Bætt vinnuumhverfi – Hættur leynast víða
Grein/Linkur: Mundu eftir sjálfum þér
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
.
September 1994
Mundu eftir sjálfum þér
Meðal margra mikilvægra verkefna lagnamanna er að bæta vinnuumhverfi margra stétta. Það er þeirra hlutskipti að hanna og leggja hita- og loftræstikerfi. Kröfurnar um betra umhverfi á vinnustað eru stöðugt að aukast og skilningur á réttmæti þeirra einnig. Þetta á við um skrifstofur, verslanir, skóla, verksmiðjur; já, meira að segja skip og flugvélar.
Það er eins og að í allri þessari vakningu gleymist ákveðnir hópar. Þar má einmitt nefna þá sem eiga að tryggja öðrum betra umhverfi; lagnamennina sjálfa. Þetta á raunar við um alla byggingariðnaðarmenn, þó viðhorfin hafi mikið batnað á síðustu áratugum. Fyrir 30-40 árum þótti það hlálegt að byggingariðnaðarmenn ættu kost á sérstöku afdrepi til að drekka sopann sinn, hvað þá heldur að þeir hefðu aðgang að salerni og vaski.
En þetta hefur mikið breyst. Byggingarfyrirtækjum hefur verið veitt viðurkenning fyrir að útbúa kaffistofur, salerni og búningsherbergi á vinnustöðum. En þetta segir sína sögu; þetta er ekki sjálfgefið.
Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að oft verða lagnamenn að vinna við óheilbrigðar aðstæður, í ryki, sagga, þrengslum og kulda.
Þessu verður varla breytt algjörlega, en margt má bæta.
Hættur leynast víða
En það alvarlegasta er að oft eru menn blindir á þær hættur, sem jafnvel eru við hvert fótmál.
Margskonar efni, sem unnið er með, eru hættuleg. Að líma saman plaströr er tengingaraðferð sem er að aukast. En þá er eins gott að muna að góð loftræsting er nauðsyn, jafnvel að nota grímur. Og ekki má gleyma eldhættunni.
En það geta einnig myndast hættur, þó efnin sem unnið er með séu að öllu leyti skaðlaus.
Nýlegt dæmi er að ekki munaði nema hársbreidd að dauðaslys yrði í pramma í Reykjavíkurhöfn þegar menn fóru niður í lestina.
Hver var ástæðan?
Ekki eitraðar gastegundir eins og ætla mætti í fyrstu. Það var súrefnisskortur, sem stafaði af því að málmtæring hafði eytt öllu súrefni í lestinni. Tæring, öðru nafni ryðmyndun, gerist einmitt þegar raki og súrefni ná saman og brjóta niður málma. Í lokuðu rými er þetta stórhættulegt, súrefnið eyðist, ekki streymir nýtt inn í staðinn vegna þess að súrefnissnauða loftið er þyngra.
Fleiri fallgryfjur
Það eru til einföld mælitæki til að kanna hvort hættulegur súrefnisskortur er í tönkum, lestum og gryfjum. Gömul holræsi, sérstaklega lítt eða ekki notuð, geta einnig verið lífshættuleg. Holræsi með stöðugu rennsli eru það síður; rotnun verður hverfandi og stöðugt innsog er af fersku lofti.
Á ákveðnu tímabili var það vinsælt hjá lagnahönnuðum að teikna svokallaða skriðkjallara. Í þeim urðu iðnaðarmenn að vinna skríðandi í bókstaflegri merkingu. Lofthæðin var oft á tíðum ekki nema einn metri. Skríðandi á slíkum vinnustað var oft hugsað; það ætti að skylda alla hönnuði að reyna slíkar vistarverur, þá mundi þeim eflaust hverfa. Þeim hefur fækkað, sem betur fer.
Djúpir skurðir, þar sem lögð eru t.d. frárennsli, eru oft slysagildrur og ekki eru mörg ár síðan átakanleg banaslys urðu við þær aðstæður þegar skurður hrundi saman.
Ef ekið er um gömlu íbúðahverfin og skyggnst upp á þök sambýlishúsa má hvarvetna sjá þakglugga. Oft eru þetta gluggar á nýtanlegu húsnæði, en oftar en ekki er eingöngu um hanabjálka að ræða. Á nýrri fjölbýlishúsum sjást ekki þakgluggar, efalaust felldir brott til sparnaðar.
Er þeirra nokkur þörf?
Líklega ekki að flestra áliti. En á vissu byggingarstigi og raunar einnig seinna meir, er þetta vinnustaður.
Vinnustaður lagnamanna. Þarna uppi (í skriðhanabjálka) þarf að leggja útloftunarleiðslur frárennslisröra. Þarna eru jafnvel lagðar ýmsar aðrar leiðslur. Þarna geta verið tengingar fyrir loftnet og fleira og fleira.
Allt þarf þetta viðhald svo oft kunna lagnamenn að neyðast til að gera þetta rými að vinnustað sínum.
Hvað gerist ef eldur verður laus í húsinu? Hvað gerist ef þykkur reykur fyllir stigaganginn og einhver er á því augnabliki staddur uppi í hanabjálkanum, þar sem er enginn þakgluggi? Hann á sér enga undankomuleið.
Hann er glataður eins og rotta í gildru.