Orkuskipta á Íslandi – Sagan

Grein/Linkur:  Saga orkuskipta á Íslandi

Höfundur: Samorka

Heimild:

.

.

Saga orkuskipta á Íslandi: Frá kolum og olíu í 100% endurnýjanlega orku

Á Íslandi er rafmagn framleitt með endurnýjanlegum hætti og einnig eru notaðir endurnýjanlegir orkugjafar til að hita hús. Þetta hefur ekki alltaf verið svona.

Íslendingar hafa tvisvar gengið í gegnum orkuskipti; þau fyrri þegar hafist var handa við að framleiða rafmagn með vatnsafli og þau síðari þegar olíu var skipt út fyrir jarðhita til að hita hús.

Miðað er við að hér á landi hafi fyrst verið kveikt á rafmagnsljósaperu árið 1899, en þá var olíumótor Ísafoldar tengdur rafala. Árið 1904 hófst síðan rafmagnsframleiðsla í Hafnarfirði, þar sem Hamarskotslækurinn var virkjaður til ljósa fyrir almenna notendur.

Á næstu árum stofnsetti hvert sveitarfélagið af öðru rafveitur og var rafmagnið ýmist framleitt með olíu eða vatnsafli. Eftir síðari heimstyrjöldina var rafmagnsnotkun orðin almenn í þéttbýli í landinu og var þá farið að nota rafmagn til að knýja ýmsar vélar í iðnaði og í atvinnulífinu. Eftir 1960 rísa svo stærri vatnsaflsvirkjanir vítt og breitt um landið. Þróunin hefur verið býsna hröð og nú er raforkuframleiðslan í landinu ein sú umhverfisvænasta sem þekkist í heiminum.

Frumkvæði að rafvæðingunni kom frá athafnasömum einstaklingum, en færðist síðan að mestu til sveitarfélaganna og að lokum til ríkisins. Þannig má segja að raforkuiðnaðurinn sé í opinberri eigu, með einni undantekningu.

Það eru ekki nema fáeinir áratugir síðan Íslendingar nýttu olíu til að kynda húsin sín. Upphaf hitaveitu er gjarnan miðað við framtak tveggja frumkvöðla árin 1908 og 1909, sem veittu hveravatni heim að bæ sínum til upphitunar. Það liðu allnokkur ár þar til stærri samfélagslegar framkvæmdir hófust vegna hitaveitu, en árið 1930 var Laugaveitan tekin í notkun, sem var 3 km pípa úr þvottalaugunum í Laugardal í Reykjavík að Austurbæjarskóla. Mikið átak var gert í þróun hitaveitu hérlendis uppúr 1970, þegar heimsmarkaðsverð á olíu hækkaði mikið.

Nú eru rúmlega 90% híbýla á Íslandi kynt með hitaveitu sem byggir á beinni nýtingu jarðhita. Einnig eru starfræktar nokkrar kyntar hitaveitur, þar sem oftast er notuð raforka sem orkugjafi. Þannig er nær öll húshitun á Íslandi byggð á endurnýjanlegum orkugjöfum, fyrst og fremst jarðhita.

Nú blasa þriðju orkuskiptin við; að skipta út jarðefnaeldsneyti í samgöngum í græna, innlenda orkugjafa. Samkvæmt rannsókn HÍ og HR fyrir Samorku eru orkuskipti í samgöngum þjóðhagslega hagkvæm og mikill ávinningur fyrir umhverfið. Orkuskipti í samgöngum eru eitt stærsta tækifæri fyrir stjórnvöld á Íslandi að standast alþjóðlega samninga í loftslagsmálum.

Fleira áhugavert: