Lagnafélagi Íslands – Hvers vegna var það stofnað

Grein/Linkur:  Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg?

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: LAFI1

.

vegurinn

Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg?

.

Janúar 2012

Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg?

Sigurður Grétar

Sigurður Grétar Guðmundsson 1934-2013

Hvers vegna stofnuðum við Lagnafélagið, hvaða hlutverki var félaginu ætlað að gegna? Slík félög hafa starfað af krafti í öllum iðnþróuðum ríkjum meiri hlutann af síðustu öld og gera enn, hversvegna skyldi ekki vera þörf fyrir slíkt félag á Íslandi? Tilgangur Lagnafélagsins er að vinna stöðugt að framförum í hönnun, lögn og uppsetningu hitakerfa, frárennsliskerfa, neysluvatnskerfa og loftræsikerfa, svo það helsta sé nefnt. Íslenska þjóðin græddi á hörmungum annara þjóða í heimsstyrjöldinni síðari og þá fórum við fyrir alvöru að byggja hús úr varanlegum efnum og leggja í þessi hús öll nauðsynleg lagnakerfi. Sú meinloka komst inn í vitund þeirra sem byggðu, létu byggja og bjuggu í eða nýttu þessi hús að slíkar byggingar væru óforgengilegar hvort sem það voru burðarvirkin eða lagnakerfin. Nánast engum datt í hug að hyggja þyrfti að viðhaldi húsa hjá þessari nýríku þjóð.

Hverjar urðu afleiðingarnar?

Allt drabbaðist niður og ekki síst opinberar byggingar en einkaaðilar voru lítt skárri. Þarna liggur orsökin fyrir því að þetta félag, Lagnafélag Íslands, var stofnað og fagnar aldarfjórðungs afmæli. Fyrsti stofnfundur félagsins varð nokkuð endasleppur. Þegar til alvörunnar var komið fór loftræsikerfi viðkomandi byggingar í gang og eftir það heyrðist vart mannsins mál, fundinum var frestað. Þetta var einmitt um það leyti sem ég skrifaði minn fyrsta pistil Lagnafrétta í Morgunblaðið. Þar lýsti ég nokkuð þessum fundi og vegna tengsla minna við leikhúsið nefndi ég að þau hljóð sem þarna bárust frá loftræsikerfinu væru kjörin leikhljóð fyrir lokaþátt Fjalla-Eyvindar þar sem þau Halla og Eyvindur bíða dauða síns og heyra veðurgnýinn hamast á hreysi sínu. En það heppnaðist að stofna Lagnafélag Íslands, annars værum við ekki hér. Þetta var um það leyti sem augu manna voru að opnast fyrir því að byggingar og lagnakerfi væru ekki eilíf og að menntun og þekkingarleit lagnamanna væri stöðugt verkefni. Það þýddi lítið að segja eins og einn góður meistari í lagnaiðn: Ég er nú búinn að starfa í iðninni í 40 ár svo það þarf ekkert að kenna mér!

En hefur Lagnafélagið náð árangri?

Og þá hvernig á þessum 25 árum? Tvímælalaust, á því er enginn efi. Það hefur Lagnafélagið gert með ýmiskonar útgáfu en ekki síst með fjölþættun ráðstefnum víðs vegar um land þar sem tekin hafa verið fyrir einstök mál lagnamanna hvort sem var í hönnun eða handverki. Mikil samskipti hefur félagið haft við opinberar stofnanir og verið umsagnaraðili um ýmislegt í laga- og reglugerðasetningu sem varðar lagnir og lagnamenn. Ég ætla engan veginn að fara að teygja tímann með einhverri tölfræði svo sem hve margar ráðstefnurnar eða útgefnar handbækur eru. Það hefur tekist að koma svo mörgu í verk og ég get ekki látið hjá líða að nefna Lagnakerfamiðstöðina á Keldnaholti sem vissulega var reist fyrir frumkvæði Lagnafélagsins. En því miður er nú Snorrabúð stekkur. Þetta glæsilega kennslugagn, Lagnakerfamiðstöðin, er því miður að missa reisn sína. Þeir sem nú eru handhafar stöðvarinnar ættu að sjá sóma sinn í að breyta um stefnu og hefja stöðina til fyrri vegs.

En hvað er það sem hefur farið úrskeiðis í lagnamálum, hönnun, lögn og uppsetningu lagankerfa hérlendis sl. hálfa öld?

Það hafa orðið stórstígar framfarir í framleiðsu lagnaefnis á þessu tímabili. Ef ég hefði ekkert lært í mínu fagi, pípulögnum, annað en það sem ég lærði á námsárum mínum 1952 – 56 hefði ég ekki enst lengi í faginu. Við höfum tekið fagnandi nýju lagnaefni og nýjum lagnakerfum en engan veginn verið nógu gagnrýnin á það sem til okkar berst. Við höfum oft fallið í þá pytti að taka upp ýmislegt beint frá útlendum framleiðendum sem engan veginn á við íslenskar aðstæður, ég vil ekki tefja tímann með því að rekja dæmi þó af ýmsu sé að taka. En okkar dýrmæti fjársjóður, jarðvarminn, krefst oft annara úrlausna en þeirra sem berast okkur frá framleiðendum handan hafsins. Of oft höfum við gleymt því að þennan fjársjóð, jarðvarmann, eigum við að umgangast með varfærni og virðingu. Við gleymum því of oft að við erum ekki að kaupa vatn frá hitaveitum landsins, við erum að kaupa varma og þar í liggur galdurinn; að kreista eins mikinn varma úr vatninu áður en það rennur sína leið burt.

En við höfum rekið Lagnafélagið á næsta sérkennilegan hátt öll þessi 25 ár

Í flestum félögum eru stjórnir kjörnar sem síðan ráða framkvæmdastjóra. Hjá Lagnafélaginu er þessu öfugt farið. Fasti punkturinn er framkvæmdastjórinn sem síðan myndar stjórnir. Þannig má segja að stjórnarfar þessa ágæta félags sé upplýst einræði. Þar sem í vinnslu er ný Stjórnarskrá fyrir íslenska lýðveldið og forseti lýðveldisins heyrir mál mitt þá bendi ég á að stundum getur upplýst einræði skilað árangri án nokkurra blóðsúthellinga. En af þessu leiddi að mér að minnsta kosti sinnaðist stundum við umræddan framkvæmdastóra og sagði honum oft að fara norður og niður en lærði fljótlega að það var tilgangslaust, hann fór ekki neitt.

Ráðstefnur Lagnafélagsins urðu fljótlega umtalaðar

Þar fengu menn að tala ákveðinn knappan tíma, fengu svo gula spjaldið og síðan það rauða, ef þeir létu sér ekki segjast var jafnvel hljóðneminn tekinn úr sambandi. Ég minnist margra ráðstefna á höfuðborgarsvæðinu en einnig vítt um landið. Minnistæðust er mér líklega ráðstefna á Ísafirði en þangað fórum við Einar heitinn Þorsteinsson á Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins með Kristjáni Ottóssyni framkvæmdastjóra til að halda fræðandi erindi. Fórum landleiðna með Kristján undir stýri en komið var fram í október. Segir ekkert af ferðum okkar fyrr en komið var að Hrafnseyri við Arnarfjörð en þá gerðist það. Í stað þess að fara beint yfir í Dýrafjörð tók Kristján stefnuna út með Arnarfirði eftir einhverju sem kallaðist vegur og sérlundaður ýtustjóri hafði rutt utan í skriðum af eigin frumkvæði. Á vegaslóðann hafði hrunið grjót í haustrigningum og nú var okkur Einari skipað út til að ryðja veginn en Kristján sat sem fastast undir stýri. Er ekki að orðlengja það að þessi ferð stóð allan þann dag og þegar komið var að stórri fyllu sem fallið hafði og lokað þessu einstigi sagði ég stopp, hingað og ekki lengra. En Kristján steypti þá jeppanum nær lóðrétt niður í fjöruna og fór jafnbratt upp aftur hinu megin við fylluna. „Hvað hefðirðu gert ef þú hefðir ekki komist upp aftur úr fjörunni? spurði ég „það er aðfall og þarna hefðirðu jafnvel tapað jeppanum í sjóinn“. „Ég átti spilið og járnkarlinn eftir“ var svarið.

Ef til vill var eftirminnilegast úr þessari svaðilför tvennt; annarsvegar að koma til þeirrar merku konu Sigríðar að Hrafnabjörgum sem þar bjó ein árum saman langt frá mannabyggðum og að koma að Svalvogum þar sem Kristján var fæddur og uppalinn í fjölmennum systkinahópi. Þó ég segði það ekki upphátt þá varð mér litið til Kristjáns og hugsa sem svo að sá sem fæðist og nær þroska á slíkum stað hlýtur að verða nokkuð sérkennilegur til orðs og æðis. „Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg“? Ég svara því afdráttarlaust játandi og nú mál er að linni.

Fleira áhugavert: