Jarðbor Óðinn – Rafvæddur, umhverfisvænn
Grein/Linkur: Orka náttúrunnar tryggir sér rafvæddan og umhverfisvænni bor
Höfundur: Orka Náttúrunnar
.
.
Júní 2024
Orka náttúrunnar tryggir sér rafvæddan og umhverfisvænni bor
Orka náttúrunnar og Jarðboranir hafa skrifað undir samkomulag um að Jarðboranir taki að sér borun á átta vinnsluholum Orku náttúrunnar á Hengilssvæðinu sem fer fram á árunum 2025-2027. Samkomulagið stuðlar að því að framleiðslugeta Hellisheiðarvirkjunar og Nesjavallavirkjunar haldist að fullu sem er lykilþáttur í orkuframleiðslu ON.
Árni Hrannar Haraldsson, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, leggur áherslu á mikilvægi verkefnisins.
„Það er afskaplega mikilvægt að halda áfram að afla orku með þeim leiðum sem við þekkjum. Orka náttúrunnar er mikilvægur framleiðandi á bæði heitu vatni og rafmagni og viljum við geta haldið óskertri þjónustu við okkar viðskiptavini til framtíðar. Samstarf okkar við Jarðboranir hefur verið mjög gott og hlökkum við til að halda því áfram með það að markmiði að viðhalda þeim lífsgæðum sem Orka náttúrunnar skapar fyrir fólkið í landinu.“
Vinnsluholurnar eru nauðsynlegar til að bæta upp náttúrulega dvínun háhitakerfa á svæðinu og viðhalda stöðugri framleiðslugetu fyrir rafmagn og vatn. Það er eðli allra háhitakerfa að gæfni þeirra, bæði hvað varðar vatn og gufu, dvínar þegar þau fara í nýtingu, því þarf að bora uppbótar vinnsluholur.
Framkvæmdin er einnig mikilvæg til að mæta þörf næstu áratuga en núverandi svæði standa ekki undir vexti í eftirspurn miðað við spár um íbúaþróun á höfuðborgarsvæðinu. Þá eru horfur á verulegri stækkun raforkumarkaðar á Íslandi vegna markmiða um að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2040.
Rafvæddur og umhverfisvænni bor
Jarðboranir munu bora þrjár holur á Nesjavöllum, eina á Helllisheiði og fjórar í Hverahlíð. Með verkefninu er stefnt að því að auka og viðhalda orkuvinnslu til framtíðar á ábyrgan og umhverfisvænan hátt. ON leggur mikla áherslu á umhverfismál og var ein af útboðskröfum verkefnisins að borinn sem yrði notaður væri knúinn af rafmagni.
Sveinn Hannesson, forstjóri Jarðborana segir að borinn Óðinn hafi verið rafvæddur í tengslum við verkefnið og mun það spara yfir tvær milljónir lítra af díselolíu. „Við hjá Jarðborunum erum einstaklega ánægð með að þetta verkefni sé að fara af stað. Sú sérþekking sem hefur byggst upp undanfarna áratugi hjá Jarðborunum mun nýtast vel við þessar spennandi holur sem á að fara að bora. Við höfum átt langt og farsælt samstarf við ON og sjáum fram á að það haldi áfram næstu árin. Nú tekur við tími hjá báðum fyrirtækjum við að undirbúa þessar stóru framkvæmdir sem hefjast í maí 2025.“
Áframhaldandi farsælt samstarf
Orka náttúrunnar og Jarðboranir hafa lengi átt farsælt samstarf en Jarðboranir hafa borað hátt í 100 holur fyrir ON á undanförnum 35 árum.