Plaströr – Hvar má nota þau

Grein/Linkur:  Ákvarðanir byggist á þekkingu, ekki geðþótta

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

Júlí 1999

Ákvarðanir byggist á þekkingu, ekki geðþótta

 Ákvarðanir byggist á þekkingu, ekki geðþótta Það er í gangi ótrúlegur og sterkur áróður fyrir uppsetningu og notkun millihitara. Oftast er það ekki rökstutt á nokkurn hátt, af hverju skuli nota þá.

Ákvarðanataka er oft erfið og of oft koma menn sér hjá að taka ákvarðanir, benda heldur á einhvern annan og segja sem svo: Hann segir að þetta verði að vera svona. Oftast er þetta þá einhver, sem er hærra í goggunarröðinni, sem höfðað er til og stundum vilja þeir sem neðar eru beinlínis hlíta þessu hærra valdi í flestu, sérstaklega þó ef vafi er um ákvörðun, þá er gott að geta skírskotað upp á við. Þetta gerist ósjaldan þegar rætt er við hönnuði lagnakerfa, þá er oft sagt sem svo þegar spurt er um ákveðnar lausnir sem valdar hafa verið; byggingarfulltrúi gerir kröfu um þetta. Það skondnasta er þó, ef eitthvað er skondið í slíku, að síðan kemur oft upptalning; að minnsta kosti í Reykjavík, líklega í Hafnarfirði, veit ekki um Kópavog. Að sjálfsögðu á þetta ekki að vera neitt vafamál og allra síst að það geti verið mismunandi „krafa“ sitthvorum megin lækjar, aðeins vegna þess að lækurinn er mörk sveitarfélaga.

Plaströrin 

Margir velkjast í vafa um hvernig eða hvort nota megi plaströr í lagnakerfi og það er ekki óeðlilegt, þetta er tiltölulega ungt efni og ekki af því sama reynsla eins og t.d. stálrörum. Það er vissulega ekki vanþörf á að þeir sem hanna og leggja plaströrakerfi viti hvað þeir eru með í höndum, því að það eru til svo margar gerðir plaströra og umfram allt verður að muna þetta; plaströr eru ekkert kraftaverkaefni sem bjóða má allt og það er ekki „barnaleikur“ að leggja plaströr eins og einn innlendur framleiðandi plaströra auglýsti fyrir nokkrum árum. En varúðin má ekki verða að þeirri áráttu að alltaf komi upp einhverjar nánast sérviskulegar kröfur þegar nota á plaströr. Ein slík krafa er að það verði að nota millihitara ef nota á plaströr í neysluvatnslagnir fyrir heitt vatn eða í miðstöðvarlagnir.

Það er í gangi ótrúlegur og sterkur áróður fyrir uppsetningu og notkun millihitara en oftast er það ekki rökstutt á neinn hátt af hverju skuli nota þá. Þeir sem fyrirskipa þá, hvort sem það eru hönnuðir, byggingafulltrúar eða pípulagningamenn (þeir eru nú svo neðarlega í goggunarröðinni að þeir fyrirskipa hvorki eitt né neitt) gera það oftast vegna hitans á vatninu. Er þörf á millihitara á hitaveitusvæðum hérlendis vegna hita á vatninu?

Ekki á höfuðborgarsvæðinu, ekki á Akureyri, ekki á Akranesi, kannski í Varmahlíð, þar er vatnið yfir 90 gráður á C; sjálfsagt að athuga það á hverju veitusvæði.

Hvað þola plaströr heitt vatn? 

Þegar litið er á það verður alltaf að taka tillit til tveggja þátta saman, í fyrsta lagi hvað vatnið er heitt og hve mikill þrýstingur verður í kerfinu. Þó reynsla af plaströrum sé miklu styttri en af stálrörum er þó komin mikil reynsla af notkun plaströra, þau hafa verið í notkun í meira en hálfa öld, en mismunandi eftir gerð og tegund. Svörtu plaströrin frá Reykjalundi hafa verið í notkun hérlendis í hartnær hálfa öld og pex plaströr í yfir aldarfjórðung, svo dæmi séu tekin. En það er búið að semja staðla um hita- og þrýstiþol plaströra svo það er óþarfi fyrir lagnamenn að ganga sífellt með axlabönd og belti vegna eigin óvissu, eins og t. d. að fyrirskipa að það verði að nota pex plaströr í gólfhitakerfi.

Hvað segja þýskir staðlar um hita- og þrýstiþol algengustu plaströra? 

Lítum fyrst á hin notadrjúgu pex plaströr, þýski staðallinn DIN 16 892 segir að notir þú pex plaströr í neysluvatnslögn eða miðstöðvarlögn í 50 ár má stöðugur þrýstingur vera 7,1 bar ef hiti vatnsins er 70 gráður á C. Engum dettur hins vegar í hug að hafa svo mikinn þrýsting á sínum kerfum jafnvel þó það sé hægt, á neysluvatnskerfum er nægilegur þrýstingur 4 bör og miðstöðvarkerfum 1 – 2 bör. Það er því engin hætta á ferðum þó hitinn fari upp í 75 gráður, sem er algengur hiti í hitaveitum hérlendis.

Polybuten plaströr eru framleidd hérlendis og til margra hluta nytsamleg, þó ekki séu þau notuð í neyslu- eða hitakerfi innanhúss nema í gólfhitakerfi. Þau hafa hinsvegar talsvert verið notuð í dreifikerfi hitaveitna í strjálbýli og sami staðall segir að ef þau séu notuð til að flytja 70 gráða heitt vatn og þrýstingurinn sé 6,1 bar sé örugg ending í 30 ár, en örugg í 50 ár ef hiti er ekki nema 60 gráður. Polypropen plaströr eru mikið notuð í frárennslislagnir og þó nokkuð í kaldavatnslagnir, en hvað skyldu þau þola mikinn hita og þrýsting? Samkv. þýska staðlinum DIN 8077 endast þau í 50 ár ef hitastig vatnsins er 60 gráður á C, þrýstingur 5,5 bör. Ef hitastigið er 70 gráður endast þau í 30 ár ef þrýstingur er 4,4 bör. Að lokum má nefna PVC-C plaströr, þau hafa 50 ára endingu ef hitastig vatns er 60 gráður og þrýstingur 4,3 bör.

Svo er hægt að flækja málið enn frekar með því að nefna að plaströr eru framleidd í mismunandi þrýstiflokkum, þar sem þeir helstu heita PN6, PN10 og PN 16, en svo eru einnig til önnur heiti yfir þrýstiflokkana en nú er nóg komið um staðla og tölur. En að lokum þetta, ef hönnuður eða byggingafulltrúi segir þér, húsbyggjandi, að þú verðir að leggja í aukakostnað upp á nokkra tugi þúsunda með því að nota millihitara vegna þess að þú ætlar að láta leggja kerfi úr plaströrum, þá skaltu óska eftir rökstuðningi.

Þá er ekki nóg að Páll bendi á Pétur og Pétur aftur á Pál.

Plaströr hafa marga góða eiginleika, en einnig sín takmörk.

Fleira áhugavert: