Fráveita – Njáll ók skarni á hóla

Grein/Linkur: Njáll ók skarni á hóla

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

Apríl 1994

Njáll ók skarni á hóla

Njáll á Bergþórshvoli. Sagan segir að hann var góður maður, vitur, hógvær og réttsýnn. Hann var snjall lögmaður og stálminnugur.

Njáll á Bergþórshvoli hefur löngum verið talinn einn af helstu spekingum og vitmönnum landnámsaldar. Sumir halda því fram að sú frásögn flökkukvenna að „Njáll hafi ekið skarni á hóla“ sanni að Njáll hafi verið á undan samtíðarmönnum sínum; hann einn hafi skilið þýðingu skarnsins fyrir gróður og grös.

Þessi skilningur er efalaust alrangur. Landnámsmenn, sem höfðu á valdi sínu stjörnufræði, stærðfræði að ógleymdri dulfræði, þekktu hringrás lífsins til hlítar. Þeir skildu að það verður að skila aftur til náttúunnar því sem frá henni er tekið, þó þeir féllu í gryfju rányrkjunar. Á hverjum bæ hafa menn notað tað og mykju til að auka vöxt grasa.

Snobb og pempíuháttur

En hvers vegna voru förukonur að segja frá þessum gerðum Njáls, ef ekki til að ófrægja hann?

Það hefur einmitt verið meiningin, en ekki til að sýna að spekingurinn væri heimskur búandkall. Nei þarna er, strax á landnámsöld, snobbið komið til sögunar; feðgarnir á Bergþórshvoli voru að verkum sem ekki voru fín. Þeir voru að vinna við kúamykju og hlandfor, hvorki meira né minna. Sú ljóshærða á pinnahælunum með túberaða hárið var ekki að finna upp snobbið þegar hún sagði við unga manninn með brilljantínið: „Oj bara, ertu að vinna við klósett og svoleiðis“ þegar hún fékk að vita að hann væri að læra pípulagnir. Þessi sérkennilegi formáli er til kominn vegna þess að ætlunin er að ræða hér örlítið um salerni, einkum í sumarbústöðum. Og af langri reynslu veit pistilshöfundur að hvergi á byggðu bóli eru menn jafn pempíulegir þegar þetta ber á góma í rituðu máli og á okkar ástkæra hólma.

Vandamál í sumarbústöðum

Nú er rétt að spyrja þá sem reynsluna hafa, sumarbústaðaeigendur; er þetta ekki rétt? Eru ekki vandamál víða með það sem frá salernum kemur?

Göngum út frá að svo sé. En er það ekki eimmitt oft á tímum vegna þess að okkur finnst þessar afurðir feimnismál? Hvernig væri að breyta um afstöðu þannig:

Að líta á þetta sömu augum og meðhöndla það á sama hátt og bændur landsins gerðu í gegnum aldir; skila því aftur til náttúrunnar til að auka gróður, nota það í baráttunni við þá hrikalegu gróðureyðingu sem er að eyða landinu okkar. Er það skynsamlegt að ausa tilbúnum áburði yfir holt og mela?

Þetta má gera á margan hátt. Á meðfylgjandi mynd sést ósköp einfaldur tankur. Í hann rennur einungis afrennsi frá salerni en ekki frá handlaug, vaski eða baði.

Ekki er verra að við salernið sé dæla sem saxar alla fasta hluti, þar með talinn pappír. Á miðjum tankinum er stútur til losunar.

Og hvað skal gera við innihaldið?

Dreifa þvi um tún og engi eða holt og hæðir

Þetta gerðu Njáll á Bergþórshvoli og synir hans.

Róttæk hugmynd

Sveitarfélög hvarvetna á landinu leggja miklar fjárhæðir í að koma frárennsli sem lengst frá byggðum bólum, sumstaðar eru reistar dýrar hreinsistöðvar.

Svolítil hneykslunarhugmynd að lokum.

Eigum við að skipuleggja og byggjahverfi þar sem við aðskiljum frárennsli á framangreindan hátt, salerni sér og handlaug,vaskur og bað sér.

Við hvert hús verði safntankur, sem ekki þarf að tæma oft. Síðan hefjum við uppgræðslu lands með svo sannarlega náttúruvænum efnum.

Fleira áhugavert: