Orkuverð, sagan – Álverðstengin

Grein/Linkur: Landsvirkjun vill draga úr álverðstengingu

Höfundur:  Ketill Sigurjónsson

Heimild:  Orkubloggið

.

Álver Norðuráls Grundartanga

.

Febrúar 2016

Landsvirkjun vill draga úr álverðstengingu

Í grein hér á Orkublogginu  kom fram að raforkuverðið sem Century Aluminum greiðir á Íslandi (vegna álvers Norðuráls á Grundartanga) er með því allra lægsta í heiminum. Hér verður athyglinni beint nánar að þessu orkuverði.
Fyrst er rétt að vekja athygli á því að á liðnu ári skilaði Landsvirkjun auknum hagnaði en rekstrartekjur drógust þó saman (miðað við árið áður). Niðurstaðan verður að teljast mjög viðunandi – miðað við lækkandi álverð (sem merkir lægri tekjur frá Norðuráli og Fjarðaáli) og miðað við lágt gengi á norsku krónunni (sem merkir lægri tekjur frá járnblendiverksmiðju Elkem).

Þarna birtist okkur vel hversu gríðarlega mikilvægt skref það var fyrir Landsvirkjun þegar álverðstenging var tekin út í viðskiptum fyrirtækisins við álver Rio Tinto Alcan í Straumsvík. Þann samning gerði Landsvirkjun við RTA 2010.

Þessi bærilega afkoma Landsvirkjunar núna skýrist einnig af góðu verði vegna raforku sem seld er til gagnavera. Og af ummælum forstjóra Landsvirkjunar núna, er eftirfarandi augljóst. Í nýjum raforkusamningi getur Norðurál (Century Aluminum) ekki vænst þess að raforkuverðið þar verði tengt álverði með þeim hætti sem verið hefur.

Orkuverðið til Norðuráls er með því lægsta í heiminum

Núverandi samningur Norðuráls (Century) og Landsvirkjunar rennur út 2019. Þessi samningur er frá 1997 (var endurskoðaður 1999). Og eins og áður sagði, þá hefur samningurinn tryggt Norðuráli raforku á sannkölluðu botnverði.

Í heiminum öllum eru nú á þriðja hundrað álvera (líklega á bilinu 200-220 eða nálægt því). Fjölgun álvera undanfarin ár hefur verið mikil og hröð vegna stórfelldrar uppbyggingar áliðnaðar í Kína. Af öllum þessum álverum heimsins eru sennilega einungis um fimm álver (utan Kanada) sem greiða lægra raforkuverð en álver Norðuráls. Það er því ekki að undra að raforkuverð Norðuráls gleðji Century Aluminum. Tekið skal fram að helsta ástæða þess að Kanada er þarna sett í sviga, er að þar er fjöldi orkuvera í eigu álfyrirtækja og orkuverðið í þeim viðskiptum mjög lágt. Og í engu samhengi við markaðsverð. Af sömu ástæðu er meðalverð á raforku til álvera í Kanada í reynd óeðlilega lágt.

Electrcity-Tariffs-to-Aluminum-Smelters_World-and-Iceland-2014_Askja-Energy-Partners

Electrcity-Tariffs-to-Aluminum-Smelters_World-and-Iceland-2014_Askja-Energy-Partners

Grafið hér til hliðar sýnir raforkuverð Landsvirkjunar til Norðuráls (og annarra álvera á Íslandi) í samanburði við meðalverð á raforku til álvera í einstökum löndum og svæðum. Eins og sjá má hefur verðið til Norðuráls verið ámóta eins og meðalverð til álvera í Kanada. Það er mjög athyglisvert, því stór hluti álvera í Kanada hefur aðgang að raforku frá vatnsaflsvirkjunum í eigu álfyrirtækisins og njóta mjög lágs raforkuverðs.

Það er líka athyglisvert að raforkuverðið til Fjarðaáls (Alcoa) varla slefar í meðalverðið til álvera í Persaflóaríkjunum. Og það þó svo álverin þar séu að stóru leyti í eigu ríkisfjárfestingasjóða olíuríkjanna þarna, sem svo eiga líka gasorkuverin sem selja álverunum hræódýra raforku. Eins og allir vita er viðskiptamódelið hér á landi allt annað og þess vegna er nánast óeðlilegt að raforkuverð til tveggja álvera hér skuli vera svo lágt að vera nálægt og meira að segja undir Persaflóaverðinu.

Vakin skal athygli á því að grafið hér að ofan sýnir orkuverðin árið 2014. Sem sagt ekki 2015, því ennþá er ekki orðið ljóst hvað öll álver í heiminum voru að greiða fyrir raforkuna að meðaltali árið 2015. Vegna álverðstengingarinnar og lægra álverðs 2015, er þó mjög líklegt að bæði Norðurál og Fjarðaál séu ennþá þarna lengst til vinstri á grafinu. Þ.e. þau eru ennþá meðal þeirra örfáu álvera sem njóta lægsta raforkuverðs af öllum álverum heimsins. Enda var raforkuverðið til þessara tveggja álvera ennþá lægra árið 2015 en það var 2014. Sbr. grafið sem sjá má hér.

Ámóta lágt orkuverð til HS Orku og ON/OR

Nefna má að raforkuverðið sem Norðurál greiðir HS Orku og ON/OR er sennilega mjög svipað eins og verðið sem Norðurál greiðir Landsvirkjun. Þeir samningar eru þó örlítið yngri og því er mögulegt að orkuverðið til hinna raforkufyrirtækjanna tveggja sé eilítið hærra en verð Norðuráls til Landsvirkjunar. En munurinn er sennilega mjög lítill. Enda stærir Century sig af því að raforkuverðið á Íslandi sé svo lágt að það skapi Norðuráli svo gott sem áhættulausan rekstur.

RTA_Canada-Alma-Smelter

RTA_Canada-Alma-Smelter

Tekið skal fram, að það að álver Norðuráls er lengst til vinstri á grafinu hér að ofan þýðir ekki að þetta sé það álver heimsins sem greiðir lægsta raforkuverðið af öllum álverum veraldarinnar. Þetta merkir einfaldlega að verðið til Norðuráls var lægra eða ámóta eins og meðalverðið til álvera í Kanada árið 2014. Svo og talsvert lægra en meðalverðið í Persaflóaríkjunum, lægra en meðalverð til álvera í Rússlandi, miklu lægra en meðalverð til álvera í Afríku o.s.frv. Álver Norðuráls svo og álver Fjarðaáls njóta sem sagt sannkallaðs botnverðs. Einungis örfá álver í heiminum greiða lægra raforkuverð.

Straumsvíkurverið er vel samkeppnishæft í alþjóðlegu samhengi

Það er einnig viðeigandi að benda lesendum á að það íslenska álver sem er að greiða langhæsta raforkuverðið af álverunum hérlendis, þ.e. álverið í Straumsvík, er að greiða svipað verð eins og álver Century í Bandaríkjunum gera þessa dagana. Í kynningu Century í liðinni viku kom fram að raforkuverðið sem álver fyrirtækisins vestra eru að greiða liggur nú á bilinu 30-35 USD/MWst. Raforkuverðið sem Straumsvík (ÍSAL) er að greiða er einmitt líka á þessu bili.

Þar með mætti álykta að samkeppnisstaða álvers RTA í Straumsvík sé svipuð eins og hjá álverum Century í Bandaríkjunum. En sennilega er samkeppnisstaða Straumsvíkur-versins mun sterkari eða a.m.k. vænlegri til lengri tíma litið. Álver Century vestra eru nefnilega að kaupa orku á spot-markaði og ef verðið þar hækkar mun raforkuverð álvera Century þarna vestra líka hækka. Straumsvík er aftur á móti algerlega laust við þessa áhættu; þar er orkuverðið fast (nema hvað það er bundið bandarískri neysluvísitölu, sem er mjög stöðug og stóð nánast í stað á liðnu ári; 2015). Þess vegna er unnt að álykta að álverið í Straumsvík er samkeppnishæft í alþjóðlegum samanburði og stendur líka betur að vígi en álverin í Bandaríkjunum. Þó svo lágt álverð nú um stundir þrengi auðvitað að tekjum fyrirtækisins – meðan það ástand varir. Það er rekstraráhætta sem eðlilegt er að hvíli á álfyrirtækinu.

Raforkuverð Norðuráls og Fjarðaáls 2015 var ennþá lægra en 2014

Taka má fram að árið 2015 greiddu bæði álver Norðuráls (Century) og álver Fjarðaáls (Alcoa) um og undir 20 USD/MWst að meðaltali fyrir raforkuna frá Landsvirkjun. Orkuverðið sem Norðurál greiðir er eilítið lægra en það sem Fjarðaál greiðir. Og orkuverðið sem þessi tvö álver greiddu 2015 var lægra en árið áður (2014). Ástæðan er lækkandi álverð; orkusamningar beggja fyrirtækjanna eru með þeim hætti að raforkuverðið er tengt álverði.

Electricity-tariffs-to-aluminum-smelters-in-iceland_2005-2015-and-likely-price-increase-to-nordural-century-2019_askja-energy-partners-2016

Electricity-tariffs-to-aluminum-smelters-in-iceland_2005-2015-and-likely-price-increase-to-nordural-century-2019_askja-energy-partners-2016

Þess vegna lækkuðu meðaltekjur Landsvirkjunar af hverri seldri megavattstund. Og þess vegna lækkuðu rekstrartekjur Landsvirkjunar, eins og fréttir birtust af.

Reyndar var minnst á þetta hér á Orkublogginu öllu fyrr! Eða fyrir nokkrum vikum síðan. Svo og á hinum fjölsótta upplýsingavef um orku á Norðurslóðum; Icelandic Energy Portal.

Orkubloggarinn veit nefnilega hvaða orkuverð álverin hér greiða á hverjum tíma. Og þarf þess vegna ekki að bíða eftir ársreikningi Landsvirkjunar til að átta sig á þróun rekstrartekna fyrirtækisins. Og þess skal getið að rauða örin á stöplaritinu hér að ofan, gefur til kynna hvað má ætla að verði umsamið raforkuverð í nýjum orkusamningi Landsvirkjunar og Norðuráls. Þ.e. ef samningar nást á milli fyrirtækjanna um áframhaldandi raforkusölu eftir 2019. Það er reyndar mögulegt að þarna náist ekki samningar. Og þá einfaldlega missir Norðurál af orkunni og hún seld öðrum.

Loks má hafa í huga að flutningskostnaður vegna raforkunnar er innifalinn í ofangreindu raforkuverði álveranna. Þessi kostnaður hér á Íslandi var sennilega almennt nálægt 6 USD/MWst árið 2015. Þann kostnað þarf Landsvirkjun að inna af hendi til Landsnets. Þess vegna fékk Landsvirkjun í reynd minna en 15 USD að meðaltali fyrir megavattstundina frá Norðuráli og Fjarðaáli á árinu 2015. Bara svo það sé á hreinu.

Fleira áhugavert: