Einn af þeim mörkuðum sem Landsvirkjun fylgist sérstaklega vel með er Skandinavía, en greiningarfyrirtækið Volue gaf nýlega út skýrslu um þróun raforkumála á svæðinu. Hér verður farið yfir helstu niðurstöður skýrslunnar.
Danmörk, Noregur, Svíþjóð og Finnland tilheyra sameiginlegum raforkumarkaði sem heitir Nord Pool. Þótt markaðurinn nái til fleiri landa, kemur meginhluti raforkunnar sem er í boði til kaups og sölu frá þessum löndum. Að jafnaði flytur Skandinavía út raforku, enda eru Norðmenn og Svíar ríkir af vatnsafli sem er sveigjanlegt, eins og Íslendingar þekkja vel. Vatnsafl er uppspretta 50% orkuvinnslunnar í Skandinavíu, en auk þess er unnin kjarnorka, vindorka, sólarorka og raforka úr jarðefnaeldsneyti í litlu magni.
Vindorka og sólarorka eru oft nefnd óstýranlegir orkukostir, þar sem við getum ekki stýrt því hvenær vindurinn blæs eða sólin skín. Þessi sveiflukennda raforkuvinnsla samræmist vel stýranleika vatnsaflsvirkjana, þar sem uppistöðulón þeirra virka sem eins konar batterí sem hægt er að nýta þegar myrkva tekur eða vind lægir.