Klósettskálin – Möguleikar, þægindi

Grein/Linkur:  Láttu þér líða vel í baðinu

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

.

Febrúar 1994

Láttu þér líða vel í baðinu

Ert þí að byggja nýtt hús, eignast íbúð eða endurnýja gamla er eitt öruggt. Þú leggur ekki hvað minnsta áherslu á að gera baðherbergið vel úr garði. Á síðustu árum hefur orðið stórstíg þróun í baðtækjum. Sjálfvirk baðblöndunartæki þykja nú orðið sjálfsagður hlutur. Þau eru ekki aðeins til þæginda; við sem búum við heitt vatn úr krönum, sem kann að vera 75 stiga heitt, þurfum á þeim að halda sem öryggistæki. Það er hægt að stórskaða sig á svo heitu vatni ef það rennur beint á hörund. Slík slys hafa því miður komið fyrir. Með sjálfvirku blöndunartæki má segja að slík hætta sé úr sögunni.

Úrval annarra tækja hefur einnig aukist bæði í gerðum og litavali.

Hvers vegna stendur klósettskálin á gólfinu?

En ef grannt er skoðað hefur baðherbergið sáralítið breyst í gegnum árin. Skipulagið er það sama; við höldum áfram að innmúra baðker og munum efalaust gera það í næstu framtíð, við skrúfum klósettskálina á gólfið og setjum fallegan fót undir handlaugina.

En hversvegna skrúfum við klósettskálina á gólfið og setjum fallegan fót undir handlaugina? Af því að það er nauðsynlegt mun margur ætla.

Nei, ástæðan er sú að þeir sem hanna þessi fallegu tæki eru karlar sem aldrei hafa þurft að skúra gólfið, hvorki í baðherbergi eða í öðrum hýbýlum. Ein spurning fyrir ræstitækni heimilisins; væri ekki ólíkt þægilegra að þrífa baðherbergið ef enginn fótur væri undir handlauginni (sem er líklega ekki hjá þér) eða ef klósettskálin stæði ekki á gólfinu heldur væri hengd á vegginn? Væri ekki þægilegra að þrífa gólfið.

Líklega hef ég hönnuði tækjanna fyrir rangri sök. Það eru ekki þeir sem ákveða hvaða tæki eru notuð. Í flestum tilfellum eru það byggingameistarar og hönnuðir. Þeir gera eins og þeir hafa alltaf gert.

Vegghengda klósettið hefur nefnilega verið til í áratugi. Hvers vegna er það ekki notað meira? Er ekki komin tími til að hin „hagsýna húsmóðir“ taki málin í sínar hendur?

Möguleikar og þægindi

Möguleikarnir eru oft fleiri en við höldum. Við þekkjum aðdráttarafl jarðar og vitum að vegna þess rennur vatn niðurímóti. Verður þá ekki allt frárennsli, hvort sem er frá handlaug eða klósettskál að renna niður? Tæplega rennur það upp? Jú, það getur runnið uppávið, nákvæmlega á sama hátt og heita vatnið í ofnunum eða baðvatnið.

Varstu að hugsa um að útbúa lítið baðherbergi á stað þar sem ekki er hægt að komast í nægilega vítt frárennslisrör? Það er hægt að útbúa baðherbergi hvar sem er. Það er hægt að dæla frárennsli frá baðherbergi. Dæla er sett á útrennsli klósettskálarinnar og þar við tengist frárennsli frá handlaug og sturtu (eða baðkeri). Frá dælunni þarf aðeins lögn sem er um 3 sm í þvermál. Þá leiðslu má síðan leggja upp á næstu hæð eða um þó nokkra vegalengd. Þessi búnaður er meira að segja fáanlegur hérlendis.

Fleira áhugavert: