftir mun það dæla 56 milljónum tonna af CO2 niður í berg um allan heim árið 2035 árlega. Ákvörðun um íbúakosningu í Hafnarfirði hefur seinkað þessum áformum um að minnsta kosti eitt ár. Upphaflega var vonast til þess að hefja framkvæmdir í ágúst 2024 og að full starfsemi hæfist í Hafnarfirði árið 2032.
Hafnfirðingar tortryggnir
Hart hefur verið deilt um staðsetningu niðurdælingarstöðvar Carbfix, Coda Terminal í Hafnarfirði. Niðurdælingin verður nærri Vallarhverfinu og óttast íbúar ónæði af starfseminni. Ekki er hægt að útiloka jarðskjálfta sem tengjast niðurdælingu á koldíoxíði í jörðina auk þess sem íbúar eru tortryggnir á áreiðanleika geymslu koldíoxíðs í jörðu. Eins eru uppi áhyggjur um áhrif niðurdælingar á umhverfið í kring, svo sem umfangsmikið vatnakerfi sem er undir Reykjanesinu. Skipulagsstofnun fer nú yfir ábendingar því tengdu.
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar tilkynnti um það seint í haust að íbúar fengju að kjósa um málið. Þá þyrfti einnig að meta hver fjárhagslegur ávinningur bæjarbúa yrði af verkefninu að sögn bæjarfulltrúa.
Það er hins vegar mikið í húfi fyrir eigendur Carbfix, sem ætla að hagnaður af starfseminni eingöngu á Íslandi verði árið 2040 orðinn um 570 milljónir dollara, jafnvirði 80 milljarðar íslenskra króna, samkvæmt fjárfestingakynningu Morgan Stanley fyrir Carbfix.
Áætlað er að fyrirtækið velti um tveimur milljörðum dollara árið 2035, þegar Coda Terminal hefur náð fullum afköstum og með starfsstöðvar um allan heim. Af því verði hagnaður fyrir skatta um 1,2 milljarðar dollara – allt að 64 prósent af veltunni. Það er jafnvirði 269 milljarðar króna veltu á ári og rúmlega 165 milljarða króna hagnaði. Samkvæmt sömu áætlun átti velta fyrirtækisins nú í ár þegar að vera orðin um 10 milljarðar króna og hagnaðurinn yfir 5 milljarðar hefðu áætlanir staðist. Þetta þýðir að á 10 árum áætlar fyrirtækið að það auki veltu sína um 2.600 prósent. Eins og áður hefur komið fram hafa þessar tímasetningar riðlast. Þær gefa þó glögga mynd af framtíðaráætlunum Carbfix og gróðavon.
Til þess að setja væntingar Carbfix í samhengi verður velta þess meiri en velta stærsta fyrirtækis Íslands þessa stundina, Marel, þegar allar niðurdælingarstöðvarnar eru komnar í fulla nýtingu út um allan heim. Marel er með starfsstöðvar í yfir 30 löndum, með 7.500 starfsmenn og er 40 ára gamalt fyrirtæki. Velta þess á síðasta ári voru 257 milljarðar.

Mynd: Heimildin
Erfitt að fá fjárfesta
Þrátt fyrir stórhuga áætlanir hefur gengið erfiðlega að laða að einkafjárfesta að verkefninu og hefur það verið fjármagnað að öllu leyti fyrir almannafé hingað til.
Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur gefur mynd af vonum fyrirtækisins um fjárfesta og viðskiptavini í skýrslu frá árinu 2021. Skýrslan var birt í umsögn borgarráðs Reykjavíkur um málið. Þar var því haldið fram að fjöldi alþjóðlegra fjárfesta hefði þegar lýst yfir áhuga á aðkomu að „Carbfix-vegferðinni“ sem er fram undan. Meðal þeirra væru fyrirtæki á borð við Microsoft Climate fund, Equinor Invest, PaleBlueDot, Copenhagen Infrastructure Partners, Sumitomo Corporation, EDF Group og Credit Suisse. Ekkert þessara fyrirtækja hefur verið í samningaviðræðum við Coda Terminal um kaup á hlutafé eftir því sem Heimildin kemst næst, en einhver þessara fyrirtækja hafa til skoðunar hvort þau muni nýta þjónustu Coda Terminal um niðurdælingu á koldíoxíði, svo sem Sumitomo og EDF group.
Í ársreikningi Carbfix ohf., sem er móðurfélag Carbfix hf., kemur fram að ráðgert sé að fjármögnun Carbfix hf. hafi átt að ljúka árið 2024. Það hefur enn ekki gerst.
Fyrirtæki framdi glæp gegn mannkyni
Heimildin hefur undir höndum lista yfir fyrirtæki sem Carbfix á í viðræðum við um niðurdælingu á koldíoxíði. Fyrirtækin eru í sex flokkum: Álver, sementsfyrirtæki, stáliðnaður, efnaverksmiðjur, orkufyrirtæki og svo önnur fyrirtæki. Sum þessara fyrirtækja hafa verið gagnrýnd harðlega vegna mengunar. Eitt þeirra var ábyrgt fyrir svartri snjókomu nærri verksmiðjum sínum.

Væntanlegur viðskiptavinur Carbfix var dæmt fyrir glæpi gegn mannyni þegar það greiddi ISIS liðum tæpa tvö milljarða króna. Hér má sjá samning á milli Lafarge og ISIS. Mynd: b’Solomon, Alexander (USANYE)’
Fá fyrirtæki eru hins vegar með jafnsláandi sögu og fransk-svissneska sementsfyrirtækið Lafarge/Holcim. Svissneska fyrirtækið Holcim – sem gefur sig út fyrir að vera „leiðandi á heimsvísu í sjálfbærri uppbyggingu“ – sameinaðist franska fyrirtækinu Lafarge árið 2015 undir heitinu Lafarge/Holcim. Franska blaðið Le Monde ljóstraði upp árið 2016 að Lafarge greiddi ISIS-liðum nokkurs konar verndarskatt í borgarastyrjöldinni í Sýrlandi og fjármagnaði þannig hryllilegan hernað öfgasamtakanna. Alls greiddi fyrirtækið ISIS-liðum 13 milljónir evra. Markmiðið var að halda áfram starfsemi sementsframleiðslu í Sýrlandi þrátt fyrir borgarastyrjöldina. Lafarge/Holcim er fyrsta og eina fyrirtækið í sögunni sem hefur greitt sátt fyrir glæpi gegn mannkyni og þykir niðurstaðan marka tímamót en fyrirtækið játaði að vera samsekt fyrir brot ISIS. Fyrirtækið þurfti að greiða um 800 milljónir dollara í skaðabætur vegna þessa.
Í raun má segja að fyrirtækið hafi átt í samstarfi við ISIS þegar verst lét í borgarastyrjöldinni í Sýrlandi. Fyrirtækið verslaði einungis við aðila sem ISIS samþykkti og nýtti hermenn þeirra til þess að þrýsta á samkeppnisaðila.
Það var mannréttindalögmaðurinn heimsfrægi, Amal Clooney, sem sótti einn anga málsins fyrir hönd Yazida, sem voru ofsóttir af ISIS.

Viðskiptavinir Carbfix Á þessari glæru má sjá fyrirtæki sem Carbfix er í samskiptum við varðandi niðurdælingu á CO2, þar á meðal iðnað sem þeir telja að eigi erfitt með að kolefnisjafna sig. 1. Carbfix hyggst opna skrifstofur í þremur heimsálfum. Í hverrri heimsálfu má sjá fjölda ráðgjafarverkefna og mögulegra verkefna í framtíðinni en það hyggst einnig dæla niður CO2 í öðrum löndum en á Íslandi. 2. Carbfix á í samtali við fjölmörg fyrirtæki um niðurdælingu á CO2. Mynd: Carbfix
Fyrirtækið komst svo aftur í umræðuna þegar það bauð í umdeilt verkefni um að byggja vegginn fræga, sem Donald Trump hugðist reisa til þess að tryggja landamæri Bandaríkjanna við Mexíkó. Fyrrverandi forseta Frakklands, Emmanuel Macron, var endanlega misboðið af þessum ástæðum og gagnrýndi fyrirtækið harðlega opinberlega og sagði að fyrirtækið yrði að íhuga siðferðislegar hliðar slíkra viðskiptasamninga.
Í siðareglum Orkuveitunnar segir að fyrirtækið leggi sig fram um að auka virðingu sína í samfélaginu og taki ekki þátt í vinnu, verkefnum eða samskiptum sem kastað geta rýrð á orðspor þess. Dótturfélagið Carbfix hyggst engu að síður taka við 2,3 milljónum tonna af koldíoxíði frá tveimur verksmiðjum Lafarge/Holcim árið 2029, samkvæmt viðskiptaáætlun þess, og dæla ofan í jörðu hér á landi. Hafa fyrirtækin undirritað viljayfirlýsingu þess eðlis.
Magnið er um 77 prósent af heildarmagni CO2 sem Carbfix hefur sagt Hafnfirðingum að verði dælt niður. Í ljósi fyrirhugaðra umsvifa má ætla að magninu verði dreift á þær þrjár stöðvar sem Carbfix hyggst opna hér á landi, í það minnsta til að byrja með.
Árið 2021 skipti Lafarge/Holcim um nafn og heitir nú aðeins Holcim, þó að enn megi finna gamla vörumerkið þeirra í viðskiptaáætlun Carbfix. Fyrirtækið hefur sýnt vilja til þess að minnka kolefnisfótsporið sitt og meðal annars fjárfest í 80 fyrirtækjum í Evrópu fyrir um 160 milljónir dollara í von um að geta minnkað eigin losun um 15 prósent. Fyrirtækið losaði beint og óbeint 127 milljónir tonna af koldíoxíði á síðasta ári á heimsvísu. Áætlanir Carbfix munu því kolefnisjafna fyrirtækið um tvö prósent.
Blaðamaður Heimildarinnar fékk að hitta vísindamenn Carbfix á einum fundi í apríl á síðasta ári. Þar var yfirvísindamaður Carbfix, Sandra Ósk Snæbjörnsdóttir, spurð út í val á mögulegum viðskiptavinum Carbfix. Þá svaraði hún:
„Við höfum [ESG], því við vitum að ef við förum að fá CO2 frá fyrirtækjum sem eru á sama tíma að gera subbulega hluti í bakgarðinum sínum, það mun drepa okkur, þannig það er ekki skynsöm strategía af okkar hálfu að taka við hvaða koldíoxíði sem er. Þannig við höfum [ESG] mælikvarðann, sem til dæmis lítur á kolefnishlutleysisáætlun hjá öllum þeim fyrirtækjum sem við vinnum með. Því þetta er loftslagsiðnaður og við erum undir smásjánni.“
Svo Carbfix velur viðskiptavini sína?
„Að sjálfsögðu,“ svaraði Sandra Ósk.
ESG-mælikvarðinn er kerfi til þess að reikna út umhverfis-, félagslega- og stjórnunarhætti fyrirtækja. Lafarge/Holcim fær A- þegar kemur að umhverfismálum sem er yfir meðallagi þegar kemur að sementsverksmiðjum.
ESG er safn ófjárhagslegra aðgerða sem hafa bein áhrif á áhættustýringu, sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð fyrirtækja. Tilgangur mælikvarðans er að varpa ljósi á ESG-frammistöðu fyrirtækis til að auka gagnsæi til fjárfesta. Þær aðgerðir eru meðal annars loftslagsbreytingar, mannréttindi og launagreiðslur stjórnenda. Þessi mælikvarði er þó ekki óumdeildur.
Íslandsvinir á meðal viðskiptavina
Það fyrirtæki á listanum sem Íslendingar kannast helst við er Heidelberg, sem hugðist reisa verksmiðju í Þorlákshöfn. Þeim var hafnað í íbúakosningu fyrir jól eftir harðar deilur um mengandi iðnað fyrirtækisins.
Heidelberg hefur verið harðlega gagnrýnt víða um heim fyrir starfsemi sína á umdeildum svæðum, meðal annars á hernumdu svæði Ísraels í Palestínu og í Vestur-Sahara.
Heidelberg hefur þurft að greiða hundruð milljóna króna í sektir úti um allan heim, meðal annars í Bandaríkjunum og Bretlandi, vegna brota á umhverfisverndarlögum á síðustu tveimur áratugum. Eitt málið var sótt af Kamölu Harris, fráfarandi varaforseta Bandaríkjanna og forsetaframbjóðanda í bandarísku forsetakosningunum, en hún starfaði sem saksóknari áður en hún sneri sér að stjórnmálum.

Álverið í Straumsvík – Rio Tinto rekur álverið í Hafnarfirði, þar sem Carbfix verður einnig. Mynd: Golli
Annað fyrirtæki sem Íslendingar kannast vel við er álverið Rio Tinto sem er jafnframt eigandi álversins í Straumsvík. Saga þess er vel þekkt á Íslandi en síðasta hneykslið tengt Rio Tinto varð á Madagascar-eyjunni í Afríku á síðasta ári. Fyrirtækið var þá sakað um að vera ábyrgt fyrir mengun í drykkjarvatni, en i því fannst úraníum og blý.
Svört snjókoma
Annar stærsti stálframleiðandi veraldar, ArcelorMittal, er eitt fyrirtækjanna sem Carbfix hefur undirritað viljayfirlýsingu við. Fyrirtækið hefur verið gagnrýnt fyrir mengandi starfsemi, meðal annars út af svartri snjókomu í Kasakstan árið 2018, sem varð til vegna mengunar frá fyrirtækinu. ArcelorMittal hafnaði sök og sagði skort á vindi um að kenna, sem annars hefði blásið menguninni á brott.
Almenningur í Kasakstan brást illa við þegar svarti snjórinn birtist í janúar árið 2018 og gagnrýndi stjórnvöld harðlega á samfélagsmiðlum. Einn skrifaði meðal annars, samkvæmt BBC: „Við getum ekki lifað við þetta, við erum að kafna.“
Yfirvöld í Kasakstan fengu svo nóg af fyrirtækinu árið 2022 samkvæmt fréttaumfjöllun AFP, þar sem fram kom að stjórnvöld íhuguðu að banna ArcelorMittal að starfa í landinu eftir að starfsmaður stálverksmiðjunnar lést í vinnuslysi.
Það var sama ár og fyrirtækið var svo sektað fyrir að stela drykkjarvatni í Dunkirk í Frakklandi, þar sem helsta höfn fyrirtækisins er, sú sama og áætlað er að flytji CO2 til Íslands. Fyrirtækið losaði um 114 milljónir tonna af CO2 árið 2023. Á starfstíma sínum hefur fyrirtækið verið sektað fyrir margvísleg umhverfislagabrot um allan heim, fyrir samtals um einn og hálfan milljarð íslenskra króna.
Flókið eignarhald
Fyrirhugaður rekstur Coda Terminal og öll starfsemi Carbfix er í dag í endanlegri eigu íbúa Reykjavíkur, Akraness og Borgarbyggðar, í gegnum Orkuveitu Reykjavíkur, en það liggur í gegnum fjölda dótturfélaga. Eignarhaldsfélagið Carbfix ohf. var stofnað 1. október 2019 og er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur – Eigna ohf., sem er alfarið í eigu Orkuveitu Reykjavíkur. Opinbera hlutafélagið Carbfix stofnaði svo tvö félög, samkvæmt gögnum fyrirtækjaskrár, annars vegar Coda Terminal hf. þann 14. mars 2022 og loks Carbfix hf. þann 14. september 2022.
Dagur B. Eggertsson, þáverandi borgarstjóri, lagði fyrir sviðsstjóra fjármála- og áhættustýringarsviðs Reykjavíkurborgar og borgarlögmann árið 2021 að skrifa greinargerð um tillögu borgarráðs vegna stofnunar Carbfix hf. og Coda Terminal. Samþykkt var á eigendafundi í desember 2019 að stofnað yrði opinbert hlutafélag, CarbFix ohf., um þá starfsemi, sem áður var rekin innan Orkuveitu Reykjavíkur um varanlega bindingu koldíoxíðs í bergi. Rökstuðningur fyrir stofnun sérstaks félags um verkefnið fylgdi tillögunni, en þar er meðal annars fjallað um takmörkun áhættu fyrir móðurfélagið, þar sem áhætta þess takmarkast við hlutafé í félaginu. Það þýðir að ef það fer á hausinn tapast aðeins upphaflegt hlutafé, að lágmarki hálf milljón íslenskra króna. Ástæðan fyrir þessari miklu varúð er sú að Coda Terminal-verkefnið er áhættufjárfesting, sem þýðir að það eru umtalsverðar líkur á því að verkefnið gangi ekki upp.

Ráðhús Reykjavíkur – Rætt var ítarlega um stofnun Carbfix á lokuðum fundum Borgarráðs. Mynd: Bára Huld Beck
Eins kemur fram í greinargerðinni að það hafi komið í ljós að félagsformið, opinbert hlutafélag, takmarkar möguleika til að sækja um og afla styrkja, meðal annars frá Evrópusambandinu og Rannís. Því var gert ráð fyrir að félög sem stofnuð verða um hvert verkefni verði hlutafélög.
Þá segir enn fremur að það sé ljóst að þörf fyrir fjármagn sé meiri en svo að þess verði aflað með styrkjum og sölu ráðgjafar, heldur þurfi utanaðkomandi fjármögnun til að tryggja verkefnum brautargengi og til samræmis við upphaflegar forsendur um takmörkun fjárhagslegrar áhættu eigenda. Lögð er áhersla á að hið upphaflega hugverk verði áfram í eigu félagsins ohf. Er það gert svo Orkuveitan missi ekki úr höndunum einkaleyfi Carbfix á að umbreyta koldíoxíði í stein þegar því er dælt niður.
Lánafyrirveiting sjö milljarðar
Það var í því ljósi sem borgarlögmaður og fjármála- og áhættustýringarsvið borgarinnar víkur máli sínu að hagsmunum og heimildum sveitarfélaga varðandi stofnun Carbfix. Þá telja greinendur mikilvægt að rifja upp REI-málið svokallaða og fjalla um frumkvæðisathugun umboðsmanns Alþingis um meðferð eigendavalds og eftirlit sveitarfélaga með félögum í þeirra eigu sem byggir á REI-málinu frá árinu 2007. Augljós lærdómur af málinu var að sveitarfélög hafa takmörkuð áhrif til þess að verja hagsmuni sveitarfélagsins og þá sérstaklega í ljósi skyldu sveitarstjórnarmanna um að vernda hagsmuni útsvarsgreiðenda.
Eins hvílir rannsóknarskylda á hagsmunum útsvarsgreiðenda og að því megi ekki fylgja óviðunandi áhætta, tap fjármuna eða hagnaður annarra á kostnað sveitarfélagsins. Þá er vikið að kröfu um gagnsæi og fullt aðgengi að upplýsingum fyrir kjörna fulltrúa og almenning. Carbfix, líkt og önnur dótturfélög Orkuveitunnar, er öll undanþegin upplýsingalögum vegna samkeppnisaðstæðna. Þessa undanþágu veitir forsætisráðuneytið. Samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar er aðgangur borgarfulltrúa takmarkaður í ljósi flókins viðskiptaforms Carbfix og undirfélaga þess.

Bjarni Ármannsson fjárfesti í REI og Guðmundur Þóroddsson þáverandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur var forstjóri Orkuveituna. Guðmundur hætti störfum eftir að málið komst í hámæli. Mynd: Morgunblaðið/Frikki
REI-málið hafði miklar pólitískar afleiðingar. Borgarstjórnarmeirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hvellsprakk árið 2007 vegna málsins og pólitísk upplausn fylgdi á eftir.
Líkt og með Carbfix var stofnað sérstakt félag, Reykjavik Energy Invest, eða REI eins og það var kallað. Hlutverk REI var að nýta eignir, þekkingu og nýsköpun sem var innanhúss hjá Orkuveitu Reykjavíkur til að fara í útrás. Farið var af stað um allan heim að leita að viðskiptavinum. Meðal annars var áætlað að leita fanga í Indónesíu og Filippseyjum, en þar ætluðu REI-menn sér að komast í tugmilljarða fjárfestingar á vegum stjórnvalda þar í landi í orkuframleiðslu með jarðvarma.
Stjórnendur Orkuveitu Reykjavíkur ætluðu sér að hagnast um 112 milljarða króna á verkefninu, en Orkuveitan lagði sjálf fram 6,7 milljarða króna á núvirði í hlutafé við stofnun félagsins.
Til samanburpðar þá fékk Carbfix lánalínu upp á 2,8 milljarða hjá Orkuveitunni þar til hlutafjáraukningin gengi eftir árið 2023. Lánafyrirveiting var hækkuð upp í sjö milljarða í febrúar á síðasta ári samkvæmt ársreikningi Carbfix hf. Ef fyrirtækið fullnýtir þessa fjármuni og rekstur þess gengur ekki upp, er ljóst að fjármagnið muni tapast.
Stefna Orkuveitunnar var að verða 40 prósenta hluthafi í REI og hagnast um tugi milljarða á sölu hlutabréfa í félaginu. Þessu til hliðsjónar má benda á að þegar spár voru hvað bjartsýnastar í tengslum við niðurdælingarverkefni Carbfix, sá Orkuveitan fyrir sér að fá 61 milljarð fyrir sölu á hlutabréfum á næstu árum í bæði Gagnaveitunni og Carbfix. Orkuveitan varð að endurskoða fjárhagsspá sína til næstu fimm ára fyrir áramót. Vonir stóðu til að fjárfestingar í verkefninu skiluðu Orkuveitunni í kringum 60 milljörðum í gegnum fjárfestingar fyrir 2029. Það mat var svo lækkað niður í um 40 milljarða í uppfærðri fjárhagsspá, sem þurfti að breyta aðeins ári eftir að hún var samþykkt.
Ástæða þess að borgarstjórnarmeirihlutinn sprakk árið 2007 var áætlun stjórnenda Orkuveitu Reykjavíkur um að sameina félögin REI og Geysir Green Energy, en það síðarnefnda var fjárfestingarfélag í meirihlutaeign Glitnis banka og FL Group. Hannes Smárason var þá starfandi sem stjórnarformaður Geysir Green Energy.
Hið sameinaða félag átti að vera með einkasamning við Orkuveitu Reykjavíkur um sérfræðiþjónustu um jarðhitarannsóknir og markaðsmál og aðra tengda starfsemi. Ekki hefur komið skýrt fram hversu lengi sá einkasamningur átti að gilda, en talið er að áætlunin hafi verið að hann hafi átt að gilda í allt að 20 ár. Á stjórnarfundi Orkuveitu Reykjavíkur þann 1. október 2007 var ákveðið að starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur mættu kaupa hlut í hinu nýja sameinaða félagi. Þá áttu lykilstarfsmenn að fá að kaupa hluti á mun lægra verði en starfsmenn á plani. Miklar vonir voru bundnar við hið nýstofnaða félag og var búist við því að hlutabréfaverð myndi rjúka upp hratt. Áætlað var af stjórnendum Orkuveitunnar að verðmæti hins nýja félags, strax eftir sameiningu, yrði 145 milljarðar króna á núvirði.
Ekkert varð þó af sameiningunni á endanum og Guðmundur Þóroddsson, þáverandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, lét af störfum vegna málsins og Bjarni Ármannsson, fjárfestir, dró að lokum fjárfestingu sína í félaginu til baka. Félaginu var loks slitið árið 2020 eftir að hafa tapað yfir þremur milljörðum króna á núvirði frá stofnun þess ásamt því að allt upprunalega hlutafé var tapað, og heildartapið hljóp á milljörðum
Lítil umræða um kjarnahlutverk
Ekki finnast efnislegar umræður á vettvangi borgarstjórnar um þá áætlun að breyta kjarnastarfsemi Orkuveitunnar. Þvert á móti virðist lítil sem engin efnisleg umræða hafa farið fram um áætlanir Carbfix á opinberum vettvangi. Málið var hins vegar rætt ítrekað innan borgarráðs, oft í trúnaði, en umrædd greinargerð sem Heimildin hefur undir höndum var lengst af trúnaðargagn og lögð fyrir borgarráð á þeim forsendum. Þá var sérstakur þverpólitískur hópur settur á laggirnar við undirbúning á stofnun Carbfix og Coda Terminal. Þar voru lögð til afar þröng skilyrði sem hafa gert félaginu erfitt fyrir við leit sinni að fjárfestum. Orkuveitan hefur ekki leyfi til þess að selja meirihluta í Coda Terminal og Carbix hf. Það þýðir að leitað er að fjársterkum aðilum til þess að koma inn sem minnihlutaeigendum, sem geta þó aldrei haft meirihluta í stjórn þegar kemur að ákvarðanatökum. Þó er ætlast til að sömu aðilar fjármagni vegferð Carbfix. Heimild er til þess að breyta þessu með samþykki meirihluta borgarfulltrúa Reykjavíkurborgar. Öll þessi umræða fór meira eða minna fram fyrir luktum dyrum borgarráðs.
Í samandregnum niðurstöðum borgarlögmanns kemur fram að það var óvissa um lagaheimild fyrir rekstri Carbfix hf., en einnig um opinbera hlutafélagið Carbfix. Í kjölfarið var ákveðið að leggja það til við umhverfis-, orku- og auðlindaráðherra að leggja fram frumvarp þar sem kjarnahlutverki Orkuveitunnar yrði breytt og innihéldi nú Carbfix, og var það lagt fram vorið 2023 af Guðlaugi Þór Þórðarsyni, þáverandi umhverfisráðherra. Þrjár umsagnir bárust inn í samráðsgáttina þessu tengdu, þar af ein frá Skúla Sveinssyni lögmanni. Sá benti á að fyrirhugaðar fjárfestingar OR í Carbfix-verkefnum væru afar áhættusamar og féllu ekki að þeirri kjarnastarfsemi sem fyrirtækinu var ætlað að einbeita sér að. Svo sagði:
„Heimildir til handa OR til að fjárfesta í verkefnum á samkeppnismarkaði eru beinlínis til þess fallnar að auka fjárhagslega áhættu fyrirtækisins verulega, sem getur þá leitt til endurtekins fjárhagsvanda eins og gerðist í kjölfar hrunsins. Sérstaklega skal á það bent að ef OR lendir aftur í fjárhagsvandræðum eða stefnir í gjaldþrot þá eru eigendur þess, þá sérstaklega Reykjavíkurborg, þannig fjárhagslega staddir í dag að ólíklegt verður að telja að sveitarfélögin geti eða megi leggja OR til verulegt fjármagn, til dæmis í formi víkjandi lána til að bjarga því frá gjaldþroti ef illa kynni að fara.

Orkuveita Reykjavíkur – Kjarnahlutverki Orkuveitu Reykjavíkur var breytt til þess að Carbfix gæti orðið hluti af fyrirtækjasamstæðu félagsins. Mynd: Golli
Líkleg afleiðing endurtekins fjárhagsvanda OR er því að núverandi eigendur muni missa eignarhald sitt á fyrirtækinu. Af því leiðir að enn meiri ástæða er í dag til að gæta vars með allar fjárfestingar OR, sem ekki lúta beint að kjarnastarfsemi fyrirtækisins, sem er rekið í almannaþágu og á grundvelli sérstakra laga. Að heimila OR að fara út í samkeppnisrekstur er jafnframt til þess fallin að grafa undan réttmæti sérstöðu fyrirtækisins og þeirra sérlaga sem um starfsemi þess gilda. Að lokum skal á það bent að vafasamt verður að telja að nýta fjármuni skattborgaranna til að fjárfesta í áhættusömum verkefnum á samkeppnismarkaði eins og umrædd lagabreyting gengur jafnframt út á.“
Svo virðist sem þessi varúðarorð hafi ekki hreyft við þingmönnum. Umræðan var örstutt, tók innan við tíu mínútur, og þeir fáu sem tóku til máls voru ógagnrýnir gagnvart málinu. Það var svo samþykkt að lokum, þrátt fyrir að Alþingi takmarkaði heimildir Orkuveitunnar verulega árið 2014 vegna vafasamra fjárfestinga Orkuveitunnar í gegnum tíðina, allt frá hörverksmiðjum upp í risarækjueldi.
Mikil áhætta Hafnfirðinga
Uppbyggingarhugmyndir Carbfix og Coda Terminal voru fyrst kynntar fyrir bæjarstjórn Hafnarfjarðar árið 2021. Í kjölfarið var ákveðið að rita undir viljayfirlýsingu við Coda Terminal og Carbfix. Þannig skuldbatt Hafnarfjarðarbær sig til þess að leitast við að tryggja Coda Terminal svæði nærri álverinu í Straumsvík. Enn fremur stóð til að byggja höfn fyrir starfsemina, sem Deloitte mat sem svo að myndi kosta að minnsta kosti rúma níu milljarða króna. Sá kostnaður getur orðið um 14 milljarðar með tveimur viðleguköntum til viðbótar, sem yrðu þá nýttir fyrir starfsemi Hafnarfjarðarbæjar.
Heimildin hefur undir höndum kynningu Deloitte þar sem mögulegar hafnarframkvæmdir eru teknar út og kynntar fyrir ráðamönnum Hafnarfjarðarbæjar. Samkvæmt skýrslunni eru helstu áhættuþættirnir tveir. Annars vegar framkvæmdaáhætta, svo sem ef verkefnið dregst á langinn. Þannig getur kostnaður aukist umtalsvert eins og þekkt er með fjölmargar opinberar framkvæmdir í gegnum tíðina. Hins vegar að áhættufjárfesting Coda Terminal beri engan ávöxt og fari á hausinn. Áætlað er að tekjur hafnarinnar séu nær alfarið sóttar í rekstur Coda Terminal – allt að 91 prósent teknanna. Því er ljóst að um gífurlega áhættu er að ræða fyrir sveitarfélagið, á meðan Orkuveitan hefur þegar varið sig bæði með belti og axlaböndum í ljósi sérstæðs viðskiptaforms þar sem aðeins hlutafé í einkahlutafélaginu myndi tapast ef illa færi. Hafnarfjörður sæti hins vegar uppi með gífurlegar hafnarframkvæmdir sem skiluðu ekki tilætluðum tekjum ef versta sviðsmyndin gengi eftir.
Af þessum ástæðum hafa bæjarfulltrúar Hafnarfjarðar hafnað þeirri hugmynd að fjármagna hafnarframkvæmdirnar með lánsfé. Valdimar Víðisson, núverandi bæjarstjóri Hafnarfjarðar, segist þó eiga í viðræðum við Carbfix um að þeir greiði fyrirframgreidd hafnargjöld til þess að standa straum af kostnaði framkvæmdanna. Ef það gengur ekki eftir er annar möguleiki á að finna þriðja aðila til þess að fjármagna höfnina. Það þýðir að útsvarsgreiðendur fengju mun minni tekjur af starfseminni allri.
„Það var alveg ljóst í huga okkar, að við erum ekki að fara að taka neina áhættu,“ sagði Valdimar í samtali við Heimildina í nóvember síðastliðnum þegar blaðamaður ræddi við hann um málið. „Sem þýðir að fjármögnun hafnarinnar þarf að vera alveg tryggð, í góðu samkomulagi við Coda Terminal og/eða einhverja aðra sem kæmu að slíkri fjármögnun,“ bætti hann við. Valdimar sagði enn fremur að bærinn gerði kröfu um langtímasamninga hvað varðar viðskipti við höfnina.
Málið er því í pattstöðu eins og sakir standa, en ekki hefur verið tilkynnt um samkomulag milli bæjarins og Coda Terminal hvað varðar höfnina enn sem komið er.
Er Carbfix samkeppnishæft?
Viðskiptaáætlanir Carbfix eru stórhuga. En eftir stendur spurningin hvort þær séu raunhæfar. Til þess að gera sér grein fyrir því, þarf fyrst að skilja ETS kerfið. Það er oft álitið hornsteinn loftslagsáætlana Evrópusambandsins en því var komið á fót árið 2005 og er viðskiptakerfi með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda. Kerfið er í almennu tali nefnt ETS, sem stendur fyrir Emission Trading System. Í einföldu máli er um nokkurs konar skattkerfi að ræða þar sem fyrirtæki þurfa að greiða fyrir hvert tonn af koldíoxíði sem það losar umfram heimildir sem það hefur til losunar. Hagsmunir atvinnulífsins eru því beintengdir við kerfið. Hvatinn er hugsaður sem svo að fyrirtæki leiti í endurnýjanlega orku og þannig nái þau kostnaði niður þegar kemur að ETS kerfinu, sem fór hæst upp í um 106 evrur á hvert tonn af CO2 í mars 2023. Þeim mun meira sem fyrirtæki losa koldíoxíð, þeim mun fleiri ETS einingar þarf það að fjárfesta í og greiða fyrir.
Kostnaðurinn við hverja ETS einingu hefur hins vegar lækkað og er nú í um 75 evrum á hvert tonn af CO2. Verðið fór lengst niður í 54 evrur á árinu 2024, en var að meðaltali á milli 60 og 70 evrur árið 2024. Ástæðan fyrir verðbreytingunum er flókin en samanstendur í einföldu máli af aukinni framleiðslu á grænni orku, svo sem vind- og sólarorku, og svo ákvörðunum stjórnvalda tengdum auknum losunarheimildum fyrirtækja sem velta á stjórnvöldum hverju sinni.
Viðskiptagrundvöllur CCS tækninnar, það er kolefnisföngunar og -förgunar, er að undirbjóða ETS einingarnar. Því dýrari sem þær eru, þeim mun hagstæðara verður fyrir fyrirtæki að kaupa ódýrari þjónustu af föngunar- og förgunarfyrirtækjum. Carbfix áætlar að kostnaðurinn við niðurdælingu og flutningar á CO2 frá höfn í Evrópu til Íslands, verði á bilinu 54 til 63 evrur á hvert tonn. Þá áætlar Carbfix að hægt sé að ná þessum kostnaði niður í allt að 45 til 52 evrur hvert tonn, að því gefnu að stærri skip verði notað til flutninga. Þau skip eru hins vegar ekki til í dag, en þau eiga að geta tekið allt að 55.000 tonn af CO2 í vökvaformi. Nýjasta skipið sem sérhæfir sig í flutningi á CO2 var afhent í nóvember 2024, til eins helsta samkeppnisaðila Carbfix, og getur flutt um 8.250 tonn af CO2 í vökvaformi. Til þess að stærri skip geti verið notuð af Carbfix þarf djúphöfn að vera í Straumsvík vegna stærðar skipanna sem munu flytja efnið til Íslands. Kostnaðarverð Carbfix segir þó aðeins hálfa söguna.
Í dag felst langmesti kostnaðurinn í því að safna koldíoxíði. Sá kostnaður er ekki reiknaður inn í tölur Carbfix. Þá fylgir mikill kostnaður geymslu og flutningum á CO2 frá mengunaraðila til hafnar þar sem Carbfix sækir koldíoxíið. Þessi kostnaður getur verið gríðarlega hár. Þá er vert að minnast á Climeworks, eitt af örfáum fyrirtækjum í heiminum sem fangar CO2 beint úr andrúmsloftinu, sem er í náinni samvinnu við Carbfix og hefur ítrekað verið fjallað um í fjölmiðlum um allan heim. Climeworks selur tonnið af CO2 á um 1450 evrur, eða um 210 þúsund krónur, sem er ekki nálægt því að vera samkeppnishæft við ETS einingarverð. Þýski vélaframleiðandinn MAN framleiðir vél sem getur gripið CO2 úr útblæstri iðnaðar sem losar mikið magn af CO2 í framleiðslu sinni. Eingöngu 28 þannig vélar hafa verið seldar frá árinu 2012 og eru að mestu notaðar af olíu- og gasiðnaði til að safna koldíoxíði sem er svo dælt niður í gamlar olíulindir til að endurheimta meiri olíu.
Samkvæmt upplýsingum MAN er meðalkostnaðarverð við að sækja hvert tonn af CO2 um 85 evrur. Þessi kostnaður á hvert tonn af CO2 er ekki heldur samkeppnishæfur við ETS einingarkerfið eins og staðan er í dag þar sem einingin kostar um 70 evrur. Carbfix fangar engan CO2, heldur fargar honum eingöngu, og byggir því tilvist sína á því að föngunaraðilar nái að lækka verðið á kostnaði við að fanga CO2, sem er kostnaðarsamt ferli.
Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitunnar, lét hafa eftir sér í viðtali við Morgunblaðið í október á síðasta ári, að því væri spáð að kostnaður vegna ETS einingarinnar færi upp í um 140 evrur hvert tonn. Talan sem er nefnd er engin tilviljun; ef ETS einingarnar hækka svo mikið, verður tækni á borð við Carbfix mögulega samkeppnishæf við ETS einingarnar. Því hefur ítrekað verið spáð að ETS einingarnar hækki en samkvæmt greiningaraðilum er áætlað að einingarnar verði áfram á svipuðu reki fram til ársins 2030, eða í kringum 75 evrur. Þó er áætlað að einingarnar fari svo hækkandi á seinni hluta næsta áratugar.
Það sem er þó umhugsunarvert er að Carbfix og Climeworks telja sig hluta af lausninni þegar kemur að loftslagsvandanum, á sama tíma ætla fyrirtækin í beina samkeppni við viðskiptakerfi ESB, sem gengur út á að hvetja fyrirtæki til þess að leita í endurnýjanlega orkugjafa, sem er yfirlýst markmið kerfisins og helsta lausnin við loftslagsvandanum samkvæmt loftslagsráði Sameinuðu Þjóðanna.
Loftmengun drepur 700 þúsund börn undir fimm ára árlega
Samkvæmt rannsókn sem unnin var í samvinnu við barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (Unicef) drepur loftmengun yfir átta milljón manns á ári. Af þessum átta milljónum manna eru 700 þúsund af þeim börn undir fimm ára. „Á hverjum degi deyja um 2.000 börn undir fimm ára aldri vegna sjúkdóma tengdum loftmengun,“ segir Kitty van der Heijden, fulltrúi framkvæmdastjóra barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Margir umhverfisverndarsinnar hafa bent á að sú aðferð að safna og dæla niður CO2 sé helst til þess fallin að leyfa stærstu mengunarvöldum heimsins að halda áfram að menga andrúmsloftið með hættulegum efnum, en söfnun og niðurdæling á CO2 geri ekkert til að minnka mengun frá stærstu mengunarvöldum heimsins.
Þar má finna kjarnann í gagnrýni umhverfisverndarsinna. Þeir telja að tæknin gerir fyrirtækjum kleift að halda áfram að brenna jarðefnaeldsneyti út í andrúmsloftið með ásættanlegum kostnaði. Það sem undirbyggir þessi rök, ofan á allt annað, er að langflest kolefnisföngunar- og förgunarfyrirtæki sem eru í bígerð, eða hafa komist á laggirnar, eru í eigu olíu- og gasfyrirtækja sem eru allt um kring í þessum iðnaði. Á heimsvísu eru yfir 80 prósent af öllum niðurdælingarverkefnum notuð til þess að ná meiri olíu upp úr jörðinni. Náttúruverndarsinnar líta því CCS tæknina, eða kolefnisföngun og -förgun, hornauga, enda afsprengi olíuiðnaðarins. Þó skal tekið fram að Carbfix sker sig úr að því leyti að koldíoxíði er einungis fargað í jörðu án þess að endurheimta meira jarðefnaeldsneyti.
Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitunnar, Gylfi Magnússon, stjórnarformaður Orkuveitunnar og Einar Þorsteinsson borgarstjóri gáfu ekki færi á viðtali við Heimildina heldur óskuðu þeir allir eftir skriflegum spurningum. Þá gaf Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastjóri Carbfix ekki færi á viðtölum við blaðamann Heimildarinnar vegna viðskiptahluta Carbfix, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.
Heimildin heldur áfram úttekt sinni á starfsemi Carbfix og kolefnisföngun og niðurdælingu koldíoxíðs á næstu vikum. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur ekki ákveðið hvenær íbúakosning vegna Coda Terminal stöðvarinnar fer fram.
Leiðrétting: Holcim/Lafarge féllst á að greiða skaðabætur og játa glæpi gegn mannkyni fyrir bandarískum yfirvöldum, ekki frönskum, eins og upphaflega var sagt í greininni. Umfangsmiklu dómsmáli gegn stjórnendum franska fyrirtækisins er ekki enn lokið. Við biðjumst velvirðingar á þessu.