Vindorku­ver – Ógn við haförninn

Grein/Linkur:  Ný ógn við haförninn rís á Íslandi

Höfundur:  Sunna Ósk Logadóttir, Heimildinni

Heimild:  

.

,

Nóvember 2024

Ný ógn við haförninn rís á Íslandi

Hafern­ir falla blóð­ug­ir og vængja­laus­ir til jarð­ar í vindorku­ver­um Nor­egs sem mörg hver voru reist í og við bú­svæði þeirra og helstu flug­leið­ir. Hætt­an var þekkt áð­ur en ver­in risu og nú súpa Norð­menn seyð­ið af því. Sag­an gæti end­ur­tek­ið sig á Ís­landi því mörg þeirra fjöru­tíu vindorku­vera sem áform­að er að reisa hér yrðu á slóð­um hafarna. Þess­ara stór­vöxnu rán­fugla sem ómæld vinna hef­ur far­ið í að vernda í heila öld.

Á svölum apríldegi flýgur haförn af öllum sínum mikilfengleik milli eyja og skerja í Smøla-eyjaklasanum norðvestur af Þrándheimi í Noregi, rétt eins og óteljandi kynslóðir annarra slíkra höfðingja hafa gert í aldir. Hann horfir skörpum augum fyrst og fremst niður fyrir sig á fluginu enda í stöðugri leit að bráð og á þessum árstíma að hentugum varpstað. Svífur sterkum og stórum vængjum þöndum yfir tjarnir og mýrar. Yfir lágar hæðir eyjanna sem hafernir kjósa margir að hreiðra um sig á.

En allt er breytt. Stærsta eyjan er þakin risavöxnum mannvirkjum sem ekki aðeins hindra flug hans vegna hæðar sinnar heldur vegna þess að þau eru stöðugt á hreyfingu. Snúast og snúast. Hring eftir hring. Skyndilega verður hann fyrir miklu höggi. Annar vængur hans klippist af. Hann missir flugið og fellur helsærður til jarðar. Og deyr.

„Ég mun aldrei gleyma hvernig örninn horfði hjálparvana á mig og af örvæntingu þar sem hann sat á jörðinni og gat ekki hafið sig til flugs.“

En ekki strax. Ekki fyrr en eftir töluvert dauðastríð og loks aflífun með byssuskoti. Að þessu öllu varð sænski líffræðingurinn Ulla Falkdalen vitni fyrir um áratug er hún var að störfum á Smøla á vegum Náttúrufræðistofnunar Noregs, sem var þá að rannsaka áhrif vindorkuvers ríkisfyrirtækisins Statkraft á fuglalíf. Starf hennar fólst meðal annars í því að leita að dauðum fuglum innan um vindmyllurnar, vindtúrbínurnar líkt og margir vilja frekar kalla þær, og hafði hún hunda sér til aðstoðar, hunda sem voru sérþjálfaðir í að þefa uppi fuglahræ.

Það var þó ekki magnað þefskyn hundanna sem varð til þess að draga athygli Ullu að særðum haferninum þennan dag. Hún heyrði þegar hann flaug af öllum sínum þunga inn í spaðana. „Ég heyrði háværan hvell,“ lýsir Ulla fyrir Heimildinni. Líklega var hún þá í um 800 metra fjarlægð frá þeim stað er áreksturinn varð en brá kíkinum strax á loft. „Ég sá hvar haförn féll hægt til jarðar. Spaði vindtúrbínunnar hafði klippt annan væng hans af. Ég keyrði strax á vettvang til að ná fuglinum svo að hann myndi ekki skríða í burtu svona alvarlega slasaður. Ég mun aldrei gleyma hvernig örninn horfði hjálparvana á mig og af örvæntingu þar sem hann sat á jörðinni og gat ekki hafið sig til flugs.“

Ulla kallaði eftir hjálp og beið hjá erninum þar til hún barst. Það eina sem var þó hægt að gera var að binda endi á þjáningar hans. Skjóta hann. Þetta stóra dýr, sem er oft um fimm kíló að þyngd, og með yfir tveggja metra vænghaf, enda oft kallað konungur fuglanna.

„Þetta kvöld grét ég lengi,“ rifjar Ulla upp. „Það var aldrei gaman að finna dauða fugla en það var margfalt verra að finna þá slasaða og enn á lífi.“

Hættan kunn

Ulla fann marga dauða haferni við vinnu sína á Smøla á sínum tíma og nú hefur verið staðfest í nýrri rannsókn sem Heimildin fékk í hendur að 133 ernir urðu spöðum vindmyllanna að bráð á árunum 2005–2023. Að meðaltali fljúga árlega sex ernir í spaða versins og því má nærri geta að heildartalan sé að nálgast 140. Meðal annarra fiðraðra fórnarlamba orkuversins eru rjúpur sem í hundraða vís hafa flogið beint á turna vindmyllanna, særst eða drepist.

Það kom ekki öllum á óvart er hafernir fóru að týna tölunni er vindorkuverið á Smøla hafði risið. Verinu hafði beinlínis verið fundinn staður í miðju varplandi þeirra. Við hættunni var varað. En vindmyllurnar risu, 68 talsins, og var virkjunin þá stærsta sinnar tegundar í Evrópu er hún var fullkláruð árið 2005.

„Þegar verið var að undirbúa byggingu vindorkuversins á Smøla höfðum við mjög litla þekkingu á áflugshættu ránfugla,“ segir Roel May, reyndur vistfræðingur hjá NINA, Náttúrufræðistofnun Noregs, við Heimildina. Hann er meðal þeirra vísindamanna sem unnið hafa að rannsóknum á áhrifum vindorkuvera á lífríkið. „NINA varaði við því í umhverfismatsferlinu að þetta gæti orðið raunin með haferni á Smøla. Smøla er eitt þéttasta búsvæði hafarna í Noregi. Þannig að þó að dánartölurnar séu háar þá má segja að það hafi verið viðbúið, því miður.“

Blæðandi sár þar sem áður var vængur og afhöfðaðir fuglar vekja skiljanlega óhug og mörgum Norðmanninum hefur brugðið í brún yfir fjöldanum sem drepst í vindorkuverum landsins. Þau eru nú orðin 65 talsins. Dauðinn er nefnilega alls ekki bundinn við Smøla þótt hvergi hafi hann verið rannsakaður jafn ítarlega og þar.

Vindorkufyrirtækjunum hefur hingað til ekki verið skylt að skrásetja fugladauða við orkuverin. „Það hefur valdið mörgum deilumálum í gegnum árin sem urðu að lokum til þess að byggingu vindorkuvera á landi var tímabundið hætt,“ útskýrir vistfræðingurinn Roel. Nú sé búið að herða kröfur en það eigi eftir að koma í ljós hvernig þær verði útfærðar. Og ný vindorkuver eru hægt og bítandi farin að rísa í Noregi á ný.

Horft til Íslands

Nú, tveimur áratugum eftir að vindorkuverin hófu að rísa í Noregi í miklum mæli, hefur áhugi á slíkri uppbyggingu kviknað á Íslandi. Vindorkufyrirtæki, sem flest eru alfarið í eigu útlendinga, hafa sett fram um fjörutíu hugmyndir að vindorkuverum víðs vegar um landið. Tvö fyrirtæki eru stórtækust, Qair Ísland og Zephyr Iceland. Það fyrrnefnda er alfarið í eigu Frakka og hið síðarnefnda í meirihlutaeigu Norðmanna. Þriðji aðilinn sem er með hvað flest verkefni í pípunum er félagið Wpd Ísland ehf. Það hefur tekið yfir og þróað áfram hugmyndir Langanesbyggðar og Vopnafjarðarhrepps að sex vindorkuverum í tengslum við áformaða stórskipahöfn í Finnafirði. Wpd er alfarið í eigu Þjóðverja. Þessi þrjú fyrirtæki hafa öll reynslu af því að byggja vindorkuver.

„Smøla er eitt þéttasta búsvæði hafarna í Noregi. Þannig að þó að dánartölurnar séu háar þá má segja að það hafi verið viðbúið, því miður

Allt frá því að fyrstu vindorkuhugmyndirnar komu fram hér á landi fyrir nokkrum árum hefur verði kallað eftir ramma frá stjórnvöldum um þessa tegund orkuöflunar enda eru umhverfisáhrif sem af henni hljótast önnur en af vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum. Mannvirkin geta verið gríðarlega há, jafnvel 250 metrar, og að auki staðið uppi á hæðum, heiðum eða fjöllum og því sést mjög víða að. Það hvín í þeim og skuggar flökta í spöðunum sem snúast allan sólarhringinn. Þá taka þau mikið pláss, fleiri hektara hvert, og um virkjanasvæðin þarf að leggja tugi kílómetra af vegum til að aka vindtúrbínunum á vettvang. Undir hverja vindmyllu þarf svo að steypa um 30 fermetra sökkul, grafa jarðstrengi, mögulega ræsa fram votlendi og sprengja kletta og klappir. Þá eru ótalin áhrifin á lífríkið.

Frá rjúpnalöndum til búsvæða hafarna og hreindýra. Frá sjávarmáli og upp á fjallstoppa. Frá austri til vesturs, norðri til suðurs. Alls staðar þar sem vindur blæs. Fræðilega séð væri hægt að setja vindorkuver niður nánast hvar sem er á Íslandi. Og þar sem engin stefna hefur sérstaklega verið gerð um hvar æskilegt sé að slíkar virkjanir rísi á landinu lítur Íslandskort með vindorkuhugmyndum út eins og á síðasta hring í borðspilinu Matador þar sem búið er að setja niður hús og hótel á nær hverjum reit.

Verið að bera saman svæði

„Þó svo kostirnir sem tilkynnt hefur verið um séu allnokkrir, um tugur talsins, er fyrst og fremst verið að bera saman svæði. Þau sem koma best út gætu orðið grundvöllur þess að reisa vindmyllur,“ segir Ketill Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Zephyr Iceland, spurður um þann fjölda vera sem fyrirtækið hefur kynnt til sögunnar. „En það er enn óvíst hvar það verður, hversu víða, eða í hvaða mæli. Enda er undirbúningur verkefna af þessu tagi bæði flókinn og tímafrekur.“

Friðjón Þórðarson, framkvæmdastjóri Qair Ísland, segir að af öllum þeim vindorkukostum sem fyrirtækið sé að skoða séu fimm verkefni í ítarlegri þróun þar sem byrjað er að vinna að rannsóknum tengdum umhverfismati. Þau eru Sólheimar í Dalabyggð, Hnotasteinn í Norðurþingi, Grímsstaðir í Skaftárhreppi, Múli í Borgarbyggð og Leifsstaðir í Húnabyggð. Sólheimar og Hnotasteinn eru nú til meðferðar hjá verkefnisstjórn rammaáætlunar og því hefur Qair lagt mest í vinnu að þeim hingað til.

Aðeins tveir vindorkukostir eru í nýtingarflokki rammaáætlunar, Búrfellslundur og Blöndulundur, og eru þeir á vegum ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar. Báðir eru í nágrenni flutningslína og vatnsaflsvirkjana og á eða við þegar röskuð svæði. Landsvirkjun er svo að rannsaka fýsileika þriðju hugmyndar sinnar að vindorkuveri og nú í nágrenni við virkjanasvæði Kárahnjúka.

Milljarður í hverja vindmyllu

Vindorkuhugmyndir annarra fyrirtækja eru mislangt á veg komnar. Fjórir vindorkukostir hafa verið færðir inn á aðalskipulag sveitarfélaga og eru þeir, auk Búrfellslundar, Hróðnýjarstaðir og Sólheimar í Dalabyggð og Garpsdalur í Reykhólasveit. Umhverfismati þriggja vindvirkjanaverkefna er lokið en mörg til viðbótar eru nú í því ferli, m.a. það stærsta, Klausturselsvirkjun, sem Zephyr Iceland áformar á Fljótsdalsheiði, skammt frá Stuðlagili. Í því er gert ráð fyrir 40–50 vindmyllum, hverri um 200 metrum á hæð.

Framkvæmdastjórinn Ketill tekur fram að enn sé óvíst hvaða vindorkuverkefni, önnur en Búrfellslundur, sem bygging er þegar hafin á, verði að veruleika. „Í reynd gefur fjöldi tilkynntra verkefna enga vísbendingu um það hversu mikið vindorkuafl mun rísa hér á landi.“ Enn sé eitthvað í það að Zephyr taki fjárfestingarákvörðun um að reisa hér orkuver.

Þar eru enda gríðarlegir hagsmunir í húfi því bygging vindorkuvers er mjög kostnaðarsöm. Sem dæmi telur Wpd að kostnaður við hverja vindmyllu í vindorkuverunum sem áformuð eru á Norðausturlandi yrði um einn milljarður. Ef öll sex verin sem fyrirtækið er nú með í skoðun yrðu byggð myndi fjárfestingin liggja í kringum 235 milljarða króna.

Friðjón, framkvæmdastjóri Qair, segir að gera megi ráð fyrir því að kostnaður við forvinnu við hvert vindorkuverkefni, þ.e. fram til ákvörðunar um hvort að verið verði byggt, sé ekki undir hálfum milljarði króna.

Staðgengill jarðefnaeldsneytis

Á síðustu árum hefur vindorka orðið sífellt fýsilegri til orkuframleiðslu. Framþróun hefur orðið í vindmyllunum – þær orðið almennt hærri og aflmeiri – en líka ódýrari kostur en áður. Vindorka er flokkuð sem endurnýjanlegur orkugjafi enda vindur óþrjótandi auðlind, þótt vissulega hafi vindmyllurnar sjálfar, sem endast almennt ekki nema í aldarfjórðung, nokkuð þungt kolefnisspor. Og endurvinnsla á þeim, þótt hún sé talin vel möguleg, er enn sem komið er sáralítil. Horfur eru þó á úrbótum í þeim efnum.

Kapphlaupið um að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis, sem er einn helsti valdur losunar koltvíoxíðs út í andrúmsloft jarðar, hefur orðið til þess að sífellt fleiri þjóðir horfa til þess að virkja vindinn til rafmagnsframleiðslu. Reglulega er mengandi kolaverum lokað og vindorkuver byggð. Því ekki búa allar þjóðir jafnvel og Íslendingar að geta virkjað fallvatn og enn síður jarðvarma. Birtuorka hefur einnig fengið byr undir báða vængi samhliða áherslum og skuldbindingum þjóða um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Gríðarleg uppbygging hefur átt sér stað á þessum sviðum síðustu ár og spáir milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar því að um 20 prósent allrar orkuframleiðslu heimsins muni koma úr vindi fyrir árið 2050. Það sem hins vegar setur strik í allan þennan reikning er að eftirspurn eftir raforku er sífellt að aukast. Orkuskipti í flugi og siglingum eru í farvatninu og gervigreindin, tólið byltingarkennda, þyrstir stöðugt í meiri orku.

Það eru hins vegar ekki allir á því að vindorkuver séu lausnin. Ítrekað hefur verið bent á að slík orkuver eigi ekki heima hvar sem er enda hafi þau ótvíræð umhverfisáhrif. Ekki aðeins sjónræn áhrif fyrir mannfólk heldur einnig neikvæð áhrif á vistkerfin sem þau eru reist í, ekki síst á fuglalíf. Og tap líffræðilegs fjölbreytileika er alvarlegt, aðsteðjandi vandamál, ekki síður en loftslagsbreytingar.

Haferni nær útrýmt

Þar sem nýting vindorku hefur byggst upp á ógnarhraða síðustu ár hefur ekki gefist nægt ráðrúm til ítarlegra rannsókna á umhverfisáhrifum þeirra. Við þá þekkingu hefur hins vegar bæst undanfarið og í sumar var til dæmis gefin út skýrsla í Noregi þar sem búsvæði arna og flugleiðir þeirra voru kortlagðar með tilliti til frekari vindorkuuppbyggingar. Sú kortlagning sýndi svo ekki er um villst að Norðmenn hafa komið mörgum vindvirkjunum sínum fyrir á slóðum hafarna síðustu ár.

Töluverður fjöldi þeirra vindorkuvera sem áformað er að reisa á Íslandi eru í næsta nágrenni við búsvæði hafarna eða þekktra flugleiða þeirra. Hafarnarstofninn á Íslandi er mun minni en sá norski enda gengu menn mjög nærri honum á síðari hluta 19. aldar og við upphaf þeirrar tuttugustu með skotum og eitri. Um það leyti voru arnarpörin orðin innan við tuttugu talsins. Örninn hefur verið alfriðaður hér á landi frá 1914 og voru Íslendingar fyrstir þjóða til að friða hann. Áður verptu hafernir um allt land en í dag verpa þeir aðeins á vestanverðu landinu. Fjölgað hefur hægt og bítandi í stofninum frá árinu 1970 og telur hann nú yfir níutíu pör.

Töluverður fjöldi þeirra vindorkuvera sem áformað er að reisa á Íslandi eru í næsta nágrenni við búsvæði hafarna eða þekktra flugleiða þeirra. Hafarnarstofninn á Íslandi er mun minni en sá norski enda gengu menn mjög nærri honum á síðari hluta 19. aldar og við upphaf þeirrar tuttugustu með skotum og eitri. Um það leyti voru arnarpörin orðin innan við tuttugu talsins. Örninn hefur verið alfriðaður hér á landi frá 1914 og voru Íslendingar fyrstir þjóða til að friða hann. Áður verptu hafernir um allt land en í dag verpa þeir aðeins á vestanverðu landinu. Fjölgað hefur hægt og bítandi í stofninum frá árinu 1970 og telur hann nú yfir níutíu pör.

Það hefur kostað mikla vinnu margra sérfræðinga að standa vörð um haförninn á Íslandi. Mönnum tókst nær að útrýma honum fyrir hundrað árum og nú hefur önnur ógn, einnig af mannavöldum, bankað upp á.

Viðkvæmastur allra

Hafernir eru líkt og aðrir stórir ránfuglar sérstaklega viðkvæmir fyrir áflugi á vindtúrbínur líkt og bersýnilega hefur komið í ljós í Noregi og að ofan er rakið. Einnig hafa rannsóknir sýnt að búsvæði ýmissa fugla tapast þegar vindorkuver rísa á þeirra svæðum. Þá er talið að fyrir suma fugla virki vindorkuver eins og veggur, þeir þurfi að leggja lykkju á leið sína og eyða meiri orku í að fljúga milli ætis- og varpsstöðva. Það hefur einnig áhrif á fuglastofna.

Enginn fugl er jafnviðkvæmur fyrir vindorkuverum og haförn. Haförn er enda stærsti ránfugl Evrópu, getur náð háum aldri, verður ekki kynþroska fyrr en um 5 til 6 ára aldurinn og verpur aðeins 1 til 2 eggjum á hverju varptímabili. Vegna þessa eru stofnar hafarna sérstaklega viðkvæmir fyrir afföllum. Þá telja vísindamenn að hafernir séu líka mjög viðkvæmir fyrir samlegðaráhrifum vindorkuvera, þ.e. því þegar tvö eða fleiri vindorkuver eru byggð á svipuðum slóðum. Á þetta hefur Náttúrufræðistofnun Íslands einmitt bent í umsögnum sínum um vindorkuáform á Vesturlandi. Verunum sem áformuð eru á heimaslóðum íslenska hafarnarins.

Helsti sérfræðingur okkar Íslendinga þegar kemur að haferninum hét Kristinn Haukur Skarphéðinsson og var dýravistfræðingur. Hann lést á 69. aldursári, 16. nóvember síðastliðinn, eftir skammvinn veikindi. „Haförninn sjálfur er fallinn frá,“ sagði einn vinur hans við Heimildina er hann hafði frétt af andláti hans. Í tilkynningu um andlátið í fjölmiðlum var enda tiltekið hversu framúrskarandi hann hafði verið á sínu sviði. Kristinn Haukur starfaði hjá Náttúrufræðistofnun Íslands í um þrjá áratugi og var kjör­svið hans ís­lenski haförn­inn. „Rann­sókn­ir hans á lífs­hátt­um og búsvæðum arn­ar­ins skipuðu hon­um í fremstu röð þeirra er fjölluðu um vöxt og viðgang arn­ar­stofns­ins á alþjóðavett­vangi,“ sagði í frétt um andlát vísindamannsins í Morgunblaðinu.

Við hreiður og flugleiðir

Í sumar var auglýst skýrsla Qair Íslands á mati á umhverfisáhrifum stórs vindorkuvers sem fyrirtækið hyggst reisa á Laxárdalsheiði, nánar tiltekið á jörðinni Sólheimum. Þá jörð keypti félag í eigu Ásmundar Einars Daðasonar mennta- og barnamálaráðherra og fjölskyldu hans árið 2015. Áformin ganga út á að reisa 209 MW vindorkuver með 29 vindmyllum sem yrðu allt að 200 metrar á hæð.

Hafernir eiga sér hreiður í grennd við áhrifasvæði virkjunarinnar auk þess sem þekktar flugleiðir þeirra liggja um Laxárdalsheiðina. Með þessa vitneskju í huga lögðu stofnanir sem álit hafa gefið á áformunum ríka áherslu á að vel og ítarlega yrði staðið að fuglarannsóknum á svæðinu, ekki síst hvað varðaði haförninn.

Úr varð að Qair Ísland greiddi kostnað við tvo GPS-senda sem starfsmenn Náttúrufræðistofnunar komu fyrir á haförnum í því skyni að kortleggja flugleiðir þeirra. Sendar hafa síðustu ár verið settir á mun fleiri erni og gögnum því verið safnað yfir nokkurra ára tímabil. Qair fékk aðgang að gögnunum og gerði sjálft sína greiningu á þeim, sem og annars konar fuglarannsóknum, og birti í umhverfismatsskýrslunni um Sólheimaáformin.

Skýrslan sjálf er yfir 300 blaðsíður og skipta viðaukar nokkur hundruð síðum til viðbótar. Fyrir almenning, sem gefið er færi á að skila athugasemdum við áformin, getur skiljanlega reynst snúið að rýna í svo mikið magn upplýsinga. Það gerði engu að síður nokkur fjöldi fólks auk félagasamtaka og stofnana. Alls um þrjátíu aðilar.

Ein þessara stofnana var Náttúrufræðistofnun Íslands. Og ekki er hægt að túlka umsögn hennar á  Sólheimaverkefninu með öðrum hætti en að þar sé stöðvunarskylda dregin ákveðið á loft. Vinnubrögð fyrirtækisins við túlkun gagna var þar einnig gagnrýnd, ekki síst hvað viðkom rannsóknum á haferni. Hélt stofnunin því meðal annars fram að áflugshætta hafi verið vanmetin og hafi að auki aðeins verið byggð á hluta fyrirliggjandi gagna. Niðurstaða stofnunarinnar var enda sú að æskilegt væri að finna vindorkuverinu annan stað en í fuglaparadísinni á Laxárdalsheiði.

Aðeins byggt á gömlum gögnum

Mánuði áður en Náttúrufræðistofnun skilaði sinni umsögn til Skipulagsstofnunar hafði arnarsérfræðingurinn Kristinn Haukur sent þeim erlendu aðilum sem unnu umhverfismatsskýrsluna tölvupóst þar sem hann furðaði sig á því að í henni væri eingöngu stuðst við gögn sem hann hefði greint og sent fyrirtækinu fyrir tveimur árum og þá aðeins sem dæmi um hvernig hægt væri að setja gögnin fram. Annmarkar á skýrslunni um haferni fælust fyrst og fremst í því hversu gömul gögnin væru og hversu lítið væri stuðst við nýrri gögn. „Qair hefur ekki greint nein þeirra gagna sem ég hef sent ykkur frá því í nóvember/desember 2022,“ skrifaði hann. Í þessum nýrri gögnum væri meðal annars að finna mikið magn GPS-gagna frá Laxárdalsheiði. „Ég vona innilega að Qair muni gera nákvæma greiningu á hafarnargögnunum áður en Skipulagsstofnun fer að vinna að sínu áliti.“

Kristinn Haukur var í veikindaleyfi er hann ritaði þetta bréf. Heimildin fékk það afhent hjá Skipulagsstofnun sem hafði fengið af því afrit.

Hann gat aldrei slitið sig frá haferninum.

Sérfræðingur hjá Skipulagsstofnun lagði áherslu á það við höfunda matsskýrslu Sólheimaversins að þau gögn sem Kristinn Haukur vísaði til, og virtust ekki hafa verið lögð til grundvallar matinu, kynnu að breyta niðurstöðu umhverfismatsins á erni. Vinna þyrfti að frekari greiningum hratt og örugglega.

Sérstakt ánægjuefni

Qair fékk nýju hafarnargögnin afhent hjá Náttúrufræðistofnun í haust og nýverið lauk greiningu fyrirtækisins á þeim með skýrslu sem Heimildin fékk afhenta. Friðjón Þórðarson, framkvæmdastjóri Qair Ísland, segir í skriflegu svari til Heimildarinnar að niðurstaðan sé fyrirtækinu „sérstakt ánægjuefni enda sýnir hún fram á minni áflugstíðni en umhverfismatsskýrslan segir til um“.

Nýju gögnin eru úr GPS-sendum 39 hafarna sem merktir voru á árunum 2019–2024. Þau sýndu, að því er fram kemur í skýrslu Qair, að flugleiðir 18 þeirra voru í innan við 500 metra fjarlægð frá þeim stöðum sem fyrirhugað er að staðsetja vindmyllur á Laxárdalsheiðinni. Þeir fljúgi oftar suðvestan við Sólheima en fyrri gögn hefðu bent til sem og um Snæfellsnes og vestur af Grjóthálsi og Múla. Þá sé flug þeirra á Hróðnýjarstöðum enn fremur meira en eldri gögn bentu til. Að auki væri umferð þeirra eitthvað algengari við Tjörn á Vatnsnesi í Húnavatnssýslu en vísbendingar voru áður um. Mesta aukningin samkvæmt nýju gögnunum miðað við þau eldri, segir í skýrslu Qair, er þó í kringum Garpsdal.

Á öllum þessum stöðum sem þarna eru nefndir eru áformuð vindorkuver. Á Hvammsmúla í Borgarbyggð og Tjörn á Vatnsnesi eru hugmyndirnar á vegum Qair. Vindorkuver á Grjóthálsi í Borgarbyggð er áformað af fyrirtæki sem fyrst kenndi sig við jörðina Hafþórsstaði en nú kallast Hrjóna ehf. Félagið er í eigu Helga Hjörvar, fyrrverandi þingmanns Samfylkingarinnar og eiginkonu hans. Fyrirtækið Storm Orka, í eigu bræðranna Magnúsar og Sigurðar Jóhannessona, áformar vindorkuver að Hróðnýjarstöðum í Dalabyggð og í Garpsdal er það félagið EM Orka, sem er í eigu Breta, Ítala, Portúgala og Austurríkismanns, ef marka má fyrirtækjaskrá, sem er með áform um að reisa ver í Garpsdal.

Í skýrslu Qair er tekið fram að miðað við þær flugleiðir arna sem nýju gögnin sýna yrðu samlegðaráhrif vindorkuvera á þessum slóðum mögulega meiri. Þetta sé hægt að meta betur þegar áflugsáhætta hefur verið metin í hinum vindorkuverkefnunum.

Merktu ernirnir, þeir sem bera senda og gögnin koma frá, eru allir ungir og fæstir, ef nokkrir, hafa hafið varp. Það er annmarki á gögnunum og gæti skekkt þá mynd sem gögnin sýna enda eru ungir ernir óútreiknanlegir.

Mun ólíklega breyta mati Náttúrufræðistofnunar

Náttúrufræðistofnun hefur fengið skýrslu Qair um nýju hafarnargögnin send en hefur ekki fullrýnt hana enn. Sunna Björk Ragnarsdóttir, sviðsstjóri rannsókna hjá stofnuninni, segir beðið eftir skýrum leiðbeiningum hjá Skipulagsstofnun um hvernig og hvenær óskað er eftir rýni stofnunarinnar á þessum viðbótargögnum.

„Á meðan við höfum ekki fullrýnt viðbótargögnin þá eru ekki forsendur fyrir breyttri skoðun,“ segir Sunna, spurð hvort greining Qair breyti mati þeirra á mögulegum umhverfisáhrifum Sólheimaversins. Hún og Snorri Sigurðsson, sviðsstjóri náttúruverndar hjá Náttúrufræðistofnun, segjast í fljótu bragði telja ólíklegt að eitthvað breytist varðandi það mat að æskilegt væri að finna vindorkuverinu aðra staðsetningu. Fleiri atriði séu á bak við þá skoðun en einungis ferðir hafarnarins um svæðið, þótt það sé vissulega mjög veigamikið atriði.

Verkefnisstjórn rammaáætlunar hefur nú tíu vindorkukosti til meðferðar. Til stóð að tillaga að flokkun þeirra í nýtingar-, bið- eða verndarflokk yrði birt opinberlega fyrri hluta nóvember en af því varð ekki. Náttúrufræðistofnun barst nýverið beiðni frá verkefnisstjórninni um að meta hvort ný gögn bæti stöðu þekkingar fyrir úrvinnslu faghóps 1, þess faghóps sem leggur m.a. mat á áhrif virkjunarkostanna á fuglalíf.

Heimildin spurði Sunnu og Snorra að því hvaða áhrif það gæti haft á hafarnarstofninn á Íslandi ef 1–2 hafernir myndu drepast í vindorkuverum á ári líkt og Umhverfisstofnun telur að gæti orðið með tilkomu Sólheimaversins. Þau benda á að þótt hafarnarstofninn sé metinn um 90 pör nú um stundir séu mun færri pör sem reyni varp ár hvert. „Hjá íslenska hafarnarstofninum er frjósemi lág sé stofninn borinn saman við stofna í nágrannalöndum okkar og fáir ungar komast almennt á legg. Slíkur stofn er því viðkvæmur fyrir viðbótar afföllum af öllu tagi,“ svara þau Sunna og Snorri.

Svörtu spaðarnir

Qair dregur þá ályktun í skýrslu sinni um nýju hafarnargögnin að  áflugshætta arna sé minni en fyrirtækið hafði reiknað með í umhverfismatsskýrslunni í sumar en það mat var byggt á fleiri gögnum og rannsóknaraðferðum en úr GPS-sendum arnanna. Engu að síður telur fyrirtækið áhrif versins á áflugshættu veruleg. Að teknu tilliti til mótvægisaðgerða yrðu þau hins vegar óveruleg.

„Niðurstaða minnisblaðsins er mjög skýr og afdráttarlaus varðandi færri flug en notast var við í útreikningum niðurstaðna okkar í umhverfismatinu,“ segir Friðjón framkvæmdastjóri.  „Við kjósum hinsvegar að halda niðurstöðum umhverfismatsins óbreyttum þó gögnin gefi tilefni til að endurskoða áflugshættu arna til lækkunar.“

Nokkrar mótvægisaðgerðir eru taldar upp í umhverfismatsskýrslu Qair um Sólheimaverið hvað áflugshættu fugla varðar. Svokölluð áflugsforðunarkerfi er ein aðgerðin sem Qair segist ætla að beita en kerfið á að nema fugla og flug þeirra og slökkva á spöðum vindmylla þegar áflugshætta er mikil.

Önnur aðgerð, sem Qair nefnir, er að mála staka vindmylluspaða svarta og vísar fyrirtækið til gagnsemi þessarar aðferðar í Noregi.

Í nýrri rannsókn Náttúrufræðistofnunar Noregs, sem Heimildin fékk afhenta, er meðal annars fjallað um tilraunir í þessa veru í Smøla-vindorkuverinu. Í henni kemur fram að á tímabilinu 2005 til 2023 hafi 133 hafernir flogið í spaða og drepist. Einn spaði í fjórum vindmyllum af 68 hefur um hríð verið málaður svartur og á fjögurra ára tímabili er ekki vitað til þess að haförn hafi drepist við að fljúga á þær. Myllurnar fjórar eru utan þeirra svæða sem ernir hafa oftast týnt lífi á í verinu frá því það var gangsett.

„Það sem við vitum er að þetta virðist skila árangri á Smøla,“ segir Roel May, vistfræðingur og einn höfunda skýrslunnar, við Heimildina. „Hvort að það þýði að þetta gagnist jafn vel annars staðar vitum við ekki.“ Hann bendir á að niðurstöður tilrauna í Hollandi sýni ekki sama árangur á þessari aðferð til að koma í veg fyrir áflug fugla. Það geti meðal annars skýrst af landslaginu og ríkjandi fuglategundum á viðkomandi svæðum. Á Spáni hafa rannsóknir sýnt mismunandi árangur af aðferðinni í ólíkum vindorkuverum. „Þannig að við leggjum áherslu á að það þurfi að rannsaka þetta frekar.“

Að mála einn spaða á hverri vindmyllu svartan muni að sögn Roels ekki koma alfarið í veg fyrir að hafernir fljúgi í spaðana. Engin „gulltryggð lausn“ hafi fundist til þess.

Náttúrufræðistofnun Íslands segir Qair leggja mikla áherslu á mótvægisaðgerðir til að draga úr neikvæðum áhrifum vindorkuversins að Sólheimum á fuglalíf. Í sjálfu sér sé jákvætt að sjá mikla vinnu lagða í mögulegar mótvægisaðgerðir en „þessum aðgerðum er hins vegar gefið of mikið vægi“ að mati stofnunarinnar. Það leiði til þess að framsetning heildaráhrifamats gefi þá mynd að framkvæmdin muni að stærstum hluta hafa óveruleg umhverfisáhrif. „Náttúrufræðistofnun telur það vera villandi framsetningu og er ekki heldur sammála endanlegu heildaráhrifamati fyrir gróður og fuglalíf sem stofnunin telur að verði nokkur til veruleg, og alls ekki minni háttar.“ Ekki sé hægt að gefa sér árangur mótvægisaðgerða fyrir fram og ýmis óvissa ríki sem taka þurfi meira tillit til.

Reynsla Norðmanna

Allir fuglafræðingar gerðu sér grein fyrir því að bygging vindorkuvers á Smøla myndi kosta haferni lífið, segir Torgeir Nygård, einn helsti hafarnasérfræðingur norsku Náttúrufræðistofnunarinnar, við Heimildina. Verið hafi beinlínis verið byggt á þéttasta búsvæði arna í gjörvöllum Noregi. „Það er alltaf áhætta sem fylgir því að reisa vindtúrbínur á svæðum þar sem fuglar eru algengir, sérstaklega fyrir fugla sem láta sig oft svífa, líkt og haförninn,“ segir Torgeir.

Sunna og Snorri, sviðsstjórar hjá Náttúrufræðistofnun, telja ekki tímabært að taka ákvörðun um byggingu vindorkuvera á Vesturlandi miðað við þá þekkingu á búsvæðum og farleiðum hafarna sem nú er til staðar. „Við teljum æskilegra að bíða með að taka lokaákvörðun og hefja framkvæmdir við ný vindorkuver þangað til niðurstaða hefur náðst um efnislega meðferð þeirra á vettvangi rammaáætlunar og/eða samkvæmt nýrri stefnu stjórnvalda og nýjum lagaramma um fyrirkomulag vindorku þegar/ef hann hefur verið samþykktur og tekið gildi.”

Líffræðingurinn Ulla Falkdalen var undrandi að heyra að stefnt væri að byggingu vindorkuvera á Íslandi. „Þau myndu hafa áhrif á rjúpur og haferni, jafnvel fálka og margar aðrar fuglategundir,“ varar hún við. Íslensk náttúra sé einstök og fuglalífið sömuleiðis. „Ég tel að það sé misráðið að gera fugla Íslands útsetta fyrir því að deyja af völdum vindtúrbína.“ Ef ekki verði hjá byggingu slíkra virkjana komist ættu Íslendingar að læra af reynslu Norðmanna og byrja á að kortleggja fuglasvæðin eins ítarlega og frekast er unnt.

Fleira áhugavert: